27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3848 í B-deild Alþingistíðinda. (2775)

124. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í umr. við hv. 3. þm. Reykv. út af þessari þáltill., heldur að skýra frá því hvernig þessum málum er nú komið.

Það er kunnara en frá þurfi að segja og kom fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. áðan, að á sínum tíma var samþ. hér á hv. Alþ. heimild til undanþágu frá greiðslu í sambandi við útvarp og sjónvarp. Framkvæmdin á þessu máli hefur valdið á margan hátt verulegum erfiðleikum. Það eru fleiri atriði, sem varða þetta fólk sem hér er um fjallað, aldraða, öryrkja fatlað fólk, heldur en útvarp, sjónvarp og sími, og það hefur orðið samkomulag á milli okkar fjögurra ráðh.: fjmrh., heilbrrh., menntmrh. og mín, en okkur alla varða þessi mál, að setja í það menn sem færir eru til þess að taka þessi mál fyrir í einni heild. Þessa yfirlýsingu gaf ég í hv. Ed. nú fyrir tveimur dögum eða svo, og varð hún til þess að mál, sem þar var fjallað um í sambandi við fatl­aða, var dregið til baka, en eins og kunnugt er mundi inn í þetta mál falla líka endurskoðun í sambandi við bifreiðar til fatlaðra, því að það mál hefur líka verið til meðhöndlunar og reynt að koma fyrir á sem hagkvæmastan hátt, en verðbreytingar hafa haft þar veruleg áhrif.

Það, sem verður því gert í þessu máli, er í samræmi við það sem ég hef áður sagt, að það eru margs konar vandkvæði á því að láta ein­stakar stofnanir vera að fjalla um svona mál og langeðlilegast að taka þetta fyrir í heild, og ég get ekki séð að annar aðili sé betri til að sjá um framkvæmd málsins heldur en Tryggingastofnun ríkisins. Hvort það verður endanleg niðurstaða þeirra, sem um þetta fjalla, skal ég ekki segja, en það var mat okkar þessara fjórmenninga, þeg­ar við ræddum þetta, að best mundi vera að koma þessum málum þar fyrir, sú stofnun hefði langbesta yfirlitið til þess að meta þetta þann­ig að ekki væri um misnotkun að ræða og að þeir nytu sem njóta ættu og eftir eðlilegum leiðum. Þess vegna verður að þessu máli unnið.

Ég tel að væri óeðlilegt að fara að afgreiða þessa þáltill. hér og það án þess að hún færi til n., enda mundi hún engu breyta um það, að að þessu máli verður unnið á þann veg sem ég hef nú skýrt frá. Um það mundu hinir ráðh. geta vitnað ef þeir væru hér. Það verður gengið í það að fjalla um þessi mál og reyna að leysa þau á sem farsælastan hátt. Okkur er ljós þörfin, en við sáum ýmis vandkvæði og höfum rekið okkur á ýmis vandkvæði í sambandi við að einstakar stofnanir væru um þetta að fjalla. Þess vegna vildum við setja málið í eina heild.

Ég vona að hv. þm., sem fyrir till. talaði, geti fallist á að láta þetta mál falla niður eftir þessa yfirlýsingu mína.