27.04.1977
Neðri deild: 74. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3850 í B-deild Alþingistíðinda. (2777)

124. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Enda þótt ræða hv. 3. þm. Reykv. gæfi tilefni til þess að fara hér út í deilur vegna þeirra að­dróttana sem í henni voru, þá ætla ég ekki að gera það. Ég vil hins vegar segja hv. 3. þm. Reykv. það, að einn af samherjum hans í hv. Ed., hv. 5. þm. Norðurl. e., taldi þessa leið heppi­legustu leiðina til þess að leysa þessi vandamál, og ég gat ekki annað merkt af hans orðum en að hann væri mér sammála um að eðlilegra væri að okkar sameiginlegi sjóður, ríkissjóður, leysti slík mál, heldur en einstakar stofnanir ríkisins, því að það er náttúrlega afar misjafnt hvað til þeirra kæmi af slíkum málum. Og ég held að það leyni sér ekki að útvarpið ber sig heldur illa undan þessu. Þess vegna var það álit okkar að best væri að reyna að finna eina heildar­lausn á málinu. Ég ætla því ekki að fara að þreyta neinar kappræður um þetta mál hér. Sú leið verður farin, sem ég hef þegar sagt frá, að vinna að þessum málum sameiginlega.

Ef hv. þm. heldur fast við till., þá geri ég það jafnframt að till. minni að henni verði vísað til samgn., því að það er óeðlilegt að afgreiða slík mál án þess að kynna sér þau betur en kom fram í ræðu hv. þm. En ég ætla ekki að fara að þreyta hér neinar kappræður um þetta mál.