14.10.1976
Neðri deild: 3. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Þetta frv. fjallar, eins og hv. þm. er kunnugt, um nýtt embætti, embætti rannsóknarlögreglu ríkisins. Það hefur komið fram í umr. að það var lagt fram í fyrra og hlaut ekki afgreiðslu í allshn. Nd. þá. Að gefnu tilefni langar mig að fara nokkrum orðum um þetta atriði.

Það hefur orðið tilefni deilna milli stjórnarflokkanna annars vegar og hins vegar stjórnarandstöðuflokkanna og þá sérstaklega hv. þm. Sighvats Björgvinssonar að frv. hlaut ekki afgreiðslu í fyrra, og hafa gengið þar ásakanir á víxl. Ég fylgdi stjórnarmeirihl. að máli í vor þegar var lagt til að ekki skyldi hrapað að afgreiðslu málsins. Það var skammt til þingloka og frv. lítið eða ekki rætt í n. Það má auðvitað velta því fyrir sér hvort ekki hefði verið hægt að taka það fyrr til umr., en eins og málum var komið þá taldi ég réttara að afgreiða þetta mál ekki í flýti, en biða með það til haustsins, sérstaklega með tilliti til aths., sem komið höfðu fram, og með tilliti til þess, að það átti ekki að taka gildi fyrr en um næstu áramót. Hitt má gjarnan fylgja með, að till. um heimild dómsmrh. til fjölgunar starfsmönnum var líka lögð í salt og var ég því andvíg. Hún hefði veitt dómsmrh. heimild til þess að fjölga starfsmönnum þótt þetta frv. hefði ekki orðið að lögum. Þær hnútur, sem gengið hafa á milli stjórnarflokkanna í þessu máli í málgögnum þeirra í sumar, held ég að skipti ekki sköpum hvað meðferð dómsmála varðar. Ég held að þær séu merki um dýpri innri átök, og verða þeir að eiga það við sjálfa sig.

Ég vil leggja áherslu á það hér, að um þessi mál verði fjallað hér á Alþ. án þeirrar móðursýki sem mér hefur fundist gæta í skrifum dagblaða og umfjöllun fjölmiðla í sumar. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um það, að löggjöf skiptir ekki öllu máli um hversu vel er frá hnútum gengið eða um afbrotatíðni yfirleitt. Ég hlýt að segja það, þótt ég efist að vísu ekki um góðan vilja þeirra Alþýðublaðsmanna og hv. þm. Alþfl., að mér hefur þótt þeir fara yfir markið. Það er hægt að gera þær kröfur um fjölgun lögreglu og eflingu réttarríkis að við göngum með því á rétt þegnanna í þessu þjóðfélagi. Það er hægt að hafa svo hátt að hró,pin verði: Krossfestið hann, krossfestið hann, áður en dómur er genginn. Og þetta hygg ég að allir alþm. verði að hafa í huga.

Einnig hefur vantað í þessar umr. í fjölmiðlum það sem hæstv. dómsmrh. kom hér inn á í lok ræðu sinnar: Aðalatriðið hlýtur að vera að koma í veg fyrir afbrot, að velta því fyrir sér hvers vegna afbrot eru orðin svo tíð sem raun ber vitni. Það hlýtur að vera hlutverk okkar alþm. að reyna að brjóta það mál til mergjar og koma þar á lagfæringum, því að það getum við. Ef við getum varið miklu fjármagni í lögreglu- og dómstólakerfið á tímum þegar talað er um sparnað og niðurskurð, þá getum við líka varið fé til þeirra mála sem eiga að koma í veg fyrir afbrot og skapa betra þjóðfélag hér á Íslandi.

Í þessu sambandi vil ég geta sérstaklega um það sem hæstv. dómsmrh. nefndi einnig, og það eru fíkniefnin. Ég held að það fé, sem varið væri t.d. til sjónvarpsins til þess að gera innlenda fræðsluþætti um fíkniefnin, hvernig þau komast til landsins, hvaða áhrif þau hafa, hvaða afleiðingar þau hafa, það gerði jafnvel meira gagn en það fé sem rennur til lögreglunnar til þess að taka það óhamingjusama fólk sem hefur látið ánetjast þessum efnum. Ég held að þeim tíma, sem börn, unglingar og fullorðnir verja fyrir framan sjónvarpið, væri betur varið við að horfa á slíkt en að sitja og horfa á erlendar glæpamyndir sem fást fyrir lítið fé og sjónvarpsmenn verða í fjárhagsneyð sinni að sýna okkur.

Hæstv. dómsmrh. talaði um það, að einn þáttur í þessari afbrotatíðni eða ein orsök afbrotatíðni væri sú, að íslendingar lifðu um efni fram. Þetta kann vel að vera rétt. En þó að ég sé ekki reiðubúin að flytja hér neina sérstaka hugvekju um þetta mál, þá finnst mér ógerningur að fleygja þessu fram eða fullyrða slíkt án þess í rauninni að reyna að gera sér grein fyrir hvers vegna íslendingar lifa um efni fram. Það er kaldranalegt að reyna að hvetja fólk til þess að lifa hóflega í verðbólguþjóðfélagi, í þjóðfélagi þar sem ríkisstj., sem situr við völd, hefur ekki betri tök á efnahagsmálum en raun ber vitni. Það er átakanlegt að saka fólk um að lifa um efni fram þegar það er stefna núv. stjórnar að demba yfir fólk óheftum innflutningi á alls konar munaðarvörum og koma því í þá aðstöðu að það verði í raun og veru að velja á milli tíu tegunda af munaðarvörum í stað þess að velja á milli nauðsynja og munaðar. Ég held að margt af þessu eigi rætur einmitt í því lífsviðhorfi sem núv. ríkisstj. ýtir undir, og mér þykir illa farið og kannske þó rökrétt, að áherslan á fjármagnið skuli vera í lögreglu- og dómsmálum og átak ríkisstj. skuli vera á því sviði fremur en á hinu fyrirbyggjandi. Við eigum kannske eftir að sjá niðurskurð á málaflokkum svo sem til heilbrigðismála, tryggingamála og menntamála, og þá vona ég að hv. alþm., sem hlýddu á niðurlagsorð hæstv. dómsmrh., minnist þeirra.