03.11.1976
Efri deild: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

16. mál, kaup og kjör sjómanna

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af ræðu síðasta ræðumanns. Þá vil ég upplýsa það, að nokkru fyrir þinglok var mikill þrýstingur á mig og ríkisstj. að flytja á Alþ. frv. til lausnar þessu máli. Þá voru málin rædd í þingflokki Sjálfstfl. og í þingflokki Framsfl., að það þyrfti að grípa til aðgerða til lausnar þessu máli. Í þingflokki Sjálfstfl. var það samþykkt og á þeim grundvelli samþykktum við ráðh. Sjálfstfl. að flytja málíð. Og formaður Framsfl. lýsti því yfir í ríkisstj, að málið hefði verið rætt í þingflokki Framsfl. og þar hefði einnig verið lítið sömu augum á málið. Þetta var það sem fyrir lá í vor. En hins vegar var tímasetning ekki ákveðin, hún var tekin í ríkisstj. rétt áður en brbl. voru gefin út, og öll ríkisstj. var sammála. Þetta vildi ég að kæmi hér fram.

Varðandi bundnu samningana get ég ekki svarað hér, hvorki fyrir aðildarfélög sjómanna né Landssamband útvegsmanna. En þó hygg ég að ástæðan fyrir því, að samningum hafi ekki verið sagt upp, sé samkomulagið sem aðilar skuldbundu sig til að vinna að, að „aðilar lýsa því enn fremur yfir, að þeir muni beita sér fyrir því, að heimildir verði veittar til þess að taka þegar upp samninga á þessum grundvelli um breytingar á þeim kjarasamningum aðila, sem ekki hefur verið sagt upp, með sama hætti og væru þeir lausir“ — þar sem samningar voru sem sagt bundnir væri það gert. Ég hygg að það sé á þessari forsendu að samningum á þessum stöðum og hjá þeim samböndum, eins og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, var ekki sagt upp. Það er auðvitað útilokað að setja brbl. á hluta fólks í landinu, en ekki á menn á öllu landinu. Þá hefði mátt undanskilja vestfirðinga og alla yfirmenn í Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Þá hefði ég heldur farið úr ríkisstj. en að setja þau brbl. Þetta er svo sem ekkert skemmtilegt verk, en það var algerlega útilokað að gera, eins og menn hljóta að sjá. Þetta hygg ég að sé ástæðan fyrir því sem hv. þm. spurði um.

Svo er aftur hitt atriði málsins, sem mér finnst, að skipti verulegu máli. Það er það, að þar sem 24% af þessari 33% fiskverðshækkun verða til vegna sjóðabreytingarinnar, þá er auðvitað ekki hægt að bera það á borð og segja, að sjómenn aðeins á þeim svæðum, sem eru með lausa samninga, eigi að bera þetta, en ekki hinir. Þess vegna segi ég það, að þó að mér sé mjög umhugað um vestfirðinga, þá vil ég alls ekki stuðla að þvi, að þeir séu í þessum efnum nein forréttindastétt. Hins vegar er ég mjög áfjáður i, að þeir haldi sínum sérsamningum og sérkröfum. Ég var fyrr á árum í samninganefndum þar og gekk þar á ýmsu og yfirleitt endaði þetta alltaf mjög vel, og ég held að þeir sérsamningar séu flestir í gildi, með auðvitað þeim breytingum sem nauðsynlegt er að gera alltaf og þarf að endurskoða eftir því sem breytingar verða á.