27.04.1977
Neðri deild: 76. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3858 í B-deild Alþingistíðinda. (2812)

124. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Mér er gjörsamlega óskiljanlegt hvernig hæstv. ráðh. gat fundið það út, að ég væri að svívirða hann persónulega þegar ég talaði til hans áðan. Ég hef yfirleitt ekki ástundað það að vera með persónulegar svívirðingar, hvorki á hæstv. ráðh. né einstaka þm. (Grípið fram í.) Það er annað mál. Ég veit það ekki og ætla ekkert að segja til um það. Hins vegar finnst mér það mjög hart, þegar þm. stendur upp og vísar til þess sem gert hefur verið á þingi, að þá skuli það flokkast undir það að verið sé að ráðast á ráðh. með persónulegum svívirðingum þó að verk hans séu gagnrýnd.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan, að í nál. var samþ. einróma á sínum tíma að mæla með því að ráðh. gæfi út reglugerðarákvæði um ó­keypis símaafnot aldraðs fólks og öryrkja með lágmarkstekjur, þannig að þar er rétt með farið, enda hægt að sjá það í þskj. Ég man einnig að þetta mál var samþ. shlj. hér í d., þannig að ég hef ekki farið rangt með eitt eða neitt í þessu máli. Hér eru viðstaddir þm., sem eru í heilbr.- ­og trn., sem geta staðfest það sem ég sagði nú.

Ráðh. lagði mjög mikla áherslu á að það stæði, að í reglugerð mætti ákveða. Það er alveg rétt. En það fór ekkert á milli mála, að það var bæði vilji heilbr.- og trn., sem fékk þetta mál til með­ferðar á sínum tíma, og einnig d., að þessu yrði hrundið í framkvæmd. Ráðh. lýsti yfir að vegna ákveðinna vandkvæða hefði það ekki verið hægt. Ég verð að segja fyrir mitt leyti. Ég skil ekki að þau vandkvæði séu fyrir hendi. — Ég vildi gjarn­an að hæstv. ráðh. hlustaði á þetta, svo það færi ekkert á milli mála sem ég segi hér. — Ég skil ekki hvaða vandkvæði kunna að vera í kerfinu á því að hrinda þessu í framkvæmd, alla vega að vinna þannig að þessu verki að það gæti þá legið ljósar fyrir d. í hverju vandkvæðin eru fólgin. Eru vandkvæðin tæknilegs eðlis, eru þau skipu­lagslegs eðlis eða skortir vinnuafl hjá Pósti og síma til þess að framkvæma það sem hér um ræðir? Mér finnst það óviðunandi að ráðh. lýsi því yfir, hvort sem það er þessi hæstv. ráðh. eða einhver annar, að eitthvað sé óframkvæmanlegt. Ég tel að ekkert sé óframkvæmanlegt. Það er allt framkvæmanlegt. (Gripið fram í.) Nei, en vand­kvæðum bundið. (Gripið fram í.) Ég hef alltaf gengið út frá því að hæstv. ráðh., sem ég þekki að öllu góðu, hafi skilning á því, að þetta mál sem væri mjög æskilegt að hrinda í framkvæmd og ég hef treyst því og treysti því enn, að hann muni sjá til þess að svo verði gert.

En varðandi seinni hluta þeirrar þáltill. sem hér er til umr., þar sem um er að ræða ályktun Alþ. um að fela ráðh. að beita sér fyrir því að aldrað fólk og öryrkjar fái verulegan afslátt við kaup farmiða með almenningsfarartækjum á landi, þá get ég fallist á að það gæti orðið flóknara fyrir ráðh. að tryggja þá framkvæmd heldur en að tryggja öldruðum og öryrkjum ókeypis símaafnot, vegna þess að í sambandi við símann er um opinbera stofnun að ræða þar sem hæstv. ráðh. getur framkallað það, sem hann telur rétt, á grundvelli þeirra heimilda sem hann hefur. Hins er, eins og hæstv. ráðh. sagði áðan, undir marga aðra að sækja í sambandí við almenningsfarartæki.

Ég vildi aðeins standa upp og segja þessi orð og eyða þeim misskilningi að ég hafi verið með persónulegar svívirðingar um hæstv. ráðh. Það tel ég að ég hafi ekki verið með, enda var það ekki ætlun mín. En varðandi það, að þetta mál var í heilbr.- og trn. á sínum tíma og ég mælti með því að það færi þangað aftur, er það að segja, að það kom til álita — að unnt væri að framkvæma þetta í gegnum almannatrygginga­kerfið. Ég er þeirrar skoðunar að það gæti enn komið til greina, það væri hugsanlegt að gera það í gegnum það, og ef það er æskilegri leið, sem tryggir frekar framgang þessa máls, þá er ég því auðvitað meðmæltur.