27.04.1977
Neðri deild: 76. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3861 í B-deild Alþingistíðinda. (2814)

124. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra for­seti. Það er reynslan ef menn heita því að halda stutta ræðu, byrja ræðu sína á því, þá verða þær langar. Eins er það þegar menn heita því að þeir ætli ekki að koma í ræðustólinn aftur, eins og ég hef gert í þessu máli, að þá kem ég óvenju oft upp.

Nú vil ég segja hv. 5. þm. Vestf. það, að það er fjarri mér að þola ekki að ræða mál og hafa hæfilega gagnrýni. Venjulega hef ég gaman af ræðum hans og ég met þær nokkuð mikils.

Hitt verð ég að segja, að ég hef sennilega misskilið hv. 6. landsk. þm., því mér fannst orðalag hans á annan veg, en ef ég hef misskilið skal það leiðrétt. Hins vegar held ég að hv. 6. landsk. þm. hafi ekki verið kominn hér þegar ég skýrði frá niðurstöðu um hliðstætt mál í hv. Ed. og samkomulagi um að fjórir ráðh., sem hafa með svipaða þætti að gera, létu vinna þessi mál í heild. Þar kom fram sá skilningur hjá hv. þm., að eðlilegast væri að það væri ríkissjóður sem greiddi fyrir þessu fólki, bæði í sambandi við síma, við sjónvarp og útvarp og annað, talstöðvar og þess háttar, sem allt bar á góma í hv. Ed., og þar var talin eðlileg niðurstaða samkomulag okkar á milli, ráðh., sem með þessi mál fara, og fjmrh., að láta vinna málið í heild.

Ég lít svo á að það sé eðlilegur lagaskilningur, og nú skal ég ekki neitt fara að deila við dómara, að þegar Alþ. orðar svo í lögum að „í reglugerð má ákveða“, þá sé þetta varfærnislega orðalag notað vegna þess að það geti leynst í þessu erfið­leikar sem geri framkvæmdina mjög erfiða. Og það er það sem ég tel mig hafa rekið mig á í sambandi við þetta mál. Það hefur verið leitað álits hjá Tryggingastofnun ríkisins og póst- og símamálastjórninni um þetta mál. Og það mun hafa verið í fyrravetur, ég held ég muni það rétt, að ég svaraði hér fsp. út af þessu máli og gerði þá ítarlega grein fyrir athugunum á framkvæmd þessara lagafyrirmæla, sem ég hef ekki hjá mér núna því ég hafði ekki búið mig sérstaklega undir þessa umr. Og það er af þessari ástæðu sem það var skoðun okkar allra, að eðlilegast væri að svona mál væri algjörlega hjá Tryggingastofnun ríkisins og ríkissjóður yrði að leggja fram fé til að greiða þetta, það væri ekki hægt að komast hjá því, það væri ekki eðlilegt að leggja þetta á stofnanir sem þurfa undir högg að sækja með tekjuöflun sína og verða að sjá fyrir sér alveg sjálfar, og líka væri það best komið hjá Trygg­ingastofnuninni því hún hefði mesta möguleika til þess að fylgjast með því að ekki yrði um misnotk­un að ræða. Á þessum meginatriðum byggist þessi skoðun mín.

Ég vil einnig vekja athygli á því í sambandi við till. á þskj. 166, að seinni hluti hennar hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Einnig ályktar Alþ. að fela ráðh. að beita sér fyrir því, að aldr­að fólk og öryrkjar fái verulegan afslátt við kaup farmiða með almenningsfarartækjum á landi, á sjó og í lofti.“ Hér tel ég fyrst geta orkað tví­mælis við hvaða ráðh. er átt, og að því leyti gæti það verið eðlilegt, sem hv. 6. landsk. þm. lagði til, að málið færi til heilbr.- og trn. og þá tilheyrði þessi þáttur a. m. k. hiklaust heilbr.- og trmrh. því hann er ekki stílaður á samgrh. Ég hefði haldið hins vegar að þetta væri ein heild, því það er talað um símanotkunina í fyrirsögn­inni. Og þá vil ég vekja athygli á því, að þá hefði þetta mál átt að lenda í Sþ., eins og gert er ráð fyrir í þingsköpum um þáltill. um útgjöld sem ríkissjóður verði að leysa af hendi, og um till. verði þá að fara fram tvær umr. Ég held því að þetta mál sé ekki eins einfalt og við viljum vera láta. En út af fyrir sig held ég að farsælasta leiðin verði sú sem ég benti á, að reyna að láta vinna þetta saman, og mín skoðun er sú, að hjá Tryggingastofnun ríkisins lendi málið í heild, því það sé eini aðilinn í landinu sem geti metið það á eins réttmætan hátt og tök eru á, aðrar stofnanir hafi ekki neitt svipaða aðstöðu til þess arna.