28.04.1977
Efri deild: 67. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3864 í B-deild Alþingistíðinda. (2821)

208. mál, byggingarlög

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Í frv. til byggingarlaga er ein mgr. í 4. gr. sem mig langar til að vekja athygli á. Hún hljóðar svo :

„Í byggingarreglugerð skal setja ákvæði varðandi umbúnað bygginga til þess að auðvelda ellihrumu og fötluðu fólki að komast leiðar sinnar.“

Mér þykir mjög vænt um að þessi setning er komin inn í frv. til byggingarlaga. Þessi setning er byggð á starfi n. sem var skipuð fyrir all­löngu og ég var formaður fyrir og átti að gera till. um hvernig fara skyldi að því að auðvelda umferð fatlaðra. Þessi n. starfaði alllengi og kynnti sér þessi mál hérlendis og erlendis og skilaði fyrir alllöngu áliti til félmrn. Þá var þetta frv. til byggingarlaga í undirbúningi og þótti þess vegna henta betur að setja ákvæði í lög og síðan yrði nánar kveðið á í reglugerðum hvernig þessu skyldi háttað.

Að öllum sé auðvelduð umferð um byggingar og skipulögð svæði er mál sem hefur verið í sviðsljósinu nú á undanförnum árum um allan heim. Sameinuðu þjóðirnar héldu sérráðstefnu um þetta atriði fyrir tveim árum og komust að raun um að þessu væri mjög ábótavant víðast hvar í veröldinni. Þessi ráðstefna lagði áherslu á það, að ekki síst þar sem um nýja borgarhluta væri að ræða, þá yrðu gerðar sérstakar ráðstaf­anir í framtíðinni til þess að taka tillit til þeirra sem ættu erfitt í umferðinni. Það, sem liggur fyrst og fremst til grundvallar þessum óskum, er það, að víðast hvar þar sem eru þjónustu­byggingar, byggingar sem allur almenningur þarf að nota, er fötluðum og ellihrumu fólki mjög torvelt að komast um þær byggingar, ýmist vegna stiga eða af öðrum ástæðum. Oft má bæta úr þessu með tiltölulega litlum tilkostnaði ef það er haft í huga þegar byggingar eru hannaðar. Enn fremur er það, að víða er sú stefna uppi nú að leggja árlega fram nokkurt fjármagn til þess að lagfæra eldri byggingar í þessu sama skyni.

Allt þetta er ætlað að komi fram í reglugerð­um, sem verða samdar að þessu frv. samþykktu. þess vegna er það, að um leið og ég þakka hæstv. félmrh. fyrir að hafa látið taka þetta ákvæði hér inn, þá er það ósk mín að m. a. með til­liti til þessa ákvæðis verði reynt að koma þessu frv. í gegnum þingið núna þótt stutt sé eftir, vegna þess að þetta er atriði sem búið er að vera lengi í undirbúningi og mikil þörf er á að komist í lög.