28.04.1977
Efri deild: 67. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3870 í B-deild Alþingistíðinda. (2828)

176. mál, brunavarnir og brunamál

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra for­seti. Félmn. hefur tekið þetta frv. til athugunar og mælir með samþykkt þess.

Þetta frv. er ákaflega einfalt í sniðum. Það gerir ráð fyrir að það sé einu orði breytt í gildandi lögum, að í staðinn fyrir „karlmenn“ komi: menn. En þetta þýðir það, að ef frv. verður að lögum, þá má skipa konur í slökkvi­lið, en samkv. gildandi lögum má það ekki. Þessi breyting mundi að sjálfsögðu vera fagnaðarefni fyrir karlmennina, að eiga þess kost að fá konur í slökkviliðið með sér, og ekki þarf að spyrja að því, að konur munu fagna jafnréttinu einnig.

Það hefur enginn ágreiningur verið um þetta mál og það var ekki heldur í félmn. sem mælir eindregið með samþykkt þess.

Síðan n. skilaði áliti hefur komið fram brtt. á þskj. 545 frá hæstv. félmrh. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðh. mæli fyrir þessari tillögu. Till. var ekki tekin fyrir á fundi félmn., en ég vil nota þetta tækifæri til þess að lýsa fylgi mínu við þessa till.