03.11.1976
Neðri deild: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

19. mál, fjölbrautaskólar

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Virðulegi forseti. Þetta frv. um breyt. á lögum um heimild til að stofna fjölbrautaskóla er flutt hér öðru sinni. Það var lagt fram til kynningar á seinasta þingi, rétt fyrir þinglokin, minnir mig.

Lög um fjölbrautaskóla eru frá 1973. Þrír slíkir skólar hafa þegar verið stofnaðir með samningum milli ríkis og viðkomandi sveitarfélaga. Kennsla í fjölbrautaformi hefur verið tekin upp viðar eða er í undirbúningi.

Við undirbúning og framkvæmd þessara mála hefur komið í ljós að æskilegt er að gera nú þegar nokkrar breyt. á lögunum, sem svo vitanlega koma til endurskoðunar í heild þegar ætla nú að nægilega yfirgripsmikil reynsla sé fengin af framkvæmd þeirra, Þetta frv. fjallar aðeins um tvö afmörkuð atriði. Annað varðar gerð námsskrár fyrir iðnbrautir og um atvinnuréttindi. Segir um þetta í 1. gr. frv., með leyfi forseta:

„Um iðnnám fer eftir námsskrá sem sett skal að fengnum till. iðnfræðsluráðs og að höfðu samráði við iðnrn. og hlutaðeigandi fræðsluráð, og skal þar kveða á um samstarf atvinnulífs og skóla sem annast iðnfræðslu. Um atvinnuréttindi þessara nemenda að námi loknu gilda sömu ákvæði og um aðra iðnnema.“

Ég hygg að þetta þarfnist ekki frekari útlistunar við 1. umr. Hér er leitast við að kveðja til ráðuneytis sem allra flesta þá sem hlut eiga að máli, þar á meðal t.d. iðnrn. sem gefur út bréf um iðnréttindi, eins og kunnugt er.

Hitt atriðið í frv. varðar skiptingu kostnaðar. Talið er eðlilegt að ákveða að sama greiðsluhátttaka af hendi ríkissjóðs og sveitarfélaga gildi um þá námsþætti, sem fram fara í fjölbrautaskólum, og nú er þar sem námið fer fram t.d. í iðnskólum, en þar greiðir ríkið 50%, en í menntaskólum 100%,

Í athugasemdum við einstakar gr. frv. er gerð miklu fyllri grein fyrir efni þess. Ég held ég láti nægja að vísa til þskj. og hafi þessi kynningarorð ekki fleiri.

Ég legg svo til að frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. menntmn.