28.04.1977
Efri deild: 69. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3871 í B-deild Alþingistíðinda. (2838)

233. mál, ráðstafanir til að draga úr tóbaksreykingum

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Erindi mitt í ræðustól er ekki að tefja fyrir framgangi þess frv. sem hér er á dagskrá. Aðeins vildi ég leyfa mér að benda hv. þdm. á að á borð þm. hefur í dag verið útbýtt 6. hefti af tímaritinu Nordisk Kontakt fyrir 1977. Þar gefur að líta á bls. 377, undir greinaflokki sem er á norskunni „Bra att veta“, grein sem skýrir frá því, að í Noregi hafa svipuð lög og hér er verið að samþykkja verið í gildi í rúmt hálft annað ár og nú er búið að samþykkja í báðum deildum norska þingsins breytingar á þessum lögum sem ganga verulega í þá átt að rýmka um þau ákvæði sem giltu við­víkjandi t. a. m. banni við auglýsingum. Þetta þótti mér hlýða að benda hv. þdm. á, ef þeir skyldu telja ástæðu til í þessu eins og öðru að elta norðmenn. Það mundi þá spara þeim fyrirhöfnina að þurfa að fara að taka málið upp að nýju hér á hv. Alþingi.