28.04.1977
Efri deild: 73. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3881 í B-deild Alþingistíðinda. (2866)

21. mál, leiklistarlög

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég finn mig knúinn til að gera aths. við síðustu mgr. 2. gr. í þessu frv. til l. um leiklistarstarfsemi, en hún hljóðar svo: „Sveitarstjórnir veita fé til leiklistarstarfsemi í sveitarfélögum eftir því sem ákveðið verður í fjárhagsáætlun þeirra.“ Það finnst mér mjög gott ef þar væri punktur. En svo heldur gr. áfram: „þó eigi lægri fjárhæð til hvers leikfélags en ríkissjóður greiðir samkv. 3. gr.“ Sem sagt, enn þá einu sinni er verið að skylda sveitarfélögin til þess að greiða, hvort sem þau vilja eða vilja ekki, til leiklistarstarf­semi í þessu tilfelli. Ég vil geta þess, að í Reykja­víkurborg má segja sama um aðra starfsemi, eins og t. d. tónskóla o. fl., það er svo til eftir­litslaust eða hindrunarlaust að aðilar geti sett á stofn tónskóla eða leiklistarskóla eða annað, og svo fremi sem ríkissjóður styrkir það, þá ber Reykjavíkurborg og í þessu tilfelli öllum sveitar­félögum að leggja sömu upphæð — ekki minna — til viðkomandi starfsemi. Þessi hugsunar­háttur, þessi vinnubrögð, að stjórna með tilskip­unum eða lagaboðum sveitarfélögunum, þar sem kjörnir fulltrúar, ábyrgir aðilar, sveitarstjórnar­menn taka ákvarðanir og reyna að gera eins rétt og við gerum hér á Alþ., það finnst mér óeðlileg vinnubrögð og á þeim forsendum einum mun ég greiða atkv. gegn þessu frv.