03.11.1976
Neðri deild: 8. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

43. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Flm. (Jónas Árnason) :

Herra forseti. Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því að víkja svolítið til rjúpnaveiðitímanum, víkja honum til um einn mánuð. Samkv. núgildandi lögum hefst hann, eins og allir vita 15. okt., en endar 22. des. Hér er lagt til að hann hefjist 15. nóv. og endi 22. jan. Ein ástæðan til þessa er sú, að rjúpnaungar hafa fæstir náð fullum vexti þegar veiðitíminn hefst. Það eitt virðist ærin ástæða til þess að fresta honum nokkuð. Þar að auki sýnist mér að sóknin gegn rjúpunni hafi aukist svo nú hin síðustu árin að gjarnan mætti koma á einhverjum þeim ákvæðum í lögum sem drægju úr þessari sókn, en það yrði að sjálfsögðu gert með þessu. Þegar veiðitíminn er færður þetta dýpra inn í skammdegið, þá leiðir af sjálfu sér að um leið styttist sá birtutími sem veiðimönnum gefst til þess að drepa rjúpuna. Í því er fólgin töluverð friðun.

Ég er ekki mjög kunnugur þessum málum sjálfur, en ég hef rætt við ýmsa menn sem þekkja vel til þeirra, gamla bændur í Borgarfirði sem fylgst hafa með rjúpnaveiðum frá því að þeir voru í bernsku, og það er m.a. fyrir tilmæli frá þeim sem ég flyt þetta frv. En ég vil leyfa mér að vitna líka í norðlenskan bónda og alkunnan veiðimann sem skrifaði grein í það merka blað, Tímann, ekki fyrir löngu, 22, sept. s.l. Hann er þar að ræða um ýmislegt sem varðar fuglaveiðar, fyrst og fremst reyndar nauðsyn þess að fækka ýmsum þeim fugli sem við teljum varg, en víkur svo að rjúpunni í lok greinar sinnar. Hann telur að undanfarin ár hafi átt sér stað ískyggileg fækkun í rjúpnastofninum og segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Hér í Þingeyjarsýslum þar sem vagga rjúpunnar hefur ávallt verið á Íslandi, eru næg vitni, sem treysta má, um rjúpnastofninn. Það eru refaskyttur.“ — En höfundur þessarar greinar er einn af þekktustu refaskyttum þjóðarinnar. — „Það eru refaskyttur, sem oft vaka vorbjartar nætur upp til heiða ár hvert og oft á þeim stöðum, þar sem rjúpur velja sér aðalvarpstöðvar eftir snjólagi og veðurfari hverju sinni. Þeir, sem þar vaka, vita líka ósköp vel, að karlfuglinn er með þeim ósköpum fæddur að fara á kreik um lágnættið og láta þá til sín heyra heldur hressilega. Það er venjulega sönnun þess, að þeir vita, að frúrnar eru ekki langt undan. Því má líka bæta við, að á þeim sömu slóðum, sem mest ber á slíkum bassaröddum, alast ungar þeirra upp og eru þar jafnvel oft í nágrenni, þegar herferðin er hafin 15. okt. Sá mánuður verður þeim líka oftast örlagaríkastur, þegar tíð er góð. En hvaða vit er í því að leyfa að skjóta rjúpur áður en þær eru komnar í vetrarbúninginn og í viðunandi hold? Það ætti ekki að leyfa að skjóta rjúpur fyrr en um miðjan nóv. Og hvaða vit er í því að leyfa jafnlangan veiðitíma ár hvert, hve fáliðaðar sem þær eru og án tillits til þess, að sóknin hefur margfaldast?“

Ég vil út af því síðasta, sem ég vitna hér í grein þessa ágæta manns, segja það, að síðan ég flutti þetta frv., síðan frv. var lagt fram, hafa ýmsir komið að máli við mig og haldið því fram að ég hefði átt að stytta veiðitímann. Ef til vill hefði það verið rétt, að ég hefði lagt það til strax í frv. Ég vil beina því til þeirrar n., sem fær málið til umfjöllunar, að ég er sannarlega til viðtals um að láta t.d. nægja einn mánuð. T.d. í Borgarfirðinum, þar sem nokkrir bændur stunda rjúpnaveiðar á hverju hausti, — og þar er það ekki bara sport, góður nágranni minn einn fer á hverju hausti til rjúpnaveiða og þetta er töluvert drjúg tekjulind hjá honum, — þar er reynslan sú, að eftir fyrstu vikurnar tekur því varla fyrir hann lengur að fara á veiðarnar. Mér sýnist með tilliti til þeirra manna, sem hafa af þessu tekjur, eins og þessa bónda, að tekjurnar mundu lítið rýrna þó að veiðitíminn yrði styttur í einn mánuð.

Ég vil svo að lokum leggja til að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til menntmn.