28.04.1977
Neðri deild: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3884 í B-deild Alþingistíðinda. (2881)

230. mál, kjarasamningar starfsmanna banka

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. er samið að tilhlutan viðskrn., en þó í fullu samráði við bankaráð og bankastjórnir ríkisbankanna svo og fyrirsvarsmenn Sambands ísl. bankamanna. Það hefur um nokkurt skeið verið unnið að undirbúningi frumvarpa um viðskiptabanka í eigu ríkisins og viðskiptabanka sem reknir eru í hlutafélagaformi. Má segja að fyrir liggi nú frv. um það efni, en þó þótti eftir atvikum ekki rétt að leggja þau fyrir þetta þing.

Í yfirlýsingu, sem gefin var þegar samkomu­lag um kjör bankastarfsmanna var gert 18. júní 1976, kváðust bankaráð og bankastjórnir ríkis­bankanna mundu beita sér fyrir því, að í fyrir­hugaða löggjöf um viðskiptabankana yrðu sett ákvæði um kjarasamninga bankastarfsmanna. Jafnframt kváðust sömu aðilar mundu beita sér fyrir því, að sett yrðu sérstök lög um kjara­samninga bankastarfsmanna ef ný löggjöf um viðskiptabankana hefði ekki verið samþykkt á Alþ. í febr. s. l. Yfirlýsing þessi var gefin í sam­ráði við ráðh. Í beinu framhaldi af þessari yfir­lýsingu er þetta frv. flutt. Efni þess er í megin­dráttum það sama og laga nr. 29 frá 1976, um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Fyrir þeim afbrigðum, sem koma til greina og eru smávægileg, er gerð grein í aths. sem einstökum greinum fylgja.

Frv. hefur hlotið afgreiðslu í Ed., shlj. að ég hygg. Ég vænti þess, að því verði hér í þessari hv. d. tekið með sama skilningi, vegna þess að það er óskað eftir því að þetta frv. verði afgreitt á þessu Alþingi.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til fjh.­og viðskn.