28.04.1977
Neðri deild: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3887 í B-deild Alþingistíðinda. (2890)

221. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Sigurður Magnússon:

Herra forseti. Ég kem nú aðallega hér í ræðustól til að lýsa yfir stuðn­ingi mínum við þá þáltill. sem hér er flutt af alþfl.-mönnum. Hér er góðu og nauðsynlegu máli hreyft sem Alþ. þarf að fjalla rækilega um og löggjafinn hefur alls ekki sinnt nægilega vel á undanförnum árum, þ. e. a. s. vinnuverndarmál­um er snerta starfsumhverfi verkafólks. Ég get samt ekki látið hjá líða að taka undir þau orð, sem fram komu í máli síðasta hv. ræðumanns um vinnubrögð þeirra alþfl.-þingmanna í sam­bandi við mengunarvarnir í Grundartangaverk­smiðjunni, en ætla út af fyrir sig ekki að fara að endurtaka það sem ég hef sagt um það áður. En það er ekki hægt að segja annað en það skjóti mjög skökku við þær till. sem hér eru fluttar, því að í sambandi við afgreiðslu starfs­leyfis Grundartangaverksmiðjunnar var í mörg­um veigamiklum atriðum vikið frá till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins og jafnvel vikið frá regl­um sem gilda í nágrannalöndum okkar. Því var haldið fram í umr. um daginn í sambandi við það mál, að starfsmenn Heilbrigðiseftirlits rík­isins væru ánægðir með þær niðurstöður sem í starfsleyfinu voru. Nú hefur hins vegar komið á daginn, eftir því sem mér hefur verið tjáð af einum hv. þm. sem starfar í iðnn. Ed., en málið er sem kunnugt er þar nú í athugun, að þessi ummæli séu röng, það hafi verið staðfest á fundum iðnn. Ed. að Heilbrigðiseftirlit ríkisins hafi ekki fengið að sjá endanlega gerð starfs­leyfisins síðan það var gefið út, þar var ekkert um það fjallað við endanlega gerð og vanti mikið á að starfsmenn Heilbrigðiseftirlits ríkis­ins séu ánægðir með þær niðurstöður sem starfs­leyfið fékk. Þess vegna er það svolítið hjákát­legt að lesa það í grg. með þessu frv., að Alþfl. vilji vinna að þessum málum, vinnuvernd og starfsumhverfismálum, sem miðist við viðhorf og vandamál samtíðarinnar. Að öðru leyti ætla ég ekki að rifja þetta mál hér upp, það verður ábyggilega í minnum haft. En ég vona að þessi þáltill. fái góða afgreiðslu.

Aðalerindi mitt hins vegar upp í ræðustól var að vekja á því athygli, nú þegar þetta mál er á ferðinni, að almennt eru þessi mál í miklum ólestri hjá okkur hér á Íslandi. Það er skoðun mín, og ég vil, að það komi hér fram, og ég tel, að það eigi að hafa af því hliðsjón við endur­skoðun þessara mála, að þrjár sjálfstæðar stofn­anir, sem nú fjalla um öryggis- og heilbrigðis­mál og vinnuverndarmál, eigi að sameina undir einni stjórn og gera þær að einni stofnun. Hér er um að ræða Rafmagnseftirlit ríkisins. Heil­brigðiseftirlit ríkisins og Öryggiseftirlit ríkisins. Ég tel að allar þessar stofnanir séu mjög van­búnar til að sinna hlutverki sínu, — hlutverki sem að mörgu leyti er mjög skylt. Ég hef í þessu sambandi rætt við starfsmenn sumra þess­ara stofnana og heyrt álit þeirra. Ég veit að þeir telja að ýmsum reglum um starfsemi þeirra þurfi að breyta. Það liggur fyrir að fjárveitingar eru af mjög skornum skammti til þessara mála og engin af þessum stofnunum hefur yfir að ráða því starfsliði eða tækjabúnaði sem þarf til raunverulegs eftirlits. Í þessu sambandi langar mig t. d. að vitna í skýrslu sem nýlega barst á borð okkar þm. frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins um vinnu við Kísiliðjuna í Mývatnssveit. Í loka­orðum þeirrar skýrslu segir, — ég gríp niður í þau á tveim stöðum, — þar segir í lokaorðum:

„Ónógur tækjabúnaður og lítil fjárráð gerðu þó að verkum að mælinganiðurstöður eru ekki jafnnákvæmar og verið gæti“ Síðar segir: „Heil­brigðiseftirlit ríkisins hefur ekki yfir að ráða nauðsynlegum sýnitökutækjum. Tækin voru fengin að láni hjá einkaaðilum fyrir tilstilli persónulegra sambanda undirritaðs. Leitað hefur verið eftir fjárveitingu til kaupa á allra nauð­synlegasta búnaði og standa vonir til þess að hún fáist bráðlega.“

Ég tel að þessi orð úr skýrslunni um rannsóknirnar í Kísiliðjunni í Mývatnssveit séu dæmi­gerð um ástand þessara mála hér á Íslandi.

Mér er nokkuð kunnugt um starfsemi Rafmagnseftirlits ríkisins, og ég veit að mikið vant­ar á að það sé nógu öflugt. Víða er þannig ástatt hjá okkur, að raforkukerfið, dreifikerfið, jafnt úti í sveitum sem í þéttbýli, og raflagnir í húsum, gamlar raflagnir, eru hættulegar og geta valdið dauðsföllum og hafa reyndar gert það stundum og býsna oft smáslysum sem ekki er mikið talað um. Og sama gildir um raflagnir margs konar á vinnustöðum. Þarna vantar á að við framfylgjum nægilega ströngu eftirliti.

Ég hef líka fyrir skömmu orðið vitni að því á fjölmennum vinnustað, þar sem lá við að yrði dauðaslys eftir að kranabóma féll niður á verkamann, að við rannsókn þess máls kom í ljós að Öryggiseftirlit ríkisins hafði veitt heimild til eða tekið út ákveðnar breytingar á þessu tiltekna tæki í gegnum síma. Á því voru gerðar tæknilegar breytingar og afgreiðsla þess máls hafði farið fram í gegnum síma. Ég hygg að margar aðrar slíkar sögur mætti segja, og þær stafa af því að allar þessar stofnanir eru van­búnar því að sinna verkefnum sínum.

Ég vil sem sagt koma því að hér í umr., að ég tek efnislega undir það sem þessi till. fjallar um, að málefni þessi séu öll tekin til heildarendurskoðunar, og sé að því stefnt að þessar eftirlitsstofnanir, sem ég nefndi áðan, verði sameinaðar og styrktar og efldar.