28.04.1977
Neðri deild: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3889 í B-deild Alþingistíðinda. (2891)

221. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Ingólfur Jónsson:

Hæstv. forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af því sem hv. 5. þm. Vesturl. sagði hér áðan. Hann sagði að ég og hv. þm. Benedikt Gröndal — hann svarar fyrir sig — hefðum fullyrt of mikið hér í hv. d. þegar frv. um járnblendiverksmiðjuna var til umr. M. ö. o.: hv. þm. gefur í skyn að ég hafi skrökvað að d. og hv. þm. Benedikt Gröndal þá líka farið með ósatt mál. Þetta er hörð ádeila, þetta er ósvífni. Og hv. þm. veit að hann er að segja ósatt. Það vill nú svo vel til að allt, sem hér er sagt, fer inn á segulband, það er staðfest. Nú skora ég á hv. 5. þm. Vesturl. að lesa ræðu mína og spyrja forstöðumann Heilbrigðiseftir­litsins að því, hvort þar sé nokkuð ofsagt, hvort ég hafi skrökvað þegar ég vitnaði í samtal við hann. Þetta vil ég fá staðfest. Svona dylgjur, svona óþverri á ekki heima hér í hv. d. Það er engin virðing sem því fylgir. Hv. andstæðingar járnblendifrv. virðast svífast einskis í mál­flutningi sínum, og þótt járnblendifrv. sé farið úr þessari d. skal það samt vera til umr. hér á hverjum degi.

Ég ætla nú ekki að segja meira um þetta. En það kemur á daginn hvort hv. 5. þm. Vesturl. fer með rétt mál þegar hann heldur því fram að við, sem töluðum fyrir járnblendifrv. og bár­um Heilbrigðiseftirlitið fyrir okkur, höfum ekki sagt rétt frá, heldur skrökvað.

Heilbrrn. gaf út starfsleyfi sem talið er gott að dómi Heilbrigðiseftirlitsins. Það er rétt, að það voru ekki teknar upp nákvæmlega allar till. Heilbrigðiseftirlitsins eða orðalag í starfsleyfinu eins og það lagði til. En það, sem máli skiptir, og það, sem er aðalatriðið í þessu máli, er að forstöðumaður Heilbrigðiseftirlitsins sagðist una þessu starfsleyfi og teldi það viðunandi á allan hátt. Það hefði hann ekki getað sagt nema það fullnægði þeim skilyrðum sem hann teldi forsvaranlegt.

Hv. þm. Alþb. tala nú alltaf um álverið þegar þeir komast í ham og einnig nú í dag. Og ekki er það fallegt sem á borð er borið og stjórn­endum álversins er ætlað að vilja. Alltaf er því haldið fram, að þeim sé alveg nákvæmlega sama um heilsufar starfsfólksins í álverksmiðjunni. Þeir eru ekki mannlegir, stjórnendur álversins, þeim er alveg sama hvernig um það fer að áliti þessara manna sem tala gegn álverinu og tala um svik og pretti. Eigi að síður liggur fyrir alveg fullkomin yfirlýsing frá stjórnendum þeirrar verksmiðju, að það verði sett upp full­komnustu hreinsitæki í verksmiðjunni, og það er byrjað á því, — fullkomnustu hreinsitæki sem ekki voru fullreynd fyrir tveimur árum. Þótt hreinsitæki hefðu verið sett í álverksmiðj­una sem voru þekkt og fyrir hendi um það leyti sem verksmiðjan var byggð, þá væru þau í dag talin alls ófullnægjandi. Jafnvel þau hreinsitæki, sem voru þekkt fyrir 5 árum, væru í dag talin ónothæf. Að því leyti er það gott að þetta hefur dregist. Við fáum í verksmiðj­una bestu hreinsitæki sem eru þekkt, og það er byrjað að setja þau niður. Þau hreinsa loftið bæði inni í verksmiðjunni og utan hennar. Og það er þetta sem við skulum telja gott, að nú er farið að setja upp þessi tæki.

Hvað er langt síðan fyrrv. heilbrrh., Magnús Kjartansson, lét reyna innlend hreinsitæki í verksmiðjunni? Það virtust allir vera sammála um að þessi tæki yrðu reynd. Það eru ekki nema tvö eða þrjú ár síðan, líklega ekki nema tvö ár síðan var hætt þessum tilraunum. Það ásakar enginn Magnús Kjartansson fyrir að hafa látíð reyna þessi íslensku tæki. En meðan á þeim tilraunum stóð var ekki eðlilegt að önnur tæki væru sett í verksmiðjuna. Er ekki þarna komin nokkur skýring á þeim drætti sem hefur orðið? Ég held að flestir muni skilja það.

Ég held að það sé ekki viðeigandi að menn séu alltaf með stöðugar ógeðslegar getsakir í garð annarra manna og halda því fram að þeir séu ekki mannlegir, þeir séu tilfinningalausir gagnvart meðborgurum sínum og láti sér alveg á sama standa hvernig um þá fer. Ég held að sem betur fer séu stjórnendur fyrirtækja ekkert lakari menn en aðrir menn í þessu þjóðfélagi. Og það er aumur stjórnandi sem lætur sér ekki annt um það fólk sem vinnur í fyrirtækjunum. Ég held að það verði aldrei góð útkoma í slík­um rekstri.

Ég ætla nú ekki að fara fleiri orðum um þetta. Ég taldi eðlilegt að segja hér nokkur orð í sambandi við þessa fullyrðingu sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl., vegna þess að það var rangt sem hann sagði. Ég fullyrti ekkert meira við umr. heldur en það sem var rétt. Og forstöðu­maður Heilbrigðiseftirlits ríkisins mótmælir því þá, því að hann getur lesið ræðu mína, hafi ég farið rangt með. Ef hann gerir það ekki, þá sannast það að hv. 5. þm. Vesturl. hefur farið hér með bull.

Í sambandi við það frv., sem hér er á dag­skrá, sýnist mér það vera ágætt og mér sýnist að jafnvel þótt það væru lög í þessu landi og hefðu verið lög þegar starfsleyfið var gefið út, þá væri starfsleyfið fyrir járnblendiverksmiðj­una ekki strangara en það er. Mér sýnist starfs­leyfið vera í samræmi við þetta frv. Mér finnst eðlilegt að samþykkja þetta frv. eigi að síður til þess að tryggja sem best öryggi starfsmanna í verksmiðjunni.