28.04.1977
Neðri deild: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3900 í B-deild Alþingistíðinda. (2896)

221. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið fyrir einu eða tveimur kvöldum að ég hlustaði á hv. þm. Gils Guðmunds­son hafa framsögu hér á kvöldfundi fyrir till. þeirra alþb.-manna um NATO-málefni. Þá veitti ég því athygli að hv. þm. ræddi nokkuð um það sem hann kallaði hernaðarbandalögin tvö, Alþýðu­bandalagið og Varsjárbandalagið. Ég tók eftir því að hv. þm. leiðrétti þetta ekki, en taldi að sjálfsögðu að hér væri um mismæli að ræða. En ég verð nú að segja eins og er, að eftir að hafa hlustað á þetta herhlaup tveggja þm. Alþb. hér í dag, þá er ég ekki svo lengur viss um að hv. þm. Gils Guðmundssyni hafi orðið þarna á mismæli, því að sannkallaður hernaðarandi var í framkomu þeirra hér í ræðustól. Og þegar litið er á kringumstæðurnar þegar þessi herför er farin hér á síðustu dögum þingsins, þar sem menn sveitast við að afgreiða ýmis mál og eru m. a. búnir að afgreiða það mál í þessari hv. d. sem herhlaupið var gert út af, og þegar litið er hér yfir salinn og á þm. sem hér sitja, þá verð ég að segja eins og er, að þeir hv. þm. Alþb., sem hér töluðu áðan, minntu mig á gaml­ar stríðshetjur úr gullaldarbókmenntum, þá Don Quixote og félaga hans Sancho Panza. Alla vega hefðu þeir Don Quixote og Sancho Panza verið mjög vel sæmdir af því herhlaupi sem hér var framið í dag.

Virðulegur forseti hefur tjáð oss þm. að orðið „labbakútar“ sé ekki ýkja-þinglegt, og skal ég ekki vefengja það. Á hitt vil ég benda, að það hefur nú staðið um nokkuð langt skeið mála­rekstur mikill fyrir dómstólum landsins um hvernig beri að túlka hin og þessi orð, svo sem orð eins og mannvitsbrekka og ýmislegt í þeim dúr, og veit ég ekki betur en t. d. þm. Alþb. og flokksmenn þeirra hafi manna helst komið með ýmsar skýringar á þeim orðum. Í því sam­bandi vil ég gjarnan geta þess virðulegum forseta til fróðleiks, að við alþfl.-menn leggjum alls ekki, þegar við tölum um þá alþb.-menn, nei­kvæða merkingu í orðið „labbakútur“, síður en svo. Hér erum við aðeins að skírskota til þess, að hér er um göngumenn mikla að ræða, svo sem eins og hv. þm. Jónas Árnason sem hefur margar göngur gengið á milli Reykjavíkur og Keflavíkur, og sjálfsagt hefur hv. þm. Sigurður Magnússon ekkert síður tekið þátt í slíkum göngum, þannig að ég er aðeins að minna á nokkur afrek í labbmennsku þeirra félaga sem ég get ekki trúað að þeir taki illa upp að vera minntir á.

Viðbrögð þeirra alþb.-manna út af þessu málmblendiverksmiðjumáli minna mig annars einna helst á söguna af úlfinum sem rankaði við sér nokkru eftir að hrútur hafði rennt sér á opið ginið á honum og slegið hann í óvit. Þegar úlfur­inn rankaði við sér eftir þetta mikla áfall var það fyrsta sem hann sagði: „Át ég hrútinn eða át ég ekki hrútinn?“ Þetta varð til þess að hann fékk áhyggjur stórar, úlfurinn, veslaðist upp og dó, því að hann fékk aldrei fullgilt svar við því, hvort hann hefði étið hrútinn. Þegar þeir hv. þm. Alþb. vöknuðu við vondan draum upp úr óviti því sem yfir þá dundi í vinstri stjórninni sálugu, þá tóku þeir áhyggjur stórar eins og úlfurinn: „Át ég hrútinn eða át ég ekki hrútinn?“ Samþykkti ég málmblendiverksmiðjuna eða sam­þykkti ég ekki málmblendiverksmiðjuna? Og þeir hv. þm. Alþb. virðast vera staðráðnir í því að telja sjálfum sér og þjóðinni trú um að þeir hafi ekki étið hrútinn. Alla vega er það eina skýringin, sem fæst á framkomu þeirra hér í þingsölum, hún er orðin þannig að það virðist vera sama um hvaða mál er rætt, hversu fjar­skylt það er málmblendiverksmiðjunni, þá þurfa Don Quixotar og Sancho Panzar Alþb. sí og æ að vera að hlaupa hér upp í ræðustól til að fullyrða það við landslýð að þeir hafi ekki étið hrútinn. — Ég vil aðeins benda mönnum á það í lokin og ekki fara öllu fleiri orðum um það, enda langt liðið á þingfundartíma þessa dags, að hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson át ekki hrút og skaut ekki hrút heldur, en hins vegar mun hann hafa verið reiðubúinn til að gera hvort tveggja ef á hefði þurft að halda, það er ég alveg sann­færður um.

Ég vil benda mönnum á það, og ég held að ég sé þar ekki að fara neinum niðrandi orðum um þá alþb.-menn, að ég held að þeir hafi í raun og veru þá afstöðu til orkufreks iðnaðar að þeir séu alfarið á móti slíku fyrirtæki, án tillits til þess hver á, án tillits til þess hver yrði útkom­an af rekstri slíks fyrirtækis, án tillits til þess hvaða reglur yrðu settar um mengunarmál. Og þeir hv. þm. Alþb., sem að mínu viti hafa þessa skoðun, eru svo ákafir í að berjast á móti, þeir eru svo ákafir í að segja nei, að þeir gefa sér ekki tíma til svo mikið sem að hugsa um hvern­ig e. t. v. væri hægt að sníða þá agnúa af þessum fyrirtækjum, t. d. í sambandi við mengunarmál, sem ég og aðrir alþfl.-menn höfum áhyggjur af. Sem dæmi um það get ég nefnt það, að maður skyldi ætla að það frv., sem hér um ræðir, kæmi frá Alþb., þessum miklu áhugamönnum um mengunarvarnir. En þeir höfðu svo mikið að gera við að berjast bara á móti þessu fyrirtæki, að þeir gáfu sér engan tíma og hafa ekki gefið sér enn til þess að hugleiða hvernig e. t. v. væri hægt að sníða þessa agnúa af, og svo lítinn tíma hafa þessir hv. þm. gefið sér til þess að fjalla um slíkt mál, að sá þm. þeirra, sem talaði hér síðastur, hv. þm. Sigurður Magnússon, stóð í þeirri trú og margendurtók það í sinni ræðu, þegar hann var að lýsa yfir fylgi við till. okkar alþfl.-manna sem hér eru til umr. í þessum mál­um, að hér væri um þáltill. að ræða. Þó stendur skýrum stöfum fremst á titilsíðu þingmálsins að hér er ekki um þáltill. að ræða, heldur frv. En hv. þm. Sigurður Magnússon, sem er að ávíta aðra fyrir að gefa sér ekki tíma til að kynna sér mál, hefur ekki einu sinni gefið sér tíma til að kynna sér mál, hefur ekki einu sinni gefið sér tíma til að lesa þetta þskj. sem hann er þó að lýsa stuðningi við, því að hann kemur hér í ræðustól og stendur í þeirri trú og ítrekar það aftur að hér sé um þáltill. að ræða þegar frv. er flutt. (SM: Þetta eru einfaldlega mismæli.) Þetta getur vel verið, að það sé jafnmikið mis­mæli hjá hv. þm. Sigurði Magnússyni eins og það var mismæli hjá hv. þm. Gils Guðmunds­syni þegar hann ræddi um hernaðarbandalögin tvö, Alþb. og Varsjárbandalagið. En alla vega var þetta mismæli hjá hvorugum leiðrétt. Og það hefur verið sagt, a. m. k. sagði Freud það, að það skyti oft ýmsu úr undirvitundinni upp í meðvitundina sem væri til marks um ýmsa hluti, þó að menn gerðu sér það ekki ljóst.

En ég ætla aðeins að reyna að rökstyðja þetta frekar og ætla ekki að deila um þetta sjónar­mið við Alþb., því að það er að mínu viti fylli­lega eðlileg afstaða, sem margir menn geta haft, að vera alfarið á móti orkufrekum iðnaði. Það er afstaða sem menn geta haft, að þá langi til þess, sá sé draumur þeirra í lífinu að búa í litl­um torfbæ uppi í sveit, eiga eina kú, tíu kindur, kannske litla trillu, hafa ekki rafmagn, ekki síma, ekki sjónvarp, ekki útvarp og vera á móti þessu öllu saman, kaupa hvorki Alþýðublaðið né Þjóð­viljann. Þetta er mjög virðingarvert sjónarmið og það ber að bera fyllstu virðingu fyrir slíku sjónarmiði og það ber að vernda rétt manna til þess að hafa slíka skoðun, hvort sem þeir eru stjórnmálamenn eða aðrir. En menn geta ekki ætlast til þess, þeir sem ætla að leiða þjóð sína í lítinn torfkofa uppi í sveit og búa þar með tíu ær og eina kú og lítinn mótorbát, engan síma, ekkert sjónvarp og ekkert útvarp og ekkert raf­magn, — menn, sem vilja leiða þjóð sína til slíks búskapar, geta að sjálfsögðu ekki átt von á því að sá, sem þannig býr, geti lifað við sömu kjör og sömu aðstæður og íbúar í tæknivæddum þjóðfélögum. Við viljum ekki samþykkja það, alþfl.-menn, að íslendingar eigi ekki að nýta all­ar auðlindir sínar, þær fáu auðlindir sem við höfum, vegna þess að því aðeins að við getum nýtt okkur þetta getum við tryggt launþegum í þessu landi jafna stöðu og jafnmikið kaup og jafngóða lífsafkomu og launþegar í fjölmennum iðnaðarríkjum njóta. Hins vegar skal ég fúslega viðurkenna að mönnum er þarna vandi á hönd­um, því að okkur er það eins ljóst og flestöllum landsmönnum, að stóriðja eða orkufrekur iðn­aður, hvaða nafni sem nefnist, hefur ákveðnar áhættur og ákveðin vandamál í för með sér. En við viljum reyna að minnka þessar áhættur og leysa þessi vandamál, en ekki taka fyrir fram gefna afstöðu ávallt á móti, eins og Alþb. hefur gert frá upphafi. Og ég segi: Það skiptir ekki máli fyrir Alþb. hvernig á slíku máli er haldið. Það er alfarið á móti undir öllum kringumstæð­um. Menn muna eftir því þegar umr. voru hér á sínum tíma um ÍSAL, þá var Alþb. á móti vegna þess að það var alþjóðlegur auðhringur sem átti fyrirtækið. Hæstv. fyrrv. iðnrh. barðist fyrir að breyta þessu. Hann barðist fyrir því að koma því fram, sem auðvitað er rökrétta framhaldið af þessari stefnu Alþb., að íslendingar, en ekki erlendir aðilar, ættu meiri hluta í næstu verk­smiðju sem reist yrði.

Nú skyldi maður ætla að Alþb. hefði fengið kröfu sína uppfyllta. En er það svo? Ekki segja þeir nú. Þetta atriði, þessi breyting hefur engu breytt um afstöðu þeirra. Þeir eru jafnmikið á móti verksmiðju, sem íslendingar eiga að meiri hluta, eins og þeir voru á móti verksmiðju, sem útlendingar áttu að meiri hluta. Eignarformið skiptir ekki máli. Að vísu virtist koma fram í bréfum þeim sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason las upp hér fyrir nokkrum dögum frá þáv. iðn­rh., Magnúsi Kjartanssyni, að þessi breyting, sem að hans frumkvæði var gerð í samningunum við Union Carbide, hefði orsakað það að Alþb. hefði snúist hugur. Þetta virtist koma fram í bréfum hæstv. iðnrh., Magnúsar Kjartanssonar. En nú koma þeir hér hver á fætur öðrum upp og fullyrða að svo hafi ekki verið. A. m. k. liggur fyrir að það er ekki nú, þannig að hvernig svo sem eignarhluturinn að slíkri verksmiðju er, hvort hún er í eigu útlendinga eða landsmanna sjálfra, breytir ekki afstöðu Alþb.

Þá var einnig sagt, þegar Alþb. mælti á móti ÍSAL, að það væri ekki aðeins á móti þeirri verksmiðju vegna þess að það væri alþjóðlegur auð­hringur sem ætti hlutabréfin, heldur vegna þess hvaða alþjóðlegur auðhringur þetta var, heldur vegna þess að hér var um að ræða alþjóðlegan auðhring sem stjórnað var af fjáraflamönnum frá Sviss, — mönnum sem væru í tengslum við heimsvaldastefnu kapítalismans, þ. e. a. s. þetta var vondur alþjóðlegur auðhringur. Hvað gerði iðnrh. Alþb. í framhaldi af þessu? Hann valdi nýjan aðila til samninga. Og hvaða aðili var það? Það var hinn bandaríski auðhringur Union Carbide. Skyldi sá auðhringur ekki hafa verið tengdari neokolonialismanum, — það er varla að maður geti nefnt þetta orð, maður hefur heyrt þetta oft hjá alþb.-mönnum — skyldi sá auð­hringur ekki hafa verið tengdari ný-nýlendu­stefnunni, yfirráðum og heimspólitík kapítalism­ans heldur en Swiss Aluminium? Breytti það einhverju um valið? Nei. Breytti það einhverju um valið að þessi auðhringur, Union Carbide, hafði átt þátt í að framleiða ýmis hryllilegustu vopn sem notuð voru í styrjöldinni í Víetnam?

Breytti sú vitneskja einhverju þegar iðnrh. Alþb. valdi sér Union Carbide sem samningsaðila? Nei, hún breytti engu. Iðnrh. Alþb. ávarpaði einn af aðalforstjórum þessa alþjóðlega fyrirtækis sem sinn kæra Malone: Kæri Malone. Ég vil fullvissa þig um að ég hef mikinn áhuga á að framfylgja áætlunum okkar um að stofnsetja málmblendiverksmiðju á Grundartanga á Íslandi, kæri Malone. — Þar talaði iðnrh. Alþb. Maður skyldi halda að það mundi e. t. v. hafa verið auðveldara fyrir Alþb. að sætta sig við það að hverfa frá viðskiptum við þessa stórauðhringa undir banda­rískri forustu, — og vart er nú hægt að nefna verra orð í eyru alþb.-manna en bandarískan kapítalisma, bandarískan stóriðnrekanda og auðjöfur, — menn skyldu því halda að þeim hefði heldur betur litist á það að hverfa frá bandarískum stórkapítalistum yfir til frænda okkar norðmanna og skipta við þá. En breytti það einhverju um afstöðu Alþb. til málm­blendiverksmiðjunnar á Grundartanga að það átti að semja við norðmenn, frændþjóð okkar, frekar en bandarískan stórauðhring sem iðnrh. Alþb. hafði valið sem samningsaðila? Nei, það breytti ekki heldur neinu.

Nú er það fært fram hér af hv. þm. Alþb., Sigurði Magnússyni, og þeir útreikningar byggðir á kringumstæðum eins árs, að það sé líklegt, að mikill taprekstur verði á þessari verksmiðju á Grundartanga, og það fært sem röksemd fyrir því að Alþb. sé á móti þessari verksmiðju, þ. e. a. s. Alþb. er á móti verksmiðjunni vegna þess að það er fyrirsjáanlegt að það verði tap á henni. Ég man vel eftir því þegar fyrir frumkvæði Magnúsar Kjartanssonar, þáv. hæstv. iðnrh., var verið að ræða við Union Carbide um málm­blendiverksmiðjuna á Grundartanga, þá voru ýmsir menn sem leituðu til fulltrúa Alþb. í þeirri viðræðunefnd og komu með ýmsar spurn­ingar til hans, eins og það, hvort það væri ekki áhætta fólgin í því að íslendingar ættu meiri hluta í þessu fyrirtæki, og annað slíkt. Þá sagði þessi fulltrúi Alþb. og var m. a. haldið fram af iðnrh., ef mig rangminnir ekki, að það væri þó eitt sem væri ljóst, og það væri að samkv. þeim útreikningum, sem þá var búið að gera, væri alveg öruggt mál að það yrði stórgróði af þess­ari verksmiðju. Og þá spyr ég: Voru alþb.-menn þá reiðubúnir til þess að fallast á að styðja þessa verksmiðju vegna þess að þá leit út fyrir að það mundi verða gróði af henni? Ja, maður skyldi ætla af bréfum hæstv. iðnrh., Magnúsar Kjartans­sonar, sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason las upp hér fyrir nokkrum dögum, að svo hefði verið. En síðan koma þm. Alþb. hér hver á fætur öðr­um með hv. þm. Lúðvík Jósepsson í broddi fylk­ingar og segja: Aldeilis hreint ekki. — Sem sé, það skiptir Alþb. engu máli í þessu sambandi hvort heldur það var líklegt að það verði stór­hagnaður af verksmiðjunni eða líklegt að verksmiðjan verði rekin með tapi. Það skiptir ekki heldur máli. Alþb. er á móti hvort sem ofan á verður.

Nú hef ég að vísu ekki svona augljós dæmi, sannanlegar staðreyndir, til þess að stilla upp varðandi mengunarmál. En mig uggir það þó, þá leiðrétta þeir alþb.-menn mig ef ég fer rangt með, að jafnvel þótt þeir hefðu fengið sín­um ýtrustu kröfum um mengunarmál fullnægt, þá hefðu þeir samt verið á móti málmblendiverk­smiðjunni á Grundartanga. Það gefst enn tæki­færi til að leiðrétta þetta, sem ég hef hér sagt, t. d. í Ed. Alþ. Vilja alþb.-menn þar lýsa því yfir, að ef fallist verði á ákveðin afmörkuð atriði í sambandi við mengunarvarnir í verksmiðjunni sem fyrirhuguð er á Grundartanga, þá muni Alþb. taka afstöðu með þeirri verksmiðju? Ef þeir fást ekki til að gera þetta, þeir alþb.-menn, þá skipta mengunarmálin heldur engu máli í þeirra augum. Þá eru þeir á móti verksmiðjunni hvernig sem mengunarvörnum er þar ráðstafað.

Ég held að ég sé búinn að leiða líkur að því, að það sé alveg sama hvernig niðurstaðan í þess­um verksmiðjumálum er, hvort útlendingar eiga meiri hluta í verksmiðjunni eða íslendingar, hvaða erlendur aðili er viðsemjandi, hvort út­koman er áætluð neikvæð eða jákvæð, hvort fyllstu kröfum um mengunarvarnir er sinnt eða ekki. Ég held að þetta skipti ekki nokkru máli í augum þeirra alþb.-manna, þeir séu á móti slík­um fyrirtækjum þrátt fyrir allt. Ég er ekki að áfellast þá fyrir slíka afstöðu. Slík afstaða er eðlileg hjá ákveðnum hópi, alveg eins og það er eðlileg afstaða hjá hv. þm. Jónasi Árnasyni, a. m. k. eftir því sem mér finnst hún vera, að hann er yfirleitt á móti öllum alþjóðlegum auð­hringum, hann er á móti öllum alþjóðlegum stórfyrirtækjasamsteypum og gerir þar ekkert upp á milli. Þetta er afstaða sem er fyllilega heiðarlegt að hafa og hv. þm. að mínu áliti hefur og er ekkert minni maður fyrir að hafa. En verk­efni okkar stjórnmálamanna er ekki að óska þjóð okkar þess að búa í litlum torfkofa langt frá öllum mannabyggðum, þar sem fuglarnir syngja, hafið glitrar og sólin stafar geislum sín­um á lognkyrran sæinn, hafa þarna 10–11 kindur og eina kú, kannske von í mótorbát, engan síma, ekkert rafmagn, ekkert sjónvarp, ekkert útvarp. (Gripið fram í: Og vaxa blóm á þakinu.) Og vaxa blóm á þakinu, alveg rétt hjá hv. þm. Ég tel rétt að menn geti fengið að flytjast á slíkan stað sem einstaklingar fyrir sig og megi ráða því sjálfir alveg átölulaust. En í guðs almáttugs bænum, hv. þm. Jónas Árnason, gerðu aldrei tilraun til þess að draga alla íslensku þjóðina þangað á eftir þér.