14.10.1976
Neðri deild: 3. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

11. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Út af lokaorðum síðasta hv. ræðumanns vil ég taka það fram, að eitt atriðið og ekki það þýðingarminnsta í því að koma í veg fyrir að afbrot séu framin er það, að þeir, sem með þjóðfélagsvaldið fara, hafi hæfileika til þess að ljúka á eðlilegum tíma rannsókn þeirra brotamála, sem orðið hafa, og réttlátur dómur geti gengið eðlilega og fljótt fyrir sig. Það er ekki siður fyrirbyggjandi aðgerð að efla rannsóknarlögreglu ríkisins til starfa heldur en hvað annað sem gert er í því skyni. Og ég lít alls ekki á þetta frv., sem hér er til umr., einvörðungu sem nokkurs konar aðgerð sem gripið er til eftir að verknaðurinn hefur verið framinn, heldur ekki siður mjög vel fallið til þess að fyrirbyggja frekari afbrot, vegna þess að það, sem er raunverulega mest um talað í íslensku þjóðlífi í dag hvað varðar dómsmálin, er að lög og réttur, þ. á m. rannsóknir sakamála, nái ekki til ákveðinna tegunda afbrota eða réttara sagt nái mjög seint og illa til þeirra. Svarið við því er auðvitað að efla þessa þætti málanna, efla rannsóknirnar, flýta dómsuppkvaðningu og hraða störfum dómstóla, og það er að sjálfsögðu fyrirbyggjandi aðgerð ekki síður en hvað annað.

Hv. 1. þm. Suðurl. spurði hér áðan hvaða skaði hafi verið skeður þó að síðasta þing hafi ekki afgreitt þetta frv. sem hér hefur verið lagt fram í annað sinn. Honum er auðvitað fyllilega ljóst sjálfum, gömlum og reyndum þm., hvaða skaði er skeður. Róm er ekki byggð á einni nóttu. Embætti rannsóknarlögreglustjóra og rannsóknarlögregla ríkisins verða ekki reist á einni nóttu. Það virðist ljóst vera að þó að þetta frv. fái góðar viðtökur núna á þessu þingi, þá muni vera mjög lítill tími til þess að byggja upp það embætti sem frv. gerir ráð fyrir að stofnsett sé, þannig að það geti tekið til starfa af fullum krafti nú um n.k. áramót. Þetta hefði verið unnt að gera ef frv. hefði verið samþ. á síðasta þingi. Það hefði verið hægt að fara að byrja að undirbúa þessa nýju sókn miklu fyrr og betur en nú. Og ekki hvað síst er erfitt að undirbúa framkvæmdina á þessu frv. nú þegar reynslan er sú og þeir menn, sem um þetta eiga að fjalla, vita af reynslunni að það virðist vera ágreiningur í stjórnarliðinu um það hvort bókstaflega á að samþykkja þetta frv. eins og það er eða ekki, hvort á að samþykkja það, hvort á að gera á því mjög veigamiklar breytingar eða ekki. Menn geta ekkert um það vitað fyrr en eftir talsvert langan tíma, og þá verður harla skammur tími til stefnu til þess að byggja upp það sem á að byggja upp samkv. þessu frv., þannig að embætti rannsóknarlögreglustjóra ríkisins geti tekið til starfa 1. jan. n.k., eins og frv. gerir ráð fyrir. Hv. þm. þarf ekki að hafa mín orð fyrir þessu. Hann getur einfaldlega flett upp í þingtíðindum og lesið ummæli hæstv. dómsmrh., Ólafs Jóhannessonar, frá því á s.l. vori, þegar þessi mál voru til umr. utan dagskrár hér í hv. Nd. Hæstv. ráðh. var ekkert að draga undan af áliti sínu á því, hvað mundi gerast ef þingið afgreiddi ekki frv. eins og til stóð á s.l. vori. Hv. þm. þarf ekki að hafa mín orð fyrir þessu. Hann getur einfaldlega snúið sér að því að fletta upp orðum hæstv. dómsmrh. í þingtíðindum. Hann verður svo að ráða því sjálfur, hv. þm., hvort hann trúir hvorki hæstv. dómsmrh. né öðrum þm. og jafnvel ekki eigin reynslu sem gamall og reyndur þm.

Þá kvartaði hv. þm. mjög undan því að ég væri að brýna stjórnarsinna. Með hverju? Ég gerði ekkert annað í minni ræðu en að lýsa staðreyndum. Ég sagði frá því, hvað gerst hefði á s.l. vetri. Ég sagði frá því, að stjórnarandstöðuþm. hefði þurft að ganga fram fyrir skjöldu, hefði þurft að leita til forseta þessarar hv. d. til þess að óska eftir því að stjfrv. yrði afgr. úr n. Ég lýsti því líka yfir að hæstv. dómsmrh. hefði einnig þurft að gera þetta sama. Ég get bætt því við, sem einnig er staðreynd, að hæstv. forseti þessarar d., sá hæstv. forseti, sem nú situr í forsetastól, óskaði í þessum umr. eftir því úr forsetastól að hv. allshn. kæmi saman til fundar og afgreiddi þetta mál. En þáv. formaður n. boðaði engan fund. Það getur vel verið að hv. þm. Ingólfur Jónsson telji það vera brýningar af minni hálfu að vera að skýra frá þessum staðreyndum. En þær verða ekki umflúnar. Hv. þm. Ingólfur Jónsson og aðrir í meiri hl. allshn. voru brýndir í fyrra, en það hafði bara ekki nokkra þýðingu.

Ég var talsvert ánægður eftir ræðu hv. þm. Ingólfs Jónssonar, því að hann bar þau skilaboð frá fyrrv. formanni allshn., Ellert B. Schram, hv. þm., að hann mundi ekki standa í vegi fyrir því að þetta frv. yrði afgr. fljótt og örugglega nú. Ég gladdist yfir þessum orðum En það var annað hljóð í öðrum hv. þm., flokksbróður hv. þm. Ingólfs Jónssonar, hv. þm. Friðjóni Þórðarsyni, sem talaði hér áðan, vegna þess að meginefnið í hans ræðu var það, að hann sagði að allir lögreglumenn ættu að vera rannsóknarlögreglumenn og öll lögregla, þ. á m. rannsóknarlögregla, ætti þá að lúta sömu stjórn. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir það, að hv. flokksbróðir Ingólfs Jónssonar, hv. þm. Friðjón Þórðarson, er algerlega andvígur meginefni þess frv. sem hér er rætt, vegna þess að meginefni þess frv., sem hér er rætt, er það að stofna sérstakt embætti, sérstaka rannsóknarlögreglu ríkisins, sem lúti stjórn rannsóknarlögreglustjóra. Af yfir lýsingu þessa hv. þm. að dæma hefur sem sé ekkert breyst frá því í fyrra.

Hann gefur þá yfirlýsingu hér úr ræðustól, hv. þm., að hann sé andvígur meginefni þessa frv., og þar er þá væntanlega komin skýringin á því, hvernig á því stóð að stjórnarmeirihl. í allshn. heyktist á því í fyrra að afgreiða þetta mál. Og ef má marka orð hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar hér áðan, þá hefur harla litið breyst í afstöðu a.m.k. sumra nm. í hv. allshn. á því sumri sem liðið hefur síðan.