28.04.1977
Sameinað þing: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3914 í B-deild Alþingistíðinda. (2906)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það verður æ betur ljóst hver straumhvörf urðu til batnaðar í efnahags­lífi okkar íslendinga á s. 1. ári. Viðskiptahalli við útlönd var stórum minni en árið áður, gjald­eyrisstaða batnaði til muna svo og fjárhagsað­staða ríkissjóðs. Nokkuð dró úr þeirri verðbólgu sem geisað hefur hér á landi um langt skeið, þótt í því efni hafi ekki enn tekist að ná því marki sem sett var í stjórnarsáttmálann. Atvinna var góð og framkvæmdir voru miklar bæði á vegum hins opinbera og hjá einstaklingum. Á margan hátt var búið í haginn fyrir framtíðina. Ég þyl hér engar tölur, þær eru tiltækar í opin­berum skýrslum.

Útlitið í efnahagsmálum þjóðarinnar er því bjartara nú en oft áður. Því er spáð að þjóðartekjur aukist um 5% ef skynsamlega verður á málum haldið. Framvindan á fjórum fyrstu mánuðum þessa árs er hagstæð. Framleiðsla fer vax­andi, atvinnuástand er gott, viðskiptakjör eru góð og batnandi enn sem komið er og sæmilega horfir um jöfnuð í viðskiptum við útlönd. Við ættum því að geta litið til framtíðarinnar með hóflegri bjartsýni ef ekki slær í baksegl.

Ég held líka að almennt sé ríkjandi bjartsýni. Framkvæmdaáform, húsabyggingar, gróska í atvinnulífi, óskir um skipakaup og margt fleira ber þessari bjartsýni vitni. Það er óþurftaverk sem of margir iðka, að telja kjark úr ungu fólki. En því þarf að rétta örvandi hönd.

Eins og jafnan eru þó ýmsar blikur á lofti. Verðlag á ýmsum innflutningsvörum fer ört hækkandi. Kjaramál öll eru óleyst og þar með sjálf tekjuskiptingin innan þjóðfélagsins. Ríkir því enn mikil óvissa á því sviði. Ég tel að nokkurt svigrúm hafi skapast til þess, eins og nú horfir, að grynna nokkuð á erlendum skuldum og bæta raunveruleg kjör þeirra sem lakast eru settir, láglaunafólks og ellilífeyrisþega.

Ég hef áður lýst því yfir, að ég er fylgjandi þeirri stefnu sem mörkuð var á síðasta Alþýðu­sambandsþingi, þ. e. að mánaðarlaun hinna lægst launuðu hækki í 100 þús. kr. miðað við verðlag það sem gilti s. l. haust. Menn geta ekki með góðu móti lifað af lægri launum. Hitt vil ég jafnframt undirstrika, að ég tel ekki unnt að láta tilsvarandi launahækkun ganga gegnum allt launakerfið, þeir, sem hafa hærri laun, verða að láta sér nægja minna. Það verður samkv. mínu mati að stefna að nokkurri launajöfnun. Það er blátt áfram óhjákvæmilegt ef takast á að rétta hlut þeirra sem neðstir eru í launastiganum. Aukning þjóðartekna setur heildarlaunahækkun ákveðin mörk. Innan þess ramma má á margan hátt breyta tekjuskiptingunni, þ. á m. í það horf sem áður var greint, en heildarlaunahækkun um­fram það, sem þjóðartekjur leyfa, fær ekki staðist, verður ekki raunveruleg.

Eins og áður er sagt, er spáð að tekjur allrar þjóðarinnar aukist um 5% á þessu ári. Það þýðir m. ö. o. að sú heildarlaunahækkun, sem fer fram úr því marki, verður aðeins til þess að auka á hraða verðbólgunnar. Það býður aftur þeirri hættu heim, að á ný upphefjist stórfelld víxilverkun kaupgjalds og verðlags sem getur þurrkað út í einu vetfangi launahækkun þá er skriðunni hleypti af stað og eftir sitja þeir, sem lægst hafa launin, öllu verr settir en áður.

Þetta gerðist á árinu 1974, þó að utanaðkomandi ástæður ættu þar drýgstan hlut að. Það er von mín og trú, að verkalýðsleiðtogar hafi dregið nokkurn lærdóm af því sem átti sér stað þá. Á síðustu tveim árum hefur verkalýðsforustan sýnt þá ábyrgu afstöðu að taka tillit til efnahagsástandsins. Hóflegir kjarasamningar á þessu tímabili eiga sinn drjúga þátt í því, að jákvæður árangur hefur náðst á sviði efnahagsmála að undanförnu. Vonandi er að þessi ábyrga afstaða verði ofan á í þeim samningaumleitunum sem nú standa yfir. Þetta á ekki síður við um atvinnurekendur sem verða að koma til móts við kröfur verkalýðssamtakanna ef ekki á illa að fara. Verkföll valda miklu tjóni sem bitnar á launþegum, atvinnurekstri og þjóðinni allri. Það vita atvinnurekendur manna best.

Fráleitar kaupkröfur eru engum til góðs. Þær verða til þess að seinka því að kjarasamningar takist. En óumbreytanlegt tregðulögmál atvinnu­rekenda er einnig ákaflega óskynsamlegt að mínum dómi. Það bætir ekki andrúmsloftið og verð­ur til þess að draga samninga á langinn. Auk þess er hætt við að menn hætti að taka mark á síendurteknum yfirlýsingum atvinnurekenda um algjört getuleysi. Velvilji, skilningur og til­hliðrun af hálfu ríkisvaldsins getur hér einnig þurft til að koma.

Við þurfum að koma kjarasamningum á svipað plan og í nágrannalöndum. Þar er ekki rætt um slík heljarstökk eins og hjá okkur. Gagna­söfnun og upplýsingamiðlun, sem fyrir hendi er, getur lagt grundvöll að slíkum vinnubrögðum.

Ég hef hér gerst nokkuð margorður um yfirstandandi kjarasamninga. Það er af því að þeir eru í brennidepli og þeir eru nú öllum lands­mönnum efst í huga.

Þegar rætt er um kjaramál má ekki gleyma því, að tekist hefur að halda fullri atvinnu í landinu. Það verður seint ofmetið. Það sést best þegar litið er til atvinnuástandsins í nágranna­löndum okkar. Blöð stjórnarandstæðinga hafa ýjað að því, að margt fólk hyggist flytja bú­ferlum til annarra landa í atvinnuleit. Ég læt réttmæti fullyrðinga af þessu tagi liggja á milli hluta. En mér er spurn: Hvert ætlar þetta fólk að flytjast? Það land í Evrópu mun a. m. k. vand­fundið þar sem ekki ríkir atvinnuleysi. Í vel­ferðarríki eins og Svíþjóð voru t. d. yfir 60 þúsundir manna atvinnulausar á miðju síðasta ári og var þó atvinnuástandið sýnu verra í flestum öðrum Evrópuríkjum.

Sú gagnrýni gerist æ háværari að draga beri úr útgjöldum ríkis og sveitarfélaga. Slík gagn­rýni getur kitlað eyru manna, en hún er yfirborðskennd og brýtur ekki þessi mál til mergjar. Mikill meiri hluti af útgjöldum hins opinbera rennur til heilbrigðis- og tryggingamála, félags­mála, menntamála og samgöngumála. Nú spyr ég: Vilja þeir, sem á mál mitt hlýða, draga úr út­gjöldum til þessara málaflokka? Ætli flestum sé ekki þannig farið, að þeir telji fremur nokkuð skorta á í þessum efnum. A. m. k. hef ég fáa hitt fyrir sem treysta sér til þess að skera niður útgjaldaliði er nokkru nemi, og víst er að stjórnarandstæðingar eru ekki í þeim hópi. Úr þeim herbúðum heyrist sjaldnast annað en kröfur á kröfur ofan um aukningu ríkisgjalda í einni eða annarri mynd.

Þeir, sem hafa uppi herópið: „báknið burt“ — þurfa líka að gera hreint fyrir sínum dyrum. Þeir verða að segja skýrt og skilmerkilega hvað þeir vilja spara, hverja þætti ríkiskerfisins þeir vilja nema burt. Slagorð, þótt vel hljómi, leysa engan vanda. Ég get fallist á það, að rekstrarút­gjöld séu e. t. v. of hátt hlutfall af heildarút­gjöldum ríkisins. Að því ber vitaskuld að stefna að draga úr þeim útgjöldum eftir því sem kostur er. Í verklegum framkvæmdum verður hið opin­bera að sjálfsögðu að sníða sér stakk eftir vexti, en framkvæmdum verður að halda uppi svo sem frekast er unnt.

Verklegar framkvæmdir þjóna að mínum dómi margvíslegum tilgangi. Í fyrsta lagi eru þær snar þáttur í byggðastefnu, þar sem þær leggja í mörgum tilvikum undirstöðu undir atvinnuuppbyggingu sem aftur er forsenda þess að hægt sé að auka þjóðarframleiðsluna. En með því móti einu að auka þjóðarframleiðsluna getum við íslendingar bætt raunveruleg lífskjör okkar. Í öðru lagi tryggja þessar framkvæmdir lands­mönnum öllum þá félagslegu þjónustu er við teljum sjálfsagða og hlýtur að fylgja í kjölfar þeirrar miklu atvinnuuppbyggingar sem átt hefur sér stað um land allt á síðustu árum. Og síðast, en ekki síst tryggja verklegar framkvæmdir það oft að afstýrt sé tímabundnu atvinnuleysi.

Atvinnuöryggi og sæmilegar tekjur eru eðlilegt keppikefli hvers manns og frumskilyrði mann­sæmandi lífs. En hinu má þó ekki gleyma, að maðurinn lifir ekki af einu saman brauði. Skefja­laust lífsgæðakapphlaup getur gengið út í öfgar og veitir ekki þá lífsfyllingu sem æskilegt er. Það er því þörf á nýju lífsgæðamati og hófsemi í víðtækum skilningi.

Það, sem ég tel langsamlega stærsta vandamál okkar eða viðfangsefni nú, er að tryggja skynsamlega nýtingu íslenskra fiskimiða og koma í veg fyrir ofveiði á fiskstofnum í fiskveiðiland­helgi okkar. Lífsafkoma íslensku þjóðarinnar á næstu árum og áratugum ræðst af því, hvort sókn í fiskstofna umhverfis landið verður haldið innan þeirra marka sem þeir stofnar þola. Með samkomulagi því, sem gert var í Osló fyrir tæpu ári og innsiglaði sigur okkar í landhelgis­málinu, var vissulega stigið stórt skref í þessa átt, þar sem við fengum það viðurkennt að við ættum í framtíðinni einir að stjórna veiðum á Íslandsmiðum. Ég er svo bjartsýnn að trúa því, að okkur takist að fylgja þessum sigri eftir með nauðsynlegri friðun fiskimiðanna og skynsam­legri hagnýtingu þeirra án þess að grípa til ein­hverra ofboðsaðgerða. Við skulum hafa það í huga, að við eigum hér eftir við okkur eina að sakast ef illa tekst til. Efnahagslegt sjálf­stæði okkar í framtíðinni er undir því komið að við leysum þetta viðfangsefni á viðunandi hátt, látum aldrei þá skömm um okkur spyrjast að við spillum sjálfir þessum náttúruauðlindum okkar eftir að við höfum fengið yfir þeim full og óskoruð yfirráð. Því má ekki gleyma að út­færsla fiskveiðilögsögunnar er stærsta mál síð­ustu ára.

Að undanförnu hefur talsvert verið rætt um svokölluð stóriðjumál, m. a. í sambandi við fyrir­hugaða járnblendiverksmiðju á Grundartanga, en einnig af öðrum ástæðum. Hér er eigi kostur að ræða þau mál almennt né Grundartangaverk­smiðjuna sérstaklega. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að í samningum um járnblendiverksmiðjuna er mörkuð ný stefna í þessum efnum, þ. e. að íslendingar skuli eiga meiri hluta í fyrirtækinu og það skuli í einu og öllu lúta íslenskum lögum og innlendum dómstólum. Þar með hafa orðið ofan á þau sjónarmið sem við framsóknar­menn héldum fram og börðumst fyrir í sam­bandi við álsamningana á sínum tíma. Þetta er að mínum dómi mjög mikilvægt, og verður tæp­lega vikið frá þeirri meginreglu ef til einhverrar samvinnu við útlendinga um stofnun atvinnufyrirtækja kemur síðar, sem ekki á að koma til að mínu mati nema í algjörum undantekningar­tilfellum.

Ég skil ekki röksemdir þeirra manna sem lýst hafa andstöðu við járnblendiverksmiðjuna af þeirri ástæðu að útlendingar ættu þar ekki meiri­hlutaaðild. Hún byggist á vantrausti á eigin getu. Allur íslenskur atvinnurekstur er áhættu­samur, en engum hefur víst dottið í hug að íslendingar sjálfir ættu bara að vera þar minni­hluta aðilar. Ekki meira um það. En ég undir­strika aftur hina nýju meginstefnu, sem nú hefur verið viðurkennd, núv. iðnrh. hefur fylgt henni fram, en hún var mótuð í tíð fyrrv. stjórnar, er grundvöllur var lagður að Grundartangaverk­smiðju.

Það tíðkast í eldhúsumr. að eitthvað sé vikið að stjórnarandstæðingum. Í því stjórnkerfi, sem við búum við, er stjórnarandstaða sjálfsögð og nauðsynleg. Um núv. stjórnarandstæðinga má segja, að enginn frýr þeim vits og ekki vantar þá viljann og eljuna. En þrátt fyrir vitið og stritið í stjórnarandstöðunni hafa þeir ekki haft erindi sem erfiði. Ég held að skýringin sé að nokkru leyti sú, að í málflutning þeirra skortir oft sannfæringarkraftinn. Það er eðlilegt, því að í langflestum tilfellum hefðu þeir í stjórnaraðstöðu brugðið við með svipuðum hætti og núv. stjórn. Í annan stað hefur viðleitni þeirra eink­um beinst að því að koma af stað einhverri mis­klíð á milli núv. stjórnarflokka, en þar hafa þeir orðið fyrir vonbrigðum og hafa sumir þeirra orðið nokkuð beiskir í lund af þeirri sök.

Þegar á allt er litið eru stjórnarandstæðingar hér sjálfsagt ekki ósanngjarnari en gengur og gerist. Þó að þeir nöldri stundum óþarflega mikið gera þeir sjálfsagt sitt gagn á sinn hátt. Ég fyrir mitt leyti er ósköp ánægður með þá eins og þeir eru, og þó að þeir láti nú eitthvað fjúka hér í kvöld mega hlustendur ekki taka þá bókstaflega. Þegar til alvörunnar kemur og á þarf að halda vilja þeir flestir gera sitt besta fyrir land og þjóð, eins og langsamlega flestir þeir alþm., sem ég hef kynnst. Og það skulu vera mín síðustu orð að vara við þeim óhróðri sem nú er tíska að þyrla upp um alþm. og þá um leið auðvitað sjálft Alþingi. — Þökk þeim sem hlýddu.