28.04.1977
Sameinað þing: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3928 í B-deild Alþingistíðinda. (2909)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hv. síðasti ræðumaður og ýmsir aðrir hafa látið að því liggja, eins og raunar oft áður, þegar fjallað er um störf Alþ., að það þinghald, sem nú er að ljúka, hafi verið næsta sviplítið. Þegar betur er skoðað greinir gagnrýnendur oftast á um það, hvað þeir finna störfum þingsins helst til foráttu.

Aðal löggjafans á ekki að vera upphlaup þm. í auglýsingaskyni utan venjulegrar dagskrár, heldur þrotlaust starf að þjóðarheill sem felst í hví að setja skynsamlega löggjöf og veita fram­kvæmdavaldinu eðlilegt aðhald.

Störf þm. í vetur hafa ekki síst mótast af því, að markviss og þrautseig stefna ríkisstj. í efnahagsmálum ásamt bættum ytri skilyrðum hefur borið árangur. Tekist hefur að draga verulega úr afleiðingum af fyrri efnahagsáföllum og reyndar að snúa vörn í nýja sókn. Því hefur ekki verið nauðsynlegt að leggja fyrir þingið tillögur um skyndiráðstafanir í efnahagsmálum.

Vera kann að ýmsir innan þingsala og utan vilji ávallt að spenna og harðvítugar deilur ríki. En ég tel þvert á móti að fámennri þjóð sé fátt nauðsynlegra en að haga svo málum sínum að spennu og deilum sé eytt og unnt sé með ró­legri yfirvegun að vinna að almannaheill. Okkur er nauðsynlegt að hafa ráðrúm til að hyggja að langtímaverkefnum, en vera ekki ávallt bundin við lausn daglegra úrlausnarefna. Nú höfum við tök og tækifæri, ef við kunnum fótum okkar forráð, til að líta þannig fram á veginn.

Eftir að ríkisstj. gerði samninginn, sem færði okkur sigur í landhelgismálinu og tryggði okkur full yfirráð yfir 200 mílunum og hann var samþykkur hér í sameinuðu Alþ. s. l. haust, hefur landhelgismálið lítið verið á dagskrá miðað við það sem var fyrir ári. Að vísu bíða okkar mikil­vægar ákvarðanir um nýtingu 200 mílna fisk­veiðilandhelginnar og viðræður við aðrar þjóðir um fiskfriðunar- og nýtingarmál. Í þeim efnum hljótum við að haga málflutningi okkar í sam­ræmi við þá staðreynd, að nauðsynlegt er að styrkja fiskstofnana og þeir eru nú fullnýttir hér við land — og að margra hyggju raunar ofnýttir. Hitt er þó einnig ljóst, að engin ein þjóð getur tryggt fiskvernd. Fiskurinn í sjónum er ekki bundinn við yfirráðasvæði einstakra ríkja. Um vernd hans verður að vera samvinna þjóða í milli.

Utanríkismál hafa verið í brennidepli. Engin breyting hefur orðið á stefnu ríkisstj. í öryggismálum, en í stefnuyfirlýsingu hennar segir:

„Öryggi landsins skal tryggt með aðild að Atlantshafsbandalaginu. Hafa skal sérstakt sam­starf við Bandaríkin meðan starfrækt er hér varnar- og eftirlitsstöðvar á vegum Atlantshafs­handalagsins.“

Ríkisstj. hefur staðfest áframhaldandi starfrækslu varnar- og eftirlitsstöðvarinnar með endurskoðun framkvæmdar varnarsamningsins. Fyr­ir kosningarnar 1974 fóru fram ítarlegar umr. um öryggismál Íslands sem vöktu þjóðina til meðvitundar um hernaðarlegt mikilvægi lands­ins. Síðan hefur dregið úr umr. sem ekki er alls kostar æskilegt. Það er nauðsynlegt að þessi mál séu alltaf til umr. og fylgst sé vel með þróun á alþjóðavettvangi. Ekkert er mikilvægara sjálfstæði lands og þjóðar en að tryggja öryggið út á við með traustum hætti.

Síðustu vikurnar hefur þinghaldið einkennst nokkuð af deilum um hlut erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi. Samningur um að reisa járnblendiverksmiðju á Grundartanga við Hval­fjörð í samvinnu við erlent stórfyrirtæki var arfur núv. ríkisstj. frá fyrri stjórn, en einn af ráðh. Alþb. hafði þá forustu í málinu. Þess vegna er hér ekki um ágreiningsmál að ræða milli flokka í venjulegum skilningi. Eðlilegt er að menn hafi ólíkar skoðanir á því að ráðist sé í svo fjárfrekar framkvæmdir og hver hlutur rík­isins eigi þar að vera. Í öllum þeim umr. má þó ekki gleymast nauðsyn þess að styrkja undir­stöður atvinnulífsins og anka fjölbreytni þess. Það hefur aldrei verið átakalaust fyrir þá, sem vilja framfarir í stað kyrrstöðu, að koma hugmyndum sínum í framkvæmd, en framfarirnar eru forsenda velmegunar. Einnig má minna á að á miklu ríður að tryggja að Sigölduvirkjun fari að skila tekjum sem fyrst.

Mörg og mikilvæg lagafrv. hafa verið lögð fram á þinginu og samþykkt. Önnur lagafrv., sem boðuð hafa verið, hafa verið í undirbúningi og eru í undirbúningi, því að ríkisstj. metur meira, að undirbúningnum sé vel hagað, heldur en að koma fram með frv. áður en endanlegum undirbúningi er lokið. Vel skal það vanda sem lengi á að standa.

Sum þeirra lagafrv., sem hér hafa verið lögð fram, hafa ekki hlotið fullnaðarafgreiðslu. Það er eðlilegt í sumum tilvikum, vegna þess að þau eru fyrst og fremst flutt til að sýna þau þm. svo að þeir geti kannað þau og athugað til næsta þings. En mér eru það óneitanlega vonbrigði t. d., að frv. til nýrra skattalaga hlýtur ekki afgreiðslu á þessu þingi. Það er engum blöðum um það að fletta, að það er mikill ávinningur fyrir alla landsmenn ef unnt reynist að endur­skoða álagningu beinna skatta með það fyrst og fremst fyrir augum að draga úr beinni skatt­álagningu, fækka þeim sem greiða tekjuskatt til ríkisins og beina tekjuöflun ríkisins, að svo miklu leyti sem hún er óhjákvæmileg, frekar í óbeina skatta, skattleggja fremur eyðsluna en verðmætasköpunina. Sú stefna ríkisstj. að draga úr beinum sköttum hefur fengið stuðning frá Alþýðusambandi Íslands og jafnvel ýmsum stjórnarandstæðingum. Ríkisstj. leggur áherslu á víðtæka samstöðu um breytingar á skattalögum. Til þess að ná henni hefur ekki unnist tími á yfirstandandi þingi, jafnvel þótt vel hafi verið unnið að málinu í fjhn. beggja deilda og þótt þing hefði setið fram í júnímánuð. Því hefur reynst nauðsynlegt að fresta afgreiðslu skattalagafrv. til næsta hausts og nota tímann til að samræma þau sjónarmið sem fram hafa komið. Skattalagafrv. hefði ekki heldur haft áhrif á álagningu þessa árs, en vonir standa til að í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins verði gerðar breytingar á núgildandi skattalögum sem sníði agnúa af og komi því öllum að gagni þegar í stað.

Ég ætla ekki að rifja upp hvernig þjóðarbúið var statt þegar núv. ríkisstj. tók við, þótt ræða Lúðvíks Jósepssonar gæfi tilefni til þess. Ástæðan til hækkunar þjónustugjalda opinberra fyrir­tækja var sú, að þegar Lúðvík Jósepsson hætti sem ráðh. voru allar opinberar þjónustustofnanir í jafnvel milljarða kr. óreiðuskuldum. Atvinnureksturinn í landinu var rekinn með halla og sjávarútvegurinn var rekinn með á fimmta milljarð kr. halla á ári miðað við núgildandi verðlag þegar Lúðvík Jósepsson lét af störfum sem sjútvrh. Ekki var séð fyrir tekjuöflun vegna skuldbindinga ríkissjóðs. Þetta er ástæðan fyrir því að ekki hefur tekist að stemma stigu við verðhækkunum og verðbólgu sem skyldi. Núv. ríkisstj. tók við meira en 50% verðbólgu, en hún er þó komin niður í 25–30%. Lúðvík Jóseps­son telur þjóðráð að lækka vexti og skerða þannig hag sparifjáreigenda í landinu, koma þannig í veg fyrir sparifjármyndun og ræna þannig atvinnureksturinn nauðsynlegu fjármagni. Hann vill prenta seðla sem engin verðmæti standa á bak við, en það er að hella olíu á verð­bólgueldinn. Ef stefnu Lúðvíks Jósepssonar væri fylgt og gengið hefði ekki verið aðlagað rýrnandi útflutningstekjum, þá væri hér stórkostlegt atvinnuleysi. Ég væni Lúðvík Jósepsson ekki um að vilja það.

Ég vil að öðru leyti minna á að auk þeirra stórfelldu erfiðleika, sem blöstu við þegar núv. ríkisstj. tók við, hafa íslendingar síðan orðið fyrir alvarlegustu efnahagsáföllum sem hagskýrslur segja frá, a. m. k. áratugum saman. Eftir þessi áföll erum við nú að rétta við. Á slæmu árunum þurftum við til viðbótar því, að einstaklingar hertu að sér og lífskjör þeirra rýrnuðu, að taka erlend lán. Við þurfum að hugsa fyrst og fremst um það nú að standa í skilum. Á síðasta ári uxu bæði þjóðarframleiðsla og þjóðartekjur nokkuð. Aukningunni var fyrst og fremst varið til að bæta stöðuna út á við, minnka viðskiptahallann og það tókst. Hann var 11–12% miðað við þjóðarframleiðslu 1974 og 1975, en á árinu 1976 komst hann niður í 1.7% af þjóðarframleiðslu.

Í stefnuræðu minni á s. l. hausti lét ég þá skoðun í ljós, að bætt ytri skilyrði ættu fyrst og fremst að nýtast þannig að draga mætti úr erlendum lántökum og koma á viðskiptajöfnuði við útlönd, enda eru allir sammála um að erlend skuldasöfnun er þegar orðin of mikil og hana verður að stöðva. Takmark okkar á þessu ári er að jafna viðskiptahallann algerlega, þannig að við í framtíðinni getum létt nokkuð þá byrði vaxta og afborganagreiðslna sem fyrirsjáanleg er.

Það er ekki nema eðlilegt að þeir, sem tóku á sig kjararýrnun á slæmu árunum, ætlist til þess að fá einhverja bót þegar batnar í ári. En okkur er þarna ákveðinn stakkur skorinn. Við getum bent á það, að um leið og þjóðartekjur á síðasta ári uxu um 5.5% og þótt meginhlutanum væri varið til þess að bæta viðskiptajöfnuðinn út á við var unnt því til viðbótar að auka ráðstöfunartekjur almennt í landinu lítil­lega og þannig snúa þróuninni á ný til framfara og bættra lífskjara. En í þeirri sókn þarf að fara með gát.

Við höfum e. t. v. þurft í senn að draga meira úr ráðstöfunarfé heimilanna og einstaklinganna í landinu og taka hærri lán en ella vegna þess að við höfum einbeitt okkur á síðustu árum að fjárfestingu, m. a. á sviði orkumála. Þær stór­framkvæmdir munu í framtíðinni gera okkur kleift að spara erlendan gjaldeyri og búa að okkar eigin orku. Þessi fjárfesting mun því vonandi reynast þjóðarbúinu heilladrjúg. Við vonum að náttúruhamfarir valdi ekki tjóni á lífi og limum eða efnalegum gæðum frekar en orðið er.

Nú er viðfangsefnið að bæta kaupmátt launa án þess að vaxandi verðbólga fylgi í kjörfarið og eyði þeirri krónutöluhækkun sem e. t. v. fæst við samningaborðið. Búist er við því að þjóðar­tekjur aukist á yfirstandandi ári enn um rúm­lega 5%. Sé við það miðað að aukning sam­neyslunnar — sameiginlegra útgjalda — verði aðeins um 2% og út frá því gengið að ýmsum áföngum í fjárfestingaráformum sé lokið, eins og á sviði orkumála, ætti að vera unnt að auka ráðstöfunarfé heimilanna — einkaneysluna — um u. þ. b. 6% á þessu ári. Þetta er sá raun­verulegi kaupmáttarauki ráðstöfunartekna sem við getum búist við að náist á árinu 1977, miðað við jafna dreifingu og ef vel er haldið á málum, ef jafnframt á að takast að ná hallalausum utan­ríkisviðskiptum sem allir viðurkenna sem brýna þörf.

Nú þykir ýmsum þetta e. t. v. ekki há tala. En náist hún er kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann og þjóðartekjur orðið sambærilegt við það sem var á árinu 1973, þótt viðskiptakjör á þessu ári séu væntanlega enn nokkru lakari en var þá. Mestu máli skiptir að þeir fái fyrst og fremst kjarabæturnar sem mest þurfa þeirra með, að kjarabótunum verði beint til þeirra lægst launuðu í þjóðfélaginu, hvort sem það eru þeir, sem fá laun greidd samkv. lægstu kaup­töxtum, eða lífeyrisþegar. Með þetta að mark­miði ber okkur að standa að kjarasamningum nú og gera okkur raunsæja grein fyrir möguleikum okkar. Ella rennur sá ávinningur út í sandinn sem við höfum orðið aðnjótandi hingað til, bæði fyrir aðgerðir stjórnvalda og vegna batnandi ytri skilyrða.

Í upphafi kjaraviðræðnanna sneru aðilar vinnu­markaðarins og þá einkum Alþýðusamband Ís­lands sér til ríkisstj. varðandi ákveðin atriði er máli skipta í sambandi við kjör launþega í land­inu. Ríkisstj. samþykkti að taka þau málefni til meðferðar og hefur skipað fulltrúa sína í starfs­hópa til að ræða við aðila um þessi atriði. Hér er um að ræða skattamál, lífeyrismál, húsnæðis­mál, vinnuvernd, verðlagsmál, vaxta- og verðtryggingarmál og dagvistunarmál. Ríkisstj. mun að þessu leyti segja hver stefna hennar er og hvað ríkisvaldið getur gert í þessum efnum er máli skiptir fyrir launþegana í landinu. Ég ætla ekki hér að ræða einstaka þætti, en vil þó drepa á skattamálin og lífeyrismálin.

Talið er að tekjur landsmanna hafi orðið nokkru hærri á síðasta ári en áætlanir fjárl. gerðu ráð fyrir, þannig að óbreyttar skattaálagningarreglur mundu veita ríkissjóði u. þ. b. milljarði meira en áætlað var. Spurningin er hvernig á að verja þessum milljarði og hvort unnt er að bæta nægilegri fjárhæð við til þess að gera skattalækkanir á yfirstandandi ári áhrifameiri, að því áskildu að skynsamlega sé staðið að kjarasamningum og fjárhag ríkissjóðs sé borgið.

Samstarfsnefndir stjórnvalda og aðilar vinnumarkaðarins hafa lengi unnið að endurskoðun lífeyriskerfisins. Árangur þess starfs kom fram í kjarasamningunum í fyrra, en nú er kannað hvernig unnt sé að stíga enn eitt skref til að verðtryggja lífeyri fyrir alla landsmenn. Það misrétti, að aðrir en opinberir starfsmenn njóti ekki verðtryggðs lífeyris, fær ekki staðist til lengdar.

Ég skal ekki spá neinu um það, hvort unnt sé að leggja fram tillögur eða ábendingar af hálfu ríkisstj. í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, vinnuveitendur og launþega, sem geti haft úrslitaáhrif og leitt til þess að endar nái saman og samningar takist í kjaradeilunni, án þess að til örþrifaráða eins og verkfalla verði gripið. Ég geri mér þó vonir um það, að þar vegi þyngst aðgerðir í skattamálum og lífeyrismálum.

Ég vil undirstrika, að það hefur verið stefna bæði launþegasamtakanna og vinnuveitenda að frjálsir kjarasamningar ættu fram að fara í þjóðfélaginu. Löggjafarvald og ríkisstj. ættu ekki að grípa fram fyrir hendur aðila vinnumark­aðarins. Einkum og sér í lagi hafa launþega­samtökin lagt áherslu á þetta. Á sama hátt og ætlast er til af ríkisstj. og löggjafarvaldi að virða þessar kröfur og hinn frjálsa samnings­rétt er eðlilegt að gagnkvæm krafa sé gerð til launþega og vinnuveitenda, að þessir aðilar semji um kaup og kjör á grundvelli þeirrar löggjafar sem í gildi er á hverjum tíma. Ástæðan til þess, að ég tel þrátt fyrir þessa viðurkenndu verka­skiptingu rétt að aðilar ráðgist um úrbætur í ýmsum löggjafarmálefnum, er sú, að þessi verkaskipting er engan veginn ávallt ótvíræð og gerir kröfur til samráðs og samábyrgðar stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Við íslendingar höf­um auk þess orðið fyrir mjög alvarlegum skakka­föllum, eins og ég gat um í upphafi máls míns, — áföllum sem gerðu það nauðsynlegt að gild­andi kjarasamningum var af hálfu fyrrv. ríkis­stj. rift. Það var fyrrv. ríkisstj. sem tók vísitöluna úr sambandi og ákvað þá löggjöf að greiðslu vísitölubóta skyldi hætt.

Landsmenn hafa orðið fyrir kjaraskerðingu sem var óhjákvæmileg eins og á stóð. Þegar betur árar er gagnkvæm skylda ríkisvalds og aðilja vinnumarkaðarins að leita samkomulags um lausn kjaradeilunnar, sem nú stendur yfir, til að tryggja raunverulegar kjarabætur. Við skulum ekki glata því sem áunnist hefur. Atvinnu­leysi hefur verið bægt frá dyrum íslendinga á meðan 6–8% af vinnufæru fólki hefur gengið atvinnulaust í nágrannalöndum okkar. Jöfnuður í viðskiptum við útlönd er að nást. Gjaldeyris­staðan hefur batnað um 4500 millj. síðustu 12 mánuði, en þarf enn að batna verulega. Og þótt seinna en skyldi hafi gengið í baráttunni við verðbólguna hefur þó þokast í rétta átt. Lausn kjaradeilunnar og skipting þjóðarteknanna verð­ur að miðast við að okkur takist að ná verð­bólgu enn niður.

Við íslendingar höfum nú í þessari stöðu tækifæri til þess að koma á jafnvægi og bæta kjör almennings ef við kunnum fótum okkar forráð. Við höfum tækifæri til að byggja upp frjálst efnahagslíf hér á landi á traustum grundvelli. Við höfum sýnt það undanfarin ár, að við höf­um mætt versnandi viðskiptakjörum með raun­sæi og raunhæfum ráðstöfunum. Nú verðum við að sýna að við kunnum að nýta betri daga allri þjóðinni til heilla. — Þökk fyrir áheyrnina.