28.04.1977
Sameinað þing: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3938 í B-deild Alþingistíðinda. (2911)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Nú er vor í lofti. Í ríki náttúrunnar er gróandi. Birta vex, landið verður hlýlegra. En ef við spyrjum sjálfa okkur, íslendingar, hvort vorblær leiki um þjóðlífið, hvort þar sé heil­brigður gróandi, getum við þá svarað játandi? Nei, það getum við því miður ekki. Enginn skynsamur og ábyrgur maður getur sagt að nú sé um gróandi þjóðlíf að ræða á Íslandi. Í ís­lensku þjóðfélagi er haust, og kaldur vetur kann að vera fram undan.

Hvað hefur verið að gerast undanfarin ár á Íslandi, að ástand mála skuli vera þannig? Til þess að geta haft skynsamlega skoðun á þessu verður að líta nokkur ár aftur í tímann. Í 12 ár, eða frá árinu 1959 til ársins 1971, sat hér að völdum samsteypustjórn sömu flokka, Alþ. og Sjálfstfl., viðreisnarstjórnin svonefnda. Engin stjórn hafði áður setið jafnlengi. Vel má vera að frá stjórnmála- og áróðurssjónarmiði einu saman hafi þetta verið of langt stjórnmálatímabil. En hlutlaus dómur sögunnar verður áreiðan­lega sá, að þetta tímabil hafi stjórnfesta og ábyrgðartilfinning mótað störf ríkisvaldsins. Áratugurinn 1960–1970 varð, þegar á allt er litið, tímabil mestu efnahagsframfara og lífskjara­bóta sem þjóðin hafði lifað. Stórkostlegar um­bætur áttu sér stað í menntamálum og marg­víslegar framfarir í félagsmálum, jafnframt því sem grundvöllur var lagður að þeim umbótum sem gerðar voru af nýrri ríkisstj. í byrjun þessa áratugs. Framfarirnar byggðust á því, að þá hafði ríkisstj. stefnu sem hún stóð saman um — stóð drengilega og af heilum hug saman um. Við því er ekkert að segja að um stefnu ríkis­stj. sé deilt. Það er eðli stjórnmála og lýðræðis að uppi sé ágreiningur. En það er eðli góðs og styrks stjórnarfars að stjórnvöld séu samhent, þeim megi treysta, þau séu ráðvönd og ráðdeildarsöm, þoli ekki sukk, hvað þá svik, að þau geri hiklaust og ákveðið það sem þau telja rétt og landi og lýð fyrir bestu.

En það er eðli lýðræðis að ríkisstj. falli. Viðreisnarstjórnin missti meiri hl. sinn í kosningum 1971. Efnahagserfiðleikarnir, sem hvarf síldarinnar af Íslandsmiðum höfðu haft í för með sér undir lok sjöunda áratugsins, höfðu þá verið yfirunnir með markvissum aðgerðum sem eflaust hafa ekki reynst vinsælar í bráð. Hvort tveggja var, að afli var aftur farinn að vaxa, og þó einkum að verðhækkun á íslenskum afurðum erlendis var meiri en nokkru sinni fyrr. Eitt mesta góðæri Íslandssögunnar hófst um það bil samtímis og ný ríkisstj. tók við völdum, vinstri stjórnin svonefnda. En jafnframt var stjórnarfar allt með öðrum hætti en áður hafði verið. Sjálfsagt er að láta þess getið, að ýmsar sviptingar urðu í viðskiptum við aðrar þjóðir og náttúruhamfarir innanlands sem hlutu að valda erfiðleikum. En einmitt vegna þessa var þeim mun meiri nauðsyn á fastmótaðri stefnu og styrkri stjórn. Hins vegar reyndist hin nýja ríkisstj. enga heildarstefnu hafa í efnahagsmálum. Nú var farið að láta reka á reiðanum. Stjórn landsins var í raun og veru ekki í höndum ríkisstj., hvað þá samhentrar ríkisstj. Hún var í höndum þriggja ósamstæðra flokka. Segja mætti jafnvel að stjórn landsins hafi verið í höndum sjö ráðh. sem oft og einatt virtust engin sam­ráð hafa, heldur fór hver sínu fram og stefndi stundum hver í sína átt.

Þetta gat gengið stórslysalaust meðan útflutningstekjur og þjóðartekjur jukust hröðum skrefum. En öll góðæri eiga sér enda. Þegar í stað eftir að verðlagsþróunin erlendis snerist við og varð óhagstæð reyndist vinstri stjórnin standa ráðþrota gagnvart vandanum. Afleiðingin af stefnuleysi hennar varð Evrópumet í verðbólgu, yfir 50% verðbólga á síðasta starfsári hennar. Afleiðing stjórnleysisins varð ekki aðeins stór­fellt tjón sem langt er frá að enn hafi tekist að bæta. Íslendingar urðu jafnframt að viðundri í augum umheimsins. Og það var ekki aðeins á sviði efnahagsmála sem mistök ríkisstj. urðu alvarleg. Eins og oft vill verða á velmegunar- og uppgangstímum, þegar ekki er fast haldið um stjórnvölinn, fór að bera á almennri upplausn í þjóðfélaginu. Vaxandi verðbólga ýtti undir aukið brask. Fjármálaspilling fór vaxandi í kjölfar góðæris, stóraukinnar fjárfestingar og nýrra gróðamöguleika. Óráðsía og sukk settu í vaxandi mæli svip á þjóðlífið, bæði hjá opin­berum aðilum, fyrirtækjum og einstaklingum. Af öllum þessum ástæðum tókst ríkisstj. ekki að starfa út eitt kjörtímabil. Hún sundraðist eftir þriggja ára starf og missti þá meiri hluta sinn.

Þeirri ríkisstj., sem við tók eftir kosningar 1974, núv. ríkisstj., hefur ekki tekist að ná tökum á stjórn efnahagsmálanna og því miður ekki heldur að stöðva þá upplausn í þjóðlífinu sem varð á fyrri hluta þessa áratugs. Það vantar enn ekki aðeins styrka stjórn í efnahagsmálum, heldur ekki síður föst tök á fjölmörgu öðru sem miður fer í þjóðfélaginu. Óráðsía er enn of mikil. Fjárfesting er stjórnlaus og í ótrúlega mörgum tilvikum óarðbær. Fjárglæfrar viðgangast án þess að fyrir þá sé tekið og sekum refsað. Skattsvik hafa aldrei blómgast með viðlíka hætti og undanfarin ár.

Ýmsum þykir þetta eflaust þungur dómur, dökk lýsing. En allt er þetta satt. Og þess vegna er nauðsynlegt að spyrja: Er ekki kominn tími til þess að þjóðin opni augun til fulls?

Þeir eru sem betur fer margir sem gera sér þess fulla grein, að ekkert er ofmælt í því sem að framan er sagt. En allir íslendingar þurfa að vita og skilja hið rétta um ástand efnahags­mála og þjóðmála yfirleitt í landi sínu.

Auðvitað hefur sitthvað gleðilegt og gott gerst á undanförnum árum. Mikilsverðasti atburðurinn er tvímælalaust stækkun fiskveiðilögsögunn­ar í 200 mílur. Það getur reynst okkur ómetan­legt. En það er í ríkara mæli undir sjálfum okkur komið, hvort svo verður, en flestir virð­ast gera sér grein fyrir. Gagnið af stækkun fisk­veiðilögsögunnar er m. ö. o. fyrst og fremst háð því, hvort við reynumst kunna að hagnýta okkur fiskstofnana við landið með skynsamlegum hætti. Reynsla undanfarinna ára bendir því miður ekki til að svo sé. Og enn bólar lítt á ráðstöfunum af hálfu stjórnvalda til þess að stuðla að því.

Í stórmerkri skýrslu um þróun sjávarútvegs, sem Rannsóknaráð ríkisins gaf út fyrir hálfu öðru ári og samin var af hinum færustu sérfræðingum, segir m. a. að með réttri nýtingu geti þorskstofninn gefið af sér allt að 500 þús. tonn á ári, en aflinn hafði undanfarin tvö ár aðeins numið um 375 þús. tonna. Sérfræðingarnir telja afkastagetu fiskiskipaflotans vera orðna um eina millj. tonna á ári og sé það mun meira en svari til afkastagetu botnfiskstofna á Íslands­miðum og rúmlega tvöfalt meira en svari til hlutdeildar íslendinga, eins og hún hafi verið á undanförnum árum. Þeir töldu afkastagetu fiskvinnslustöðva og mun meiri en svari til núverandi afla. Þeir bentu á að á árunum 1962–1974 hafi verðmæti fiskiskipaflotans aukist um 133%, einkum á þessum áratug, en aflaverðmætið hins vegar aðeins um 29.5%. Þeir áætluðu um­framrekstrarkostnað vegna of stórs botnfiskveiði­flota allt að 7 milljörðum kr. En mikilvægasta niðurstaða sérfræðinganna var þessi, orðrétt: „Verði ekki breyting á stefnu í sjávarútvegs­málum verður fjárhagslegur afrakstur botnfisk­stofnanna um 1980 innan við 50% af varanlegu hámarki, og afkoma sjávarútvegsins fer stöðugt versnandi.“

Megintillaga sérfræðinganna er sú, að tekin verði upp það sem þeir kalla virk stjórnun veiði­álags, en með því er átt við samræmda alls­herjarstjórn á sókn í fiskstofnana. En hver hefur orðið þess var að stjórnvöld hafi boðað nýja stefnu í þá átt? Nei, hér hefur því miður verið sofið á verðinum í mörg ár og er enn, og er hér þó um mikilvægasta hagsmunamál íslendinga að ræða.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um óstjórnina í málefnum landbúnaðarins. Haldið er áfram að styrkja stóraukna ræktun og festa gífurlegt fé í landbúnaðarframkvæmdum, þótt um veru­lega offramleiðslu sé að ræða og skattgreiðendur þurfi nú í ár að greiða útlendingum með út­flutningsbótum hátt á þriðja milljarð kr. fyrir að kaupa íslenskar landbúnaðarvörur. Og þetta gerist samtímis því að íslenskur iðnaður er van­ræktur og fjárskorti borið við og verslunin er látin búa við úrelt eftirlit sem gerir verslunina dýrari og óhagkvæmari en vera þyrfti.

Íslendingar fjárfesta hlutfallslega miklu meira af þjóðarframleiðslu sinni en nokkur önnur nálæg þjóð. Þegar hefur verið minnt á að um of­fjárfestingu hefur verið að ræða, bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. Mikið af annarri fjárfestingu hefur og verið misráðið og mun engum arði skila, a. m. k. ekki í bráð. Skýrasta dæmið um þetta eru framkvæmdirnar við Kröflu sem ráðist var í án þess að nokkur alvarleg fjár­hagsathugun hefði verið gerð á afkomuskilyrðum fyrirtækisins. Nú er gert ráð fyrir að hægt verði að hefja raforkuframleiðslu þar í sumar. Þá verður stofnkostnaðurinn væntanlega orðinn um 10 milljarða kr., en var fyrir tveim árum áætlaður 1.6 milljarðar. Söluverð þeirrar orku, sem hægt er að selja í bráð, er hins vegar á bilinu 100–200 millj. kr. á ári. Enginn ber í raun og veru á móti því, að mörg hundruð millj. kr. tap verði árlega á rekstri þessa fyrirtækis um nokkur ókomin ár. Hver mun greiða þetta tap? Auðvitað verður þjóðin í heild að greiða það í einhverju formi.

Mörg fleiri dæmi um óarðbæra og ábyrgðarlausa fjárfestingu mætti nefna, svo sem Þörungavinnsluna við Breiðafjörð. Þar hafa orðið mistök sem stjórnvöld hefðu átt að geta séð fyrir. A. m. k. hefðu þau fyrir löngu átt að vera búin að stöðva þann óheillarekstur. Enn gerist samt hið sama. Eins og við Kröflu ráða ímyndaðir stjórnmálahagsmunir ferðinni. Þeir eru teknir fram yfir þjóðarhagsmuni. Síðan verður með einhverjum hætti að læðast aftan að al­almenningi og láta hann borga. Þá verður kostnaðurinn við mistökin kallaður nauðsyn til þess að bjarga þjóðarhag.

Þessi algera óstjórn á fjárfestingarmálum á undanförnum árum hefur auðvitað rýrt lífskjör almennings. Sú króna, sem notuð er til fjárfestingar, verður ekki líka notuð til neyslu. Það getur verið réttmætt að fresta neyslu vegna skynsamlegrar og arðbærrar fjárfestingar eða þeirrar sem veitir nauðsynlega atvinnu. En það er hörmulegt að horfa á eftir milljörðum kr. í ranga fjárfestingu sem ekki aðeins rýrir lífs­kjör meðan á henni stendur, heldur skerðir einnig skilyrði til þess að bæta þau. Enginn vafi er á því að stjórnleysi í fjárfestingarmálum og sóun á því sviði er ein meginorsök þeirrar lífskjaraskerðingar sem hér hefur átt sér stað á undanförnum árum.

En stjórnleysið í fjárfestingarmálunum hefur ekki aðeins valdið versnandi lífskjörum, heldur er það einnig ein meginorsök hins gífurlega viðskiptahalla við útlönd sem numið hefur 69 milljörðum kr. s. l. 5 ár, miðað við gengi ársins 1976. Fjárfestingin og viðskiptahallinn eru síðan meginskýring þeirrar ógnvekjandi skulda­söfnunar sem efnt hefur verið til. Erlendar skuldir íslendinga nema nú um 96 milljörðum kr. eða um 430 þús. kr. á hvert mannsbarn. Um mörg ókomin ár þarf að nota næstum fimmtu hverja krónu, sem við fáum fyrir útflutning okkar, til þess að greiða afborganir og vexti af erlendum skuldum. Þetta eru reikningar fyrir mistök undanfarinna ára sem fólki framtíðarinnar er ætlað að greiða. En eitt er víst. Og það er að þessir reikningar verða ekki greiddir með glöðu geði þegar mönnum hefur skilist hvernig til þeirra hefur verið stofnað. Og ekki mun það verða til þess að minnka sárindin yfir því að þurfa að greiða þessa reikninga að verða að horfa á misréttið í þjóðfélaginu. Hvað á fólk lengi að þola það, að næstum allur tekjuskattur, sem ríkið innheimtir, sé tekinn af launþegum meðan margir atvinnurekendur greiða sárálítinn eða alls engan tekjuskatt? Hversu lengi á almenningur að horfa upp á það, að fjárglæfra­menn leiki lausum hala og haldi áfram fjár­plógsstarfsemi án þess að þeir séu látnir standa í skilum og komið yfir þá lögum? Hversu lengi á að bíða eftir því, að skuldakóngar skili ógreidd­um söluskatti eins og öðrum landsmönnum er skylt að gera? Hversu lengi á að viðgangast að það dragist árum saman jafnvel áratug, að dæma í fjársvikamálum? Þannig mætti lengi halda áfram.

Mikil mistök hafa verið gerð á sviði efnahagsmála. En siðferðisvitundin hefur einnig dofnað. Augu þjóðarinnar þurfa að opnast fyrir því, að tengsl eru á milli þessa tvenns. Það verð­ur ekki unnt að bæta úr efnahagsmistökum nema með nýju hugarfari, nema í nýju þjóðfélagi þar sem óráðsía og fjármálamisferli verða gerð útlæg, þar sem allir verða jafnir fyrir lögunum, þar sem einstaklingurinn getur borið traust til opinberra aðila, en hefur ekki réttmæta ástæðu til að vantreysta þeim.

Ég hef lagt þunga áherslu á að alvarleg mis­tök hafi verið gerð í efnahagsmálum á undanförnum árum og traust almennings á ríkisvaldinu hafi farið rýrnandi. Þetta er gagnrýni — hörð gagnrýni. En þeir, sem fyrir henni verða og á hana hlusta, eiga að sjálfsögðu rétt á að spyrja: Hvað telur gagnrýnandinn þá til ráða?

Ég skal ljúka þessum orðum mínum með því að benda á sjö grundvallaratriði sem ég tel skipta höfuðmáli í sambandi við lausn þess vanda sem nú steðjar að þjóðinni:

1. Móta verður samræmda heildarstefnu í efnahagsmálum og fylgja henni fast fram. Tak­marka verður fjárfestingu og miða hana við hagkvæma nýtingu fjár og sköpun afkastamikilla atvinnutækja. Hið opinbera verður að spara og stuðla að hagkvæmari vinnubrögðum í atvinnurekstri. Taka verður upp markvissa stjórn á sókn í fiskstofnana. Stefna verður að afnámi offramleiðlu í landbúnaði. Gera verður aðstöðu iðnaðar fyrir innlendan markað hliðstæða við aðstöðu sjávarútvegs og landbúnaðar. Lækka verður verslunarkostnað, m. a. með því að taka upp skynsamlegra og virkara eftirlit með verslunarháttum en nú á sér stað.

2. Ríkið verður að minnka umsvif sín á ýmsum sviðum öðrum en þeim sem lúta að tryggingamálum, heilsugæslu og skóla- og menntamálum, og mætti þó eflaust spara ýmsan rekstrar­kostnað á þessum sviðum án þess að þjónusta minnki. En staðreynd er að ríkiskerfið er á sumum sviðum orðið of umsvifamikið, það er orðið of dýrt. Mikilvægur þáttur nýrrar stefnu ætti að vera að ráða hér bót á.

3. Gæta þarf ítrustu aðhaldssemi í fjármálum ríkisins og útlánum bankanna. Meðan verðbólga er jafnmikil og nú á sér stað þarf með verð­tryggingarráðstöfunum að sjá svo um að spari­fjáreigendur hætti að tapa á því að spara og skuldarar hætti að græða á því að fá lán.

4. Endurskoða þarf almannatryggingakerfi og heilsugæslukerfi landsmanna frá grunni í því skyni að þeir, sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu, hljóti af því kjarabót og það leiði til réttláts launajafnaðar, jafnframt því sem kerfið allt verði gert hagkvæmara.

5. Gera þarf öflugar ráðstafanir til þess að skattbyrðin dreifist réttlátlega og komið verði í veg fyrir skattsvik. Afnám tekjuskatts af almennum launatekjum á að færa launþegum kjarabót sem gerir þeim ásamt auknum almanna­tryggingum og bættri heilsugæslu kleift að sætta sig við hóflega hækkun launa að krónutölu.

6. Útrýma verður hvers konar fjármálamis­ferli og láta eitt yfir alla ganga þegar um af­brot er að ræða þannig að fullt traust skapist milli einstaklingsins og ríkisvaldsins.

7. Koma þarf á skipulegri samvinnu ríkisvalds, launþegasamtaka og samtaka vinnuveitenda um að móta tekjustefnu, sem færir launþegum stöðugar og öruggar kjarabætur, og fjárfestingar­stefnu, sem tryggir stöðuga atvinnu og aukin afköst þjóðarbúsins.

Ég geri mér ljóst að hér er um víðtæka stefnumótun að ræða. En það er einmitt slík víðtæk stefnumótun sem skort hefur mörg undanfarin ár. Þess vegna hefur allt farið úr böndunum. Þess vegna er vandinn jafnvíðtækur og raun ber vitni.

En síðustu orð mín skulu vera þau, að enginn árangur getur náðst í baráttunni við þann vanda, sem við er að etja, nema með nýju hugarfari. Ábyrgðartilfinning og réttsýni þurfa að ráða ferðinni. Framfarahugur og festa þurfa að vera grundvöllur stefnunnar og hún mótast af vilja til þess að rétta hlut þeirra, sem hafa lægstar tekjur og örðugasta aðstöðu, og útrýma misrétti og ranglæti. Með slíku hugarfari einu vinna íslendingar sigur í þeirri baráttu fyrir nýju og betra þjóðfélagi á Íslandi sem nú er meiri nauð­syn á að heyja en nokkru sinni fyrr.