28.04.1977
Sameinað þing: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3951 í B-deild Alþingistíðinda. (2914)

Umræður utan dagskrár

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns, vil ég geta þess, að það er á al­gerum misskilningi byggð að fjárl. fyrir árið 1975 hafi verið samin af fyrrv. ríkisstj. eða vinstri stjórninni. Ég veit að ég mun geta fengið um það sannanir frá hagsýslustjóra, að ég tók skýrt fram að ég hefði engin afskipti af fjár­lagagerð fyrir árið 1975 fyrr en ég vissi hver yrði fjmrh. og við það hélt ég. Hv. þm. hefur ekki kynn sér þetta nóg.

Í öðru lagi vil ég minna hann á það, að vinstri stjórnin gerði tilraun til launajöfnunar þegar hún flutti frv. sitt um að engin fengi meiri hækkun en 20%. Það verkaði þannig svo á þennan hv. þm. að hann flutti 5 klukkutíma ræðu.

Út af því, sem hv. 2. þm. Austurl. sagði hér í sambandi við Grundartangaverksmiðjuna, en nú virðist vera orðin einhver sérstök trúarjátning þeirra að snúast gegn því máli, verð ég að segja: Öðruvísi mér áður brá. En ég vil minna á það, að það fór saman orkufrekur iðnaður — og var þá stefnt á Grundartanga — og fullnaðarvirkjun Sigöldu. Þetta vona ég að hv. 2. þm. Austurl. muni þó hann hafi gleymt því áðan. Ég vil líka minna á það, að það var stefnumörkun hjá fyrrv. ríkisstj., sem Framsfl. hafði forustu um, að íslendingar ættu meiri hluta í fyrirtækjum sem erlendir menn tækju þátt í með þeim. Nú mátti heyra á hv. 2. þm. Austurl., og brá mér þar nokkuð við, að frá þessari trú er hann genginn eða skoðun, þar sem hann sá ekkert nema svart í sambandi við þann væntanlega rekstur sem á Grundartanga ætti að rísa. Að spá slíku er eins og að spá lambaláti á veturnóttum.

Það var ekki Framsfl. sem bar fram till. í ríkisstj. á dögum vinstri stjórnarinnar um viðræður við Alusuisse, m. a. um að stækka verksmiðjuna. Það kom frá þeim ráðh. sem fór með iðnaðarmálin, eins og eðlilegt var.

Þegar hv. 2. þm. Austurl. fór að tala um landbúnaðarpólitík, þá heyrði ég nú nýtt hljóð úr því horni, en að þeim þáttum skal ég víkja síðar og heim missögnum sem þar áttu sér stað.

Það mátti heyra — og er það ekki í fyrsta sinn — að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason grætur þá daga þegar hann varð að hætta ráðherradómi, og það voru engin efnahagsvandamál á þeim árum þegar hann sat í ríkisstj. En man nú enginn árin 1966–1970? Þá var líka við efnahagsvanda að etja. Og ég vil segja þessum þm. það og þeim öðrum: Á áratugnum 1960–1970 var þó að heita mátti ekki um neina innflutta verðbólgu að ræða, en á árunum 1973 og 1974 var hún annað árið á milli 20–30% af dýrtíðinni og hitt árið milli 30 og 40%. Það var vegna hinnar stórstígu verðhækkunar á olíu sem hafði víðtæk áhrif svo sem kunnugt er. Þetta man ekki hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason.

Og svo voru menntamálin, þau voru í lagi, þótt flest frv. kæmu fram á síðasta þinginu, sem hann sat sem ráðh., eftir 15 ár, og væru óafgreidd þegar hann fór úr ríkisstj.

Hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason talar um siðferðismistök og annað því um líkt. Ég held að þetta hafi verið eitt af því sem kalla má siðferðis­mistök, túlkun hans á afrekum sínum og annarra manna framferði í ríkisstj.

Þá vék hv. þm. að landbúnaðarmálum og að því skal ég koma síðar, og svo kom hann að því — og virtist þá vera mjög hnugginn — að vinstri stjórnin hefði splundrast. Þar talaði sá er vissi og að verki var þegar það átti sér stað.

Í framhaldi af þessu vil ég víkja sérstaklega að efnahagsmálum landbúnaðarins og fleiri þáttum er hann varða.

Að sjálfsögðu hefur landbúnaðurinn eins og aðrir atvinnuvegir þjóðarinnar orðið fyrir áföllum á síðustu tveimur árum. Verðbólgan hefur sagt til sín þar. Áburðarverð hefur nær þrefaldast á þremur árum og miklar hækkanir hafa einnig orðið á öðrum rekstrarvörum og þjónustu.

Íslenskur landbúnaður mun aldrei hafa haft betri afkomu efnahagslega en á árunum 1972–1974. En eftir því sem tölur segja þar um, hefur afkoma bændastéttarinnar versnað álíka og annarra stétta þjóðfélagsins á síðustu tveimur árum þegar almennur samanburður er gerður. En auk hinna almennu efnahagsáhrifa á kjör fólksins mun gæta í kjörum bænda áhrifa óþurrkanna s. l. tvö sumur á mestu framleiðslusvæðum landbúnaðarins á Suður- og Vesturlandi. Þar er um að ræða tjón sem nemur hundruðum millj. kr. í tapi á framleiðslu og auknum fóðurbætiskaupum.

Til þess að létta undir með bændum á þessum svæðum hefur verið unnið að því að útvega fé til þess að veita úr Bjargráðasjóði lán til fóðurbætiskaupa vegna óþurrkanna og er þeim málum nú svo komið, að segja má að fjármagn hafi verið útvegað til sjóðsins til þessara útlána. Ekki er hægt að halda þeim útlánakjörum á þessum lánum sem Bjargráðasjóður hefur áður haft. Til þess er lánsfé sjóðsins nú of dýrt og lánstími of stuttur. Munu lán þessi þó forða bændum á óþurrkasvæðinu frá því að bíða enn þá meira tjón í búrekstri sínum, en bæta að sjálfsögðu ekki tjón þeirra að fullu er fyrir því urðu, þar sem lánsfé getur aldrei bætt afurða­tjón.

Nokkuð hefur borið á því á þessum vetri, að dregið hafi úr sölu á landbúnaðarafurðum á inn­lendum markaði, sérstaklega á dilkakjöti og smjöri. Ástæðan fyrir þessu er m. a. sú, að niður­greiðslur hafa haldist óbreyttar að krónutölu um nokkurt skeið og lækka því í hlutfalli við verðlag. Jafnframt er kaupgeta fólksins minni. En hvort tveggja hefur orðið til þess að draga úr kaupum fólks á þessum afurðum. Þetta mál er nú í athugun með úrbætur í huga.

Lög hafa verið sett um mat á ull og gærum. Í ullar- og gæruiðnaði er mestur vaxtarbroddur íslensks iðnaðar. Það er hægt að gera sér vonir um að með auknum gæðum á gærum og ull sé hægt að auka þau verðmæti, sem sauðkindin skilar, og jafnframt þurfi ekki í sama mæli og áður að treysta á kjötverðið svo að þeim verðmætum verði náð.

Ullar- og gæruframleiðslan er nú orðin þýðingarmikill grundvöllur atvinnuuppbyggingar í gjaldeyrisöflun fyrir þjóðarbúið. Því má ekki gleyma að útflutningur landbúnaðarvara skapar þjóðinni dýrmætan gjaldeyri, svo að andvirði gjaldeyris á útfluttum landbúnaðarvörum á s. l. ári hefur skapað ríkissjóði á annan milljarð kr. í beinum tekjum umfram þær útflutningsbætur sem ríkissjóður greiddi. Auk þess má minna á gjaldeyrissparnað og að landbúnaðurinn veitir at­vinnu til annarra en bænda.

Á s. l. árum hefur orðið veruleg aukning á framkvæmdum í sveitum landsins, ólíkt því sem Lúðvík Jósepsson vildi halda fram, og einnig í vinnslustöðvum landbúnaðarins, þrátt fyrir þá fjárhagsörðugleika sem bændur hafa átt við að stríða.

Nokkrir erfiðleikar hafa verið hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins að geta sinnt eftirspurn eftir lánsfé, en það tókst þó sæmilega á s. l. ári, og á þessu ári geri ég ráð fyrir að það muni takast að fullu. Þeir erfiðleikar eru skiljanlegir þegar það er haft í huga, að verðgildi útlána frá Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur nærri því þrefaldast frá 1970 til ársins 1975. Þá er einnig frá því að segja, að staða Stofnlánadeild­arinnar hefur ekki batnað, svo sem gert var ráð fyrir í lögunum frá 1973, þó að sú lagasetning hafi nær tvöfaldað fasta tekjustofna deildar­innar.

Unnið er að endurskoðun laga um Stofnlánadeild landbúnaðarins með það fyrir augum að deildinni verði séð fyrir fjármagni svo að hún geti sinnt hlutverki sínu. Ríkisstj. mun halda áfram að skoða þetta mál og leggja sérstaka áherslu á að til frumbýlinga verði horft. Þar sem verið er að vinna að endurskoðun á lögum um aðra stofnlánasjóði þykir eðlilegt að fram­lagning frv. til breyt. á lögum þessum fylgist að, og mun það verða gert á næsta hausti.

Samið hefur verið frv. um fóðurframleiðslu í landinu. Stefnt er að aukinni innlendri fóðuröflun með því að gera heyverkun öruggari og byggja upp grænfóðurverksmiðjur. Einnig er unnið að undirbúningi fyrir stækkun Áburðarverksmiðjunnar.

Skipuð hefur verið n. til að gera till. um nýtingu á sláturúrgangi, en þar eru talin fara forgörðum allveruleg verðmæti.

Á s. l. ári og á þessu ári hafa orðið miklar umr. vegna fjárhagsstöðu viðskiptafyrirtækja, einkum þeirra sem sláturleyfi hafa og möguleika á því að bændur fái sem mesta útborgun á afurðum sínum við innlegg, en í því dæmi skipta rekstrar- og afurðalán til landbúnaðarins miklu máli.

Á aðalfundi Kaupfélags Borgfirðinga 1977 kom fram í ársskýrslu kaupfélagsstjórans fyrir árið 1976 að skuldir bænda við félagið jukust á s. l. ári að krónutölu um 1½% umfram aukningu inneigna. Á árinu 1975 jukust skuldirnar hins vegar um 42.5% umfram aukningu inneigna. Þarna er um jákvæða þróun að ræða þar sem dregið hefur úr skuldasöfnun í hlutfalli við aukningu á inneignum um 42%. Hjá þessu kaupfélagi voru bændum greidd 82.5% verðmæta sauðfjárafurða á s. l. hausti við innlegg. Stjórn félagsins hefur ákveðið að við útborgun uppgjörslána í maí n. k. verði greitt fullt haustgrundvallarverð fyrir sauðfjárafurðirnar. Það ber að gera, til þess eru uppgjörslánin veitt.

Mér er það að fullu ljóst, að erfiðleikar eru í landbúnaði, svo sem opinberar umr. hafa borið með sér. Ég vil þó benda á þetta dæmi frá Kaup­félagi Borgfirðinga til áminnigar um að þeir, sem gera miklar kröfur til stjórnvalda um úr­bætur, þurfa einnig að gera kröfur til sjálfra sín um stjórn sinna fyrirtækja, ef sigrast skal erfiðleikunum, eins og Kaupfélag Borgfirðinga hefur tekist.

Þó að þeir málaflokkar, sem ég hef nefnt hér að framan, sést þýðingarmiklir fyrir landbúnaðinn skiptir þó höfuðmáli hvernig til tekst með sölu afurða innanlands og utan. Þar eru óþrjótandi verkefni fram undan sem hingað til, en að því máli verður að vinna af alhug og dugnaði.

Verulegar framkvæmdir hafa verið í hafnamálum á síðustu árum og er enn þá stefnt að því að draga ekki úr þeim framkvæmdahraða sem verið hefur.

Um vegamálin er það að segja, að Vegasjóður hefur orðið fyrir verulegu áfalli þar sem bensín­skatturinn hefur ekki reynst honum svo drjúgur nú sem áður var, sökum þess að dregið hefur úr bensínsölu frá því sem áætlað var. Auk þess er það, að áður var skatturinn 50% af verði hvers bensínlítra, en er nú aðeins 20%. Stafar þetta m. a. af þeim hækkunum sem orðið hafa á bensíni í innkaupum og fleiru. Reynt hefur verið að bæta úr þessu með margvíslegum hætti og hefur það tekist allsæmilega. Hins vegar vil ég vekja athygli á því, að með vegáætlun þeirri, sem samþykkt var á þessu Alþ., var mörkuð stefna um að vegaviðhaldi skyldi betur sinnt en áður. Nýbyggingum var hins vegar ekki séð fyrir sem skyldi. Þess vegna var við afgreiðslu vegáætlunar gefin út sérstök yfirlýsing af hálfu ríkisstj. um að úr yrði bætt á komandi hausti um fjárveitingar til vegaframkvæmda fyrir næsta ár.

Stórframkvæmdir eins og Keflavíkurvegurinn, hraðbrautin austur og einnig Skeiðarársandsfram­kvæmdin voru á sínum tíma skilin frá öðrum vegaframkvæmdum og fjármögnuð sérstaklega. Nauðsyn bæri til að halda þessu áfram. Borgarfjarðarbrúin hefur ekki notið þess arna. Mark­mið okkar á að vera það, að á hverju ári sé unnið að stóru verkefni í vegagerð sem sé fjár­magnað sérstaklega. Með þeim hætti er einnig hægt að sinna af verulegum krafti hinni almennu vegagerð, svo sem brýna nauðsyn ber til.

Um flugmálin er það að segja, að úttekt hefur verið gerð á flugvöllum og ástandi þeirra hér á landi og mun sú skýrsla, sem fyrir liggur þar um, verða lögð til grundvallar fjárveitingum til flugvalla á næstu árum, enda þótt mér sé ljóst að hraðinn verður minni en þar er gert ráð fyrir.

Í skipulagi og fjármálum Pósts og Landssímans hefur verið gert átak á síðustu árum sem á eftir að marka veruleg spor í framfararátt í stofnuninni og hraða framkvæmdum hennar. Jafnframt hefur verið mörkuð stefna um að jafna afnotagjöld Landssímans innan númera­svæðis og einnig við opinberar stjórnsýslustofnanir. Bygging jarðstöðvar er einn merkasti áfangi í fjarskiptatengslum okkar við aðrar þjóðir og einn af lokaþáttum í sjálfstæðisbaráttu þessarar þjóðar. Yfirráð yfir fjarskiptum eru stórt atriði fyrir öryggi og sjálfstæði hverrar þjóðar.

Herra forseti. Í ræðum stjórnarandstöðunnar hefur það komið fram sem fyrr, að ríkisstj. ætti að segja af sér, hún ráði ekki við málefni þjóðarinnar. Ég spyr: Á ríkisstj. að segja af sér, — ríkisstj. sem hefur tekist að koma íslenskri fiskveiðilögsögu út í 200 sjómílur í sátt við aðrar þjóðir, ríkisstj. sem hefur gert meira í dóms- og réttarfarsmálum en nokkur önnur ríkisstj. um langt árabil, — ríkisstj. sem hefur komið í veg fyrir atvinnuleysi á sama tíma og fjölmennari og ríkari þjóðir í námunda við okkur búa við verulegt atvinnuleysi, — ríkisstj. sem hefur snúið vörn í sókn í gjaldeyrismálum, — ríkisstj. sem hefur tekist að draga úr verðbólg­unni, þó að henni hafi ekki tekist að ná því fram sem hún hefur ætlað sér í þeim efnum, en að því er stefnt, — ríkisstj. sem hefur gert stórátak í hitaveituframkvæmdum, — ríkisstj. sem hefur haldið fast við þróttmikla byggða­stefnu sem nú er farin að bera verulegan árangur, — ríkisstj. sem hefur tekist að koma í veg fyrir að áföll þau, sem landbúnaðurinn hefur orðið fyrir, hafi orðið honum að tilfinnanlegu tjóni, — ríkisstj. sem hefur stutt hann í aukinni uppbyggingu? Á ríkisstj. að segja af sér af því að henni hefur tekist þrátt fyrir fjárhagslega erfiðleika að halda áfram verulegum framkvæmdum í samgöngu-, mennta- og heilbrigðismálum?

Eins og vitað er, er ríkisstj. reiðubúin til að leggja sitt fram til lausnar í kjaramálunum nú og hefur þegar unnið mikið starf sem á eftir að sýna sig að mun bera árangur í kjarasamningunum. Þar mun ríkisstj. fyrst og fremst stefna að því að þeir, sem verst eru settir í launastiganum, njóti þess sem mest verður.

Ríkisstj., sem hefur haldið á málum eins og þessi ríkisstj, hefur gert á mörgum sviðum, hefur enga ástæðu til að segja af sér. Henni er þó ljóst að margt er ógert og mætti betur fara. Hún er reiðubúin að takast á við þann vanda, en hún treystir jafnframt þjóðinni til að gera sér grein fyrir að einungis kjarkur, bjartsýni og trú á möguleika dugar þjóðinni til að sigrast á vandamálum sínum.

Ríkisstj. veit að íslenska þjóðin býr yfir þessum eiginleikum. Þess vegna mun hún leggja sig fram um að duga þjóð sinni til farsællar lausnar í málefnum hennar. — Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.