29.04.1977
Sameinað þing: 83. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3973 í B-deild Alþingistíðinda. (2948)

59. mál, málefni þroskaheftra

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Já, það er rétt, ég viðhafði hér nokkuð þung orð um þann mis­skilning sem hér hafði komið fram. Það má kannske segja að það megi taka aftur það, að þarna hafi verið um blekkingu að ræða, a. m. k. ákaflega frjálslega túlkun á þessum atriðum. Það er kannske það réttasta, því að auðvitað vissu þessir menn miklu betur.

Varðandi heildarstjórn á þessum málum, þá hef ég gert grein fyrir hvað við er átt með því. Það þýðir aðeins, að í þessum málum verði komið á fót einum vissum, ábyrgum aðila í stjórnkerfinu, eins og er í okkar nágrannalöndum, þar sem þetta fólk, sem þarf á því að halda, getur leitað til þessa aðila sem hefur svo samráð við hin ýmsu rn. sem þessi mál snerta. Og þetta er ekkert bákn, síður en svo. Samstarfsnefndin, sem vinnur á vegum rn., hefur lengi verið til að sögn. En alltaf þegar maður hefur spurt nánar um þetta, þá hefur verið alveg að því komið að skipa hana, þá hefur hún alveg átt að fara að starfa, rétt verið að byrja á verkinu. Og ég er alls ekki viss um að hún sé byrjuð enn í dag. Betur að svo væri.

Ég vil taka það fram einnig, að Þroskahjálp hefur út frá því, sem hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir sagði hér áðan, einmitt bent á það að endurskoðun laga um fávitastofnanir hefur það í för með sér að miklu meiri hætta er auðvitað á einangrun þessa fólks heldur en með sérstakri heildarlöggjöf sem yrði frjálsleg, víð­sýn og rúm, enda segir í áliti hennar með leyfi hæstv. forseta, að „fram kominn umræðugrund­völlur er í mörgum atriðum of líkur gildandi lögum um fávitastofnanir og hefur ekki verið tekið tillit til þeirrar þróunar er orðið hefur í málefnum þroskaheftra undanfarna tvo áratugi“. Það munar nú ekkert um það! Aðaluppistaða till. er hæli fyrir vangefna og ýmis ákvæði um rekstur þeirra, þ. e. a. s. einangrunarstefnan í sinni verstu mynd að mínu viti. Því miður er þetta álit Þroskahjálpar. Ég hef ekki haft ástæðu til þess á þeim stutta tíma síðan ég sá þennan umræðugrundvöll að gera mér grein fyrir því, hvort þetta er rétt. Til viðbótar er sagt í þessu áliti: „Á félagslega þjónustu og möguleika þroskaheftra til að lifa eðlilegu lífi utan stofnana er lítið minnst.“ Þetta ætti þó að vera meginmarkmið tillagnanna.

Sem sagt, þau atriði, sem mestu máli skipta, þau atriði, sem verið hafa vanrækt, rúmast ekki innan endurskoðaðra laga um fávitastofnanir. Þetta er ósköp einfalt og ætti að vera hverjum manni skiljanlegt. Það er þess vegna ekki hægt með góðu móti að endurskoða þessi lög nema þá að gerbreyta þeim og vinna þau alveg upp frá grunni, og þá tel ég miklu heppilegra í alla staði að sest verði niður og samin ný heildar­löggjöf þar sem ekkert tillit er tekið til eldri laga sem hafa því miður ekki reynst í þeim atriðum, sem þau eru þó jákvæð, eins góð og skyldi.