04.11.1976
Sameinað þing: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

7. mál, ferðafrelsi

Flm. (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Ég vil, áður en ég geri grein fyrir þessari till., biðja menn að leiðrétta tvær prentvillur sem í þskj. eru. Sú fyrri er í seinustu setningu till. sjálfrar, hún er svona: „Vilji önnur ríki ekki fallast á þá skipan, heldur leggi hömlur á ferðir íslendinga, skulu þegnar þess ríkis“ stendur, en ætti að standa: „þeirra ríkja“. Og í grg. er villa, í annarri línu hennar á að vera komma, en ekki punktur: „Þær reglur, sem hér er gerð till. um, eru almennar í samskiptum íslendinga við önnur ríki og raunar í samskiptum flestra ríkja heims, þegar undan er skilin sú stefna að hafa frjálsræðið sem mest.“ Ég bið menn að leiðrétta þetta í þskj. sínum. Ég hirði ekki um að láta prenta þetta upp. Ég ætlast til sparnaðar þar sem hann getur að gagni komið.

Sú stefna, sem ég geri till. um í þessari þáltill., er í meginatriðum sú stefna sem íslensk stjórnarvöld hafa fylgt þ.e.a.s. að gagnkvæmni eigi að vera í samskiptum við önnur ríki að því er varðar ferðafrelsi. Það er sú almenna regla sem ríkisstj. Íslands fylgir. Hvort ríkisstj. hafi haft þá stefnu að hafa frumkvæði að því að ryðja úr vegi hindrunum á ferðafrelsi veit ég ekki, en ég hygg að hún hafi a.m.k. aldrei hikað við að fallast á aukið ferðafrelsi í samskiptum við önnur ríki.

Í þriðju setningu þáltill. segir svo: „Vilji önnur ríki ekki fallast á þá skipan, heldur leggi hömlur á ferðir íslendinga, skulu þegnar þeirra ríkja sæta sömu tálmunum ef þeir kjósa að ferðast til Íslands.“ Þarna hef ég í huga samskipti okkar við eitt ríki, þ.e. Bandaríki Norður-Ameríku. Eins og ástatt er núna þurfa íslendingar að fá leyfi frá bandarískum stjórnarvöldum til að ferðast til Bandaríkjanna, en bandarískir þegnar geta komið hingað án þess að sækja um nokkurt leyfi, og þarna er um að ræða mismunun sem ég tel ákaflega óeðlilega.

Þessi mismunun á sér æðilanga og heldur óskemmtilega sögu. Þegar bandaríski herinn kom hingað 1951 og þurfti á miklum fjölda fólks til starfa að halda, þá var sópað suður á Miðnesheiði þúsundum íslendinga og dregið úr framkvæmdum íslendinga sjálfra til þess að tryggja hernámsliðinu nægilega marga starfsmenn. Þessum breytingum fylgdi það, að þeir þrír stjórnmálaflokkar, sem kölluðu herinn inn í landið, Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., lögðu til starfsmenn af sinni hálfu til þess að njósna um skoðanir þeirra manna sem vildu fá vinnu á Keflavíkurflugvelli. Það voru hvorki meira né minna en starfsmenn þessara þriggja flokka sem tóku að sér að safna gögnum um það fólk, sem vildi fá vinnu á Keflavíkurflugvelli, og afhenda bandaríkjamönnum gögn um þetta fólk, ekki síst um stjórnmálaskoðanir þess. Auk þess höfðu Bandaríkin þann hátt á, að þau réðu til starfa fyrir sig einstaklinga sem höfðu sömu verkum að gegna, að safna upplýsingum um íslendinga. Ég man eftir því að Þjóðviljinn komst einu sinni yfir gögn af þessu tagi og gerði þau opinber og sannaði að þessi starfsemi væri framkvæmd.

Á þetta ráku sig ákaflega margir sem af ýmsum ástæðum þurftu að ferðast til Bandaríkjanna á þessum árum. Það kom í ljós að bandaríska sendiráðið vissi furðumikil deili á fólki sem vildi af ýmsum ástæðum ferðast til Bandaríkjanna. Það vissi deili á stjórnmálaskoðunum foreldra þeirra og forfeðra lengra aftur í tímann, á stjórnmálaskoðunum systkina þeirra, vina og kunningja, og það voru bornar upp við þessa umsækjendur hinar ólíklegustu spurningar af þessu tilefni, sem sýndu að bandaríska sendiráðið hafði komið sér upp eins konar spjaldskrá yfir landsmenn, æðimarga landsmenn, kannske alla landsmenn, ég veit ekki um það, og notaði þær til þess að vega og meta hverjum skyldi leyft að fara til Bandaríkjanna. Menn voru látnir útfylla æðilangar skýrslur ef þeir þyrftu að fara til Bandaríkjanna, og þar var spurt um einkahagi manna og gengið mjög langt í því.

Ég rak mig einu sinni á þetta sjálfur. Þannig var 1958, þegar hér var samstjórn Framsfl., Alþb. og Alþfl., þá var utanrrh. alþfl: maðurinn Guðmundur Í. Guðmundsson. Hann hafði þann hátt á í sambandi við Sameinuðu þjóðirnar, að hann ákvað sjálfur hvaða menn ætti að senda á þing Sameinuðu þjóðanna, og hafði ekki tekið upp þann hátt sem Emil Jónsson tók upp síðar, að þingflokkarnir ættu aðild að sendinefndinni til Sameinuðu þjóðanna. Og 1958 hafði þáv. sjútvrh., Lúðvík Jósepsson, sérstakan áhuga á því að geta haft fulltrúa í þessari n., vegna þess að hjá Sameinuðu þjóðunum átti þá að ræða hafréttarmálin og honum var mikið í mun að geta fylgst með þeim umr, og hafa einhvern fulltrúa þar sem gæti rætt þar við ýmsa menn sem um það mál fjölluðu í þessum umr. En Guðmundur Í. Guðmundsson neitaði Alþb. um að fá að senda fulltrúa. Lúðvík kom þá að máli við mig og spurði hvort ég mundi vilja fara vestur sem blaðmaður sjútvrn. til að gegna m.a. þeim störfum sem hann hafði áhuga á að gegnt yrði þarna. Ég hef ævinlega haft áhuga á ferðalögum, og ég hafði áhuga á þessu líka. Ég gekk hér í Bandaríska sendiráðið með plögg frá ráðh. um það í hverra erindum ég væri og fékk þar skjöl til að fylla út. Ég fyllti þau út samviskusamlega. M.a. átti ég að geta þess í hvaða félögum ég væri, og ég gerði það skilvísilega og hygg að þar hafi komið í ljós að ég hafði verið í öllum félögum á Íslandi sem hétu óamerísk að mati McCarthys, enda urðu viðbrögð sendiráðsins þau að ég fékk ekkert leyfi. Lúðvík Jósepsson sneri sér þá til Sameinuðu þjóðanna, því að samkv. samningum Sameinuðu þjóðanna og Bandaríkjanna verða Bandaríkin að tryggja mönnum ferðafrelsi til að fara á þing Sameinuðu þjóðanna ef þeir hafa þangað lögmæt erindi. Og fyrirmæli komu frá Sameinuðu þjóðunum og ég fékk leyfið. En leyfið var ákaflega takmarkað. Það var svolítill blettur í kringum aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna sem ég mátti ganga um. Það var tekið fram hvað ég mætti ganga langt í suður á Manhattan og hversu langt í norður og svo í austur og vestur á milli Fimmtu traðar og Hudsonflóa. Þegar ég kom þarna vestur og fór að athuga málið, þá kom í ljós að ég var með þrengra svæði en nokkur maður sem ég hitti. Ég hitti þarna menn frá mjög hættulegum löndum, eins og Rússlandi og Austur-Evrópuríkjum, og þeir höfðu allir fengið miklu stærra svæði en ég, svo að ég taldi að sjálfsögðu að ég væri ákaflega hættulegur maður, en undraðist um leið hvað bandarísk stjórnarvöld teldu þjóðfélag sitt valt ef þeir héldu að maður eins og ég gæti umbylt því á einhvern hættulegan hátt.

Þannig voru þessar reglur í langan tíma og þeim var beitt lengi mjög stranglega. Síðan fór að draga úr því.

En ég hef fleiri minnisverð dæmi um þetta. Ég man eftir því að einu sinni veiktist samstarfsmaður minn hjá Þjóðviljanum mjög hættulega. Það var hjartasjúkdómur. Læknar töldu sig ekki geta við það ráðið og bentu á bandaríska heilsustofnun sem þá fullkomnustu á þessu sviði. Þessi maður hafði starfað á Keflavíkurflugveili á þeim árum sem menn voru sigtaðir þangað, og hann komst í vissa misklíð við bandarísk stjórnarvöld á Vellinum og fór þaðan, en það voru hengdir upp á Vellinum miðar þar sem hann var eftirlýstur eins og glæpamaður. En sem sagt, þegar þetta kom upp með þennan vin minn, þá hringdi ég í bandaríska sendiherrann. Hér var þá sendiherra sem hét Penfield og ég kynntist vel og reyndi hann að því að hann var bæði prýðilega greindur og fjölfróður og drengskaparmaður. Ég sagði honum deili á þessu máli og spurði hvort hann gæti komið þessum óameríska manni á þessa heiðbrigðisstofnun í Bandaríkjunum. Hann brást mjög drengilega við og gerði það á svipstundu.

Ég segi þessa sögu vegna þess, að nokkru síðar gerðust þau tíðindi að íslensku blöðunum var boðið að senda menn með öðru hvoru íslenska flugfélaginu til Bandaríkjanna. Þær ferðir voru í tilefni af einhverjum breytingum á flugferðum eða af einhverjum öðrum ástæðum sem ég man ekki lengur hverjar voru. Við hjá Þjóðviljanum ákváðum að senda í þessa ferð Vilborgu Harðardóttur sem sat hér á síðasta þingi sem varafulltrúi minn. En bandaríska sendiráðið neitaði að láta hana hafa leyfi til þess að koma til Bandaríkjanna. Ég greip þá aftur til sama ráðsins og hafði reynst mér vel áður, að tala við Penfield sendiherra. Hann sagði ósköp blátt áfram: því miður, ég get ekkert í þessu máli gert. Það eru æðri aðilar en utanríkisþjónustan sem fjallar um þetta.

Í sendiráðinu er auðsjáanlega einhver svartur listi yfir íslendinga sem ekki mega ferðast til Bandaríkjanna, í hversu lögmætum erindum sem þeir eru. Ég veit ekki hversu margir menn það eru sem eru á þessum svarta lista, en hann er greinilega til. Þessi háttur á samskiptum ríkja, að annað ríkið njósni um þegna hins og setji hömlur við ferðum þeirra, en ekki sé beitt sömu aðferðum á hinn bóginn, þetta er að sjálfsögðu óhæfilegt með öllu.

Þegar þessir atburðir voru að gerast sem ég hef verið að rifja upp, þá munu hafa verið sömu reglur í gildi um ferðir íslendinga til Bandaríkjanna og bandaríkjamanna til Íslands. En 1962 gerðust þau tíðindi eftir þrýsting frá Bandaríkjunum að Ísland og mörg fleiri ríki felldu niður að hafa eftirlit með ferðum bandaríkjamanna, þó þeir sættu sig við það að bandaríkjamenn settu hömlur á ferðir þegna annarra þjóða. Þetta var þegar kalda stríðið var búið að ná hámarki sínu og bandaríkjamenn og bandarísk stjórnarvöld litu á sig sem einhvers konar herraþjóð í samskiptum við aðra og töldu að þeir ættu að hafa önnur og meiri réttindi heldur en önnur ríki sem þeir höfðu samskipti við. Ég veit ekki til þess að svona samskipti tíðkist á milli nokkurra annarra ríkja.

Fyrst ég er farinn að segja endurminningar, þá get ég sagt dálitið skemmtilega sögu um ferð sem ég fór fyrir nokkrum árum. Það var skömmu eftir að ég hætti ráðherrastörfum. Þá fór ég í ferð með Lagarfossi á milli Eystrasaltshafna og hingað heim aftur. Í þessari ferð var m.a. komið við í tveimur borgum í Sovétríkjunum, fyrra skiptið í Vilborg, og þar var sá háttur á hafður að við, sem vorum farþegar í ferðinni, vorum skráðir í áhöfnina og áttum þá að fá leyfi til að stíga á land eins og áhafnarmennirnir fengu. Ég man eftir því að ég bað skipstjórann um að skrá mig sem hjálparkokk, en hann var ekki fáanlegur til þess, heldur skráði mig sem ritara skipshafnarinnar, hvað sem það nú er. En svo komu eftirlitsmenn að lita á skjöl okkar. Ég var með diplómatapassa, og svo brá við í ríki verkamana og bænda að það þótti ákaflega ótrúlegt að maður, sem hefði verið ráðh., væri farinn að starfa á fragtskipi, þannig að embættismennirnir vildu ekki opna landganginn þegar í stað. Þeir urðu að hafa samband við Moskvu þegar svona undraleg tíðindi gerðust. En við fengum að ganga í land og fara um. Ég komst meira að segja alla leið til Leningrad á þennan hátt án þess að hafa nokkra áritun. Reglur þær, sem gilda í þessu ríki sem líka stundar mikið persónueftirlit, eru þó ögn mildari en þær reglur sem ríkja í Bandaríkjunum.

Ég tel að það sé algjör óhæfa að við sættum okkur við þau samskipti við önnur ríki, að aðrar reglur gildi um ferðir íslenskra þegna þangað en þegna þess ríkis hingað til Íslands. Ég fer fram á það í þessari þáltill., að hæstv. utanrrh. beiti sér fyrir því að bandaríkjamenn aflétti þeim hömlum sem þeir hafa enn þá á ferðum íslendinga til Bandaríkjanna. Vilji bandaríkjamenn hins vegar ekki gera það, þá skora ég á hæstv. utanrrh. að hér verði settar hliðstæðar reglur, hliðstæðar hömlur á ferðir bandaríkjamanna til Íslands eins og á ferðir íslendinga til Bandaríkjanna.

Ég vil taka það sérstaklega fram, að ég er ekki að fara fram á það að hæstv. ráðh. taki upp persónunjósnir um bandaríkjamenn á hliðstæðan hátt og bandaríkjamenn hafa ástundað um íslendinga, vegna þess að mér finnast persónunjósnir ákaflega ógeðfellt fyrirbæri. Það væri vissulega mjög auðvelt fyrir hæstv. ráðh. að gera þetta, því Bandaríkin eru full af stofnunum sem hafa það fyrir atvinnu að stunda njósnir um einstaklinga og beita til þess hinni fullkomnustu tækni. Það væri enginn vandi fyrir hæstv. ráðh. að komast í samband við slíka stofnun og biðja hana að njósna um þá bandaríkjamenn sem kunna að vilja ferðast til Íslands. Og kannske væri hægt að færa víss rök að því að slíkar njósnir ættu við um þá sem lengi dveljast hér, eins og þá sem eru á Keflavíkurflugvelli, því þar er gróðrarstía ýmislegs misferlis og glæpamála sem mikið hafa verið rakin í þinginu að undanförnu, en þær till., sem hér eru lagðar fram af hæstv. dómsmrh., fjalla að engu leyti um þessa gróðrarstíu. En, sem sagt, ég er ekki að fara fram á það, að hæstv. ráðh. fari að beita neinum njósnum við bandaríkjamenn. Ég fer aðeins fram á það, að hann tryggi formlegt jafnrétti í samskiptum þessara ríkja á þessu afmarkaða sviði.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til utanrmn.