29.04.1977
Efri deild: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3977 í B-deild Alþingistíðinda. (2954)

51. mál, skotvopn

Frsm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Frv. til laga um skotvopn, sprengiefni og skotelda var samþ. hér í hv. Ed. fyrr í vetur og er nú komið til d. á ný með þeim breytingum sem gerðar voru á því í hv. Nd. Þessar breytingar eru þær helstar, að aftan við 1. mgr. 14. gr. kom nýr málsliður, þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Fyrir skotvopnaleyfi skal greiða sérstakt gjald samkv. nánari ákvörðun dómsmrh.“ Það var ekki í frv., eins og það var áður, sérstakt ákvæði um gjaldtöku. Hins vegar leit allshn. Ed. svo á að slík gjaldtaka væri heimil samkv. öðrum lögum. En eftir atvikum sér allshn. nú ekki ástæðu til að gera athuga­semd við þessa breytingu.

Þá er í þeim breytingum, sem gerðar voru, gert ráð fyrir því, að þegar skotvopnaleyfi er endurnýjað geri handhafi skotvopnaleyfis grein fyrir hæfni sinni og þekkingu á því vopni sem hann hefur leyfi til að fara með. Það er eins, að allshn. Ed. gerir ekki aths. við þessa breytingu.

Loks eru gerðar breytingar á 15. gr. frv., fyrst sú að 1. mgr. falli niður. Sú málsgr. fjallar um það, að þeir, sem sækja um skotvopnaleyfi, skuli gera grein fyrir þörf sinni og öðrum ástæðum fyrir því að þeir óska eftir að eiga skot­vopn. En eins og ég sagði áður, þá er frv. nú án þessa ákvæðis. Allshn. Ed. treysti sér ekki til að mæla með því að algjörlega verði felld niður öll ákvæði um að menn geri grein fyrir þörf sinni fyrir því og ástæðum, að þeir vilja kaupa skotvopn, og telur nauðsynlegt að í lögum um skotvopn, sprengiefni og skotelda séu ákvæði sem geri yfirvöldum kleift að takmarka skot­vopnafjölda hvers einstaklings eða skotvopna­leyfi hvers einstaklings. Þess vegna varð samkomulag um það í n. að leggja til, að í stað þeirrar málsgr., 1. mgr. 15. gr., sem felld var niður í Nd., komi ný mgr. sem er nokkuð breytt frá því sem áður var og sleppt úr ákvæðunum um að gerð sé grein fyrir þörf umsækjanda fyrir skotvopnið. Vil ég leyfa mér að lesa þá till. sem allshn. gerir nú um upphaf 15. gr., með leyfi hæstv. forseta, en till. er á þessa leið: „Hver sem leitar leyfis til að eignast skotvopn skal gera grein fyrir því, í hverju skyni hann leitar leyfisins. Setja má reglur um fjölda leyfa sem veitt verða hverjum einstaklingi.“ Þetta er orðin nokkur breyting bæði frá því, sem frv. er nú, og eins frá því, sem frv. gerði ráð fyrir. Það er sem sagt fellt úr ákvæðið um að um­sækjandi leyfis skuli gera grein fyrir því, að hann þurfi á skotvopninu að halda. Það varð samkomulag í n. um að leggja til að upphaf 15. gr. yrði á þessa leið.

Sú breyting var gerð við 15. gr., að bætt var við nýrri mgr. um það, að lögreglustjóri skyldi, eftir því sem tök væru á, halda námskeið í meðferð skotvopna fyrir þá menn sem sækja um skotvopnaleyfi eða endurnýja þau. Nm. litu svo á að það hlytu að vera nokkur vandkvæði á að halda slík námskeið, en eftir atvikum þótti þó ekki rétt að gera till. um breytingu á þessu ákvæði á ný.

Loks var gerð smávegis orðalagsbreyting á 32. gr. frv.

Ég vil að þessum orðum sögðum leyfa mér að vænta þess, að hv, d. samþ. þá brtt. sem allshn. leggur fram, og ég vil vænta þess jafn­framt, að Nd. og allshn. Nd. taki þessa breytingu til athugunar svo að málið mætti ná fram að ganga áður en þingi lýkur nú.