29.04.1977
Efri deild: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3982 í B-deild Alþingistíðinda. (2965)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. minni hl. (Helgi F. Seljan):

Herra for­seti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þetta frv. svo og hef ég gefið út sérstakt nál. þar sem svo segir:

„Undirritaður er enn sem fyrr þeirrar ákveðnu skoðunar, að svokallað fæðingarorlof eigi að falla inn í lög um almannatryggingar, svo sem það fyrst var flutt í tillöguformi af Bjarnfríði Leósdóttur á árinu 1974. Þar hlýtur að vera þess rétti staður.

Með lögunum frá 1975 fylgdi ákvæði til bráða­birgða, sem átti í raun að miða að annarri og réttari skipan þessara mála, svo og átti það að beinast að því að allar konur í landinu fengju notið þessa réttar.

Að framkvæmd þessa virðist ekki einu sinni hafa verið hugað, og er því vafasamt í meira lagi að treysta nú nýju bráðabirgðaákvæði sem fylgir frv. frá Nd., þó rétt sé að láta aftur reyna á vilja og getu ríkisstj. til að tryggja fullt jafnrétti og eðlilega framkvæmd fæðingarorlofs innan ramma réttra laga. Það er hins vegar ekki vansalaust, að þessi skerðingarákvæði, sem hér er lagt til að falli úr gildi varðandi fæðingarorlofið eitt, gildi áfram um giftar konur, sem njóta eiga atvinnuleysisbóta, ekki síst þegar þar er um atriði að ræða sem snertir meginhlut­verk sjóðsins.

Í 16. gr. laganna um atvinnuleysistryggingasjóð, 1. málsgr. g.-lið, eru viss tekjumörk maka enn við lýði sem valda réttindamissi kvenna til atvinnuleysisbóta. Þegar hafa borist víða að óskir um niðurfellingu þessa ákvæðis. Það hlýtur því að teljast skylda Alþ., að um leið og skerðingarákvæðið er afnumið gagnvart fæðingarorlofi, þá verði það numið að fullu úr gildi, svo ekkert slíkt skerði rétt giftra kvenna til atvinnuleysis­bóta. Um það flytur undirritaður brtt. á sér­stöku þskj.

En brtt. er um það að 16. gr. 1. málsgr. g.-liður falli úr gildi.

Um þetta mætti vissulega hafa langt mál, og kannske er best að játa það nú þegar, að það veldur mér töluverðri eftirsjá, svo ekki sé meira sagt, að hafa ekki fylgt á sínum tíma dagskrár­tillögu sem hér var flutt af þeim hv. þm. Hall­dóri Ásgrímssyni, Axel Jónssyni, Stefáni Jóns­syni og Jóni Árm. Héðinssyni í þessu máli, þar sem það var samþ. að fela ríkisstj. að semja frv. til l. um málið er yrði lagt fram í upphafi næsta reglulegs Alþingis. Ég held sem sagt að í ljósi þeirrar reynslu, sem við höfum haft af þessu, hafi hér verið um rétta skipan mála að ræða og ég og kannske einhverjir fleiri hér í d. hafi gert rangt í því að eiga þátt í því að fella þessa tillögu.

Aðalspurningin varðandi þetta mál er enn sem fyrr hvar í okkar kerfi þetta á heima, og í raun og veru eru allir sammála um það, það er enginn vafi þar á. Þetta var aðeins túlkað sem bráðabirgðalausn á þessum tíma, eini möguleikinn til að láta þær konur, sem höfðu minnstar tekjur, áttu kannske við erfiðust kjör að búa, njóta þessa fæðingarorlofs. Þannig var þetta túlkað á sínum tíma, og fyrir þessari túlkun féll ég ásamt fleiri hv., þm., þrátt fyrir það að ég væri sannfærður um að við værum þarna á rangri leið. Ég treysti því aðeins að hér væri um algera bráðabirgðalausn að ræða, þannig að ákvæði til bráðabirgða, sem fylgdi lögunum, yrði einhvers metið, það yrði eitthvað með það gert. En þar sagði: „Fyrir l. janúar 1976 skal ríkis­stj. láta kanna á hvern máta megi veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni.“

Nú er liðið næstum eitt og hálft ár frá því að þetta ákvæði átti að koma í raun og veru til framkvæmda á einhvern hátt, og ekkert hefur verið í málinu gert. Atvinnuleysistryggingasjóður eða stjórn hans hafði á sínum tíma uppi eðli­lega andstöðu við þetta mál, ekki fyrir það að hún væri andstæð málinu í sjálfu sér, heldur af hví að kannske fundu engir og skildu betur en hún að þetta mál var á röngum stað, og það kom ljóslega fram í máli formanns Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem mætti á fundi n., að vissulega hefði þessi skipan mála valdið sjóðnum verulegum erfiðleikum. Ég legg nefnilega ekki minni áherslu á það framlag sjóðsins sem hefur runnið til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi, til þess að styrkja sveitarfélög og fyrirtæki víða með lánastarfsemi sem hefur bjargað atvinnufyrirtækjum eða þá komið nýjum á fót. Þar eru ótalin dæmi um. Og það er alveg rétt, þetta hefur valdið því, þetta réttlætis­mál, af því það er á röngum stað, það hefur orðið til þess, að þessi fyrirgreiðsla hefur dregist saman, og hefði atvinnuleysi orðið meira eða enn alvarlegra, þá auðvitað hefði verið um margfalda erfiðleika í þessu að ræða fyrir stjórn sjóðsins.

Ég sem sagt fylgdi þessu máli á sínum tíma vegna þessa ákvæðis til bráðabirgða sem þarna var komið inn í. Og núna virðist mér að ákvæðið til bráðabirgða sé aðeins til friðunar. Mun það hafa borið á góma í Nd. að nú ætti að endur­skoða lög um atvinnuleysistryggingar og einnig væri verið að endurskoða lög um almannatryggingar og þetta hvort tveggja mundi valda því að önnur og betri skipan mundi fást á þessi mál. Þetta ber nú allt saman nokkurn keim af skollaleik og vitnar allt um vissa sýndar­mennsku, svo að ég er nú farinn að verða ör­lítið í vafa um hvað ég á yfirleitt í þessu máli að gera. Og ekki bætir það úr að sjá sig hafa gert skyssu áður í þessu máli, en það skal fús­lega viðurkennt. Þá tók ég það einmitt fram, eins og ég gerði hér við 1. umr. málsins um daginn, að af því að þetta virtist vera eina leiðin sem bráðabirgðalausn í þessu máli og í trausti þess, að sá frestur á gildistöku, sem fram hef­ur fengist, yrði notaður til annars tveggja að tryggja Atvinnuleysistryggingasjóði nýjar tekjur eða létta af honum byrðum, — annars vegar þetta og hins vegar það að ég treysti því, að í framhaldi af því yrði þetta fært inn í almannatryggingakerfið, þá greiddi ég atkvæði gegn þessari dagskrártillögu þessara ágætu þm. sem ég rakti hér áðan, en með frv. eins og það lá þá fyrir.

Í ljósi þessa, sem ég hef sagt núna, munu menn eflaust segja: Hvers vegna þá með umhyggjunni fyrir Atvinnuleysistryggingasjóði, sem hér hefur komið fram hjá mér, hvers vegna þá að auka á byrðar hans með því móti sem ég legg til í brtt? Þar koma til allt aðrar ástæður, samtvinnaðar einmitt því að það er verið að koma þessu í gegn núna um fæðingar­orlofið. Frumtilgangur Atvinnuleysistrygginga­sjóðs var vitanlega sá að vera til hjálpar ef atvinnuleysi skylli á, að greiða atvinnuleysisbætur, og það er ósæmilegt með öllu, finnst mér, þegar þessi skerðingarákvæði eru í gildi varðandi at­vinnuleysisbæturnar, frumtilgang þessa sjóðs, þá sé verið að fara í það að breyta þessu sérstaka atkvæði um fæðingarorlofið. Till mín er hér að­eins til þess að eitthvert samræmi sé í þessu — í allri þessari vitleysu, mætti kannske segja, en það verður þó að vera eitthvert samræmi í þessu máli. Það má ekki vera gert alveg út í bláinn af eintómri sýndarmennsku.

Ég veit að það er eðlilegt, þegar um það hefur verið rætt að láta þessi tekjumörk eða skerðingarákvæði falla niður varðandi fæðingar­orlofið, að konur í hinum ýmsu verkalýðs­félögum hafi óskað eftir því að þetta yrði fellt niður einnig varðandi atvinnuleysisbæturnar. Ég nefni þar áskoranir frá félögum eins og ASB, og það er ósköp eðlilegt að sú áskorun hafi komið fram frá því félagi, því þær konur hafa fyrir skömmu orðið hart úti einmitt vegna lagasetningar hér á Alþingi, og það er ekki mikið þó að þær hafi óskað eftir því í vandræðum sínum, að þetta ranglæti væri afnumið, úr því að á að fara að afnema það gagnvart fæðingarorlofinu.

Ég get nefnt hér fleiri dæmi, eins og frá Félagi starfsfólks í veitingahúsum, Kvennadeild Verkalýðsfélagsins á Akranesi, frá hinu fjölmenna félagi Sókn, Starfsstúlknafélaginu Sókn, frá Verkalýðsfélaginu á Húsavík, og einnig fékk ég mjög harðort bréf frá Seyðisfirði í vetur varðandi þetta mál, þar sem mér var bent á mjög ágætt dæmi um það misrétti sem í þessu væri. Þangað kom á staðinn maður sem hafði unnið við Sigöldu og hafði haft eitthvað í kringum 3 millj. kr. á s. l. ári, og vitanlega gekk hann beint inn í atvinnuleysisbætur, fékk atvinnuleys­isbætur um leið og hann kom til Seyðisfjarðar. Hann fékk ekki atvinnu þar strax, og hann fékk sínar atvinnuleysisbætur, á meðan konunum, sem unnu í frystihúsinu og voru með eitthvað milli 700 og 800 þús. kr. árið áður, var neitað um bætur vegna þess að mennirnir þeirra höfðu einhvers staðar á bilinu milli 1500 og 1600 þús. kr. í tekjur. Það er auðvitað glöggt að þarna var um miklu lægri tekjumörk að ræða fyrir fjölskylduna, þessar 2.2 millj., heldur en 3 millj. kr. tekjurnar sem Sigöldumaðurinn hafði haft, og skal þó tekið fram að þessi maður átti konu sem var með svipaðar tekjur og konurnar í frystihúsinu, milli 700 og 800 þús. kr. Þarna var sem sagt spurningin um 3.7 millj. fyrir heimilið annars vegar eða 2.2 millj. hins vegar og þá sést vitanlega að þarna var um misræmi að ræða. Nú er ég ekki að segja að þetta eigi að vera algilt með þessi tekjumörk. Það kann vel að vera að einhver tekjumörk eigi þarna að hafa. Þau eru bara allt of lág, eins og þau eru í dag. Það kann vel að vera að það sé rétt að setja einhver mörk þarna, en það á þá að setja þau jafnt yfir línuna og ekki endilega að binda þau við tekjur maka. Það þyrfti auðvitað að athuga miklu betur og kemur ekki inn í þetta dæmi hér, úr því að þetta mál er tekið hér fyrir á þennan hátt.

Ég viðurkenni það ósköp vel, að þessi afgreiðsla á málinu er mér ekki að skapi. Ákvæðið til bráðabirgða friðar mig ekki lengur, og alveg eins og hv. þm. Oddur Ólafsson tók fram, 1. málsgr. þar er vitanlega mikil fjarstæða: „Ákvæði 1. gr. skal einnig gilda um þær konur, sem synjað hefur verið um fæðingarorlofsgreiðslur vegna þeirra aðstæðna, sem 1. gr. á við um.“ Sá ágæti maður Hjálmar Vilhjálmsson benti okkur skýrlega á það í n., að þetta væri vitan­lega fráleitt með öllu. Hv. þm. Oddur Ólafsson talaði um að það væri skilningur n., að allar þær konur, sem hefðu átt rétt ef skerðingarmörkin hefðu ekki verið, ættu nú að fá fæðingarorlofsgreiðslur. Það stendur hvergi og ég óska þess bara að það rætist, að þessi skilningur verði í það lagður. Ég er bara hræddar um að það verði óskhyggja hjá hv. þm., en ekki annað. Sem sagt, eins og Hjálmar Vilhjálmsson benti okkur glögglega á, þær konur, sem virtu lögin og datt ekki einu sinni í hug að sækja vegna þess að þær vissu um þessi skerðingarmörk, þær eiga vitanlega ekki að fá neitt skv. þessu ákvæði, það verður ekki skilið öðruvísi.

Ég ítreka svo það, að það er hin mesta nauðsyn að öllum konum í landinu sé tryggt sam­bærilegt fæðingarorlof, og ég tek sveitakonurnar alveg sérstaklega sem dæmi um þær konur sem vissulega þurfa og eiga að fá þetta fæðingarorlof. Það var gerð misheppnuð tilraun og að mínu viti sennilega alveg röng með tillögu­flutningi um þetta mál varðandi bændakonurnar. Hún auðvitað rann út í sandinn, enda rang­lega upp byggð eftir því sem upplýst var þá af þeim manni sem gerst þekkti til þess sjóðs sem átti að taka þetta á sig. En það hefði verið mér reglulegt fagnaðarefni að fá núna frv. til breyt. á l. um almannatryggingar sem hefði ákveðið fæðingarorlof til allra kvenna, í staðinn fyrir þennan — ég vil nú kannske ekki segja óskapnað, en það liggur við, eftir að málið er eins og það er nú komið hér til okkar.

En sem sagt, ég legg til að þetta skerðingarákvæði falli niður varðandi frumtilgang Atvinnu­leysistryggingasjóðs. Ég tel mjög nauðsynlegt að það geri það, þrátt fyrir það að ég sjái ýmis vandkvæði á því eins og reyndar á því að fella niður þetta skerðingarákvæði almennt. Ég sé betur og betur að það hefur verið rétt, sem haldið var fram hér m. a. af mér og fleirum, þó við beygðum okkur fyrir vissum rökum í þessum efnum, að þetta mál á alls ekki hér heima, þetta mál á heima í almannatrygginga­lögum.