29.04.1977
Efri deild: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3987 í B-deild Alþingistíðinda. (2968)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Mig langar gjarnan að láta koma fram við umr. um þetta frv., að ég get tekið undir þá skoðun sem komið hefur fram hjá öðrum hv. þm. þessarar d., að á sínum tíma, þegar þetta mál var til umfjöllunar hér í þessari hv. d., þá ríktu í huga mínum ákaflega ríkar efasemdir um það, hvort hér væri stefnt á rétta braut með þeirri til­högun sem ákveðin var í því frv, sem þá var samþ. Og úr því að menn hafa verið að lýsa afstöðu sinni þá, þá skal ég gjarnan gera þá játningu, að það var mjög tilviljunarkennt hvernig afstaða mín var endanlega við afgreiðslu málsins í þessari hv. d. Nú er ég ekki þannig skapi farinn að ég vilji mikið ræða það sem liðið er og það sem ekki er hægt að taka til baka, en ég vildi gjarnan að ég væri í þeirri aðstöðu að greiða aftur atkv. um þær till. sem þá lágu fyrir.

Það má sjálfsagt finna að því og gera það með rökstuðningi, að ekki sé úr vegi og það sé sanngirniskrafa til þjóðfélagsins að létta undir í vissum tilfellum þegar svo stendur á að móðir, sem er kannske fyrirvinna og framfærsla hvílir með þunga á, missir af tekjumöguleikum sínum vegna barnsburðar. En ég er innilega samþykkur þeirri skoðun, sem kom hér fram, að það er mjög vafasamt að sú tilhögun eigi að ríkja um þá aðstoð, að hún eigi að koma úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Það var áreiðanlega mjög réttmæt ráðstöfun þegar Atvinnuleysistrygginga­sjóður var stofnaður. Ég held að við séum allir sammála um að það hlutverk, sem hann á að gegna, er mjög mikilvægt og er áreiðanlega heillavænlegt og skapar ákaflega mikið öryggi, sem hinn vinnandi maður hefur alltaf þráð að væri fyrir hendi. Enda var ekki ágreiningur um það, þegar Atvinnuleysistryggingasjóður var stofnaður og sveitarfélög t. a. m. tóku á sig veru­legar byrðar til þess að standa undir skuldbindingum sjóðsins og efla hann svo fjárhags­lega að hann væri fær um að gegna því hlut­verki, sem honum var frá upphafi vega ætlað.

Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að síðan Atvinnuleysistryggingasjóður var stofnaður hafi hann oft og á mörgum sviðum verið misnotaður. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að kominn er tími til þess að endurskoða lögin eða a. m. k. reglugerðina um alla starfshætti. Atvinnuleysistryggingasjóðs, því að samkv. eðli málsins var hlutverk hans fyrst og fremst að grípa inn í þegar hættulegt ástand skapast á vinnumarkaðinum, en hann á ekki að vera bótasjóður sem menn geta sátt í bætur bara af því að einhverra hluta vegna falla niður einhverjir vinnudagar, hversu svo sem er háttað um efnahagslega af­komu hlutaðeigandi. Þetta eru hlutir sem búnir eru að ganga úrskeiðis allt of lengi, og ég held að það væri öllum aðilum til góðs að fyrr en síðar yrði gengið af alvöru og festu að því máli, að endurskoða þetta og færa til betri vegar þau framkvæmdaatriði sem úrskeiðis hafa farið, því miður, á liðnum árum í sambandi við þennan að öðru leyti ágæta sjóð, Atvinnuleysistrygginga­sjóð.

En þessar álögur, sem voru settar á sjóðinn með þeim lögum sem samþ. voru 1975 um fæðingarorlofið, ég er einn þeirra aðila sem stóðu í þeirri meiningu og stend enn, að þessi laga­ákvæði hafi einungis átt að vera til bráðabirgða, því að ég held að það geti engan veginn verið ætlun þjóðfélagsins að þessar greiðslur, ef þær teljast réttmætar, eigi að vera á vegum Atvinnu­leysistryggingasjóðs. Og ég er sammála þeim hv. þm., sem hér hafa talað, að ef — og nú vil ég leggja mikla áherslu á orðið „ef“ — ef það er talið réttmætt undir öllum kringumstæðum að inna slíkar greiðslur af hendi af þjóðfélagsins hálfu, þá á sú tilhögun áreiðanlega að vera innan ramma almannatrygginga. En ég vil þó einnig skýlaust láta þá skoðun mína í ljós, að áður en tekin er endanleg ákvörðun um það málefni, þá tel ég í fyrsta lagi að þurfi að endurskoða til hvaða hóps slíkar greiðslur eigi að ná. Ég er ekki á því að við höfum þjóðhagslega efni á því að greiða þetta hverjum og einum, því það hefur alltaf sýnt sig þegar svona greiðslur byrja, að þá er það þannig að þetta kemur fram í frum­hugmyndinni, að rétt sé að styrkja ákveðna hópa sem eigi við eitthvað erfiðari lífskjör að búa heldur en almennt gerist og gengur í þjóð­félaginu, en svo gerist það bara að þróunin verð­ur þannig að þetta nær út yfir heildina, nær til allra, og slík tilhögun er á móti minni lífs­skoðun, að það eigi að fara að borga margra mánaða laun í sambandi við það að börn fæðist á heimilum í þjóðfélaginu.

Einhvers staðar verður að setja takmörk fyrir því, hvernig við getum hagað opinberum greiðslum, eða þá kannske af meira raunsæi sett fram: hvað mikið fé við getum látið af hendi til þegnanna fyrir ekki neitt. Við verðum, held ég, að fara að skoða hug okkar um það, hversu langt er hægt að ganga í þeim efnum, því ef ekki verður á stemmd að ósi í þeim málum í okkar þjóðfélagi með sívaxandi kröfum um alla mögulega félagslega aðstoð sem á að greiðast af hinu opinbera, þá sé ég ekki hvert stefnir. Ég ætla a. m. k. að áskilja mér allan rétt til þess að mega skoða þau mál betur og vita betur um raunverulegar upphæðir í tölum, hvað slík til­högun kostar.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Ég mun ekki setja fótinn fyrir það að þetta frv. nái fram að ganga, en aðeins þótti mér rétt að láta afstöðu mína til málsins í heild koma hér fram.