29.04.1977
Efri deild: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3990 í B-deild Alþingistíðinda. (2970)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. minni hl. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil taka það fram fyrst, að það kann að vera að orð mín hafi getað misskilist áðan varð­andi það mál að greiða fæðingarorlof þessum tilteknu konum, að það atriði væri sýndar­mennska. Ef hægt hefur verið að skilja orð mín svo, þá vil ég taka það skýrt fram að sú var ekki meining mín. Það, sem ég átti við með sýndarmennsku voru fyrst og fremst þau ákvæði til bráðabirgða, sem nú eru aftur tekin hér upp, og reyndar hvernig málið hefur borið að og hvernig því hefur verið hagað hér í þinginu.

Ég er sannarlega á þeirri skoðun og hef tekið rækilega undir það, að tryggja beri sem allra flestum konum og helst öllum sambærilegan rétt við það sem þær konur hafa, sem í dag eru í opinberri þjónustu, og dreg ekkert þar úr.

Það er ýmislegt annað í þessu máli sem mér finnst bera vott sýndarmennsku, en ekki beinlínis það, hvernig þetta hefur verið framkvæmt, því að féð hefur sannarlega runnið í langflestum tilfellum til réttra aðila, það fæðingarorlof sem hefur verið greitt út á þessum árum. Þar hefur verið um konur að ræða sem sannarlega hafa þurft á þessu að halda að langmestum meiri hluta.

Ég held að það sé alveg óhætt að fullyrða það, a. m. k. hef ég engin dæmi um það, hvað sem túlkun líður á lagagreinum Atvinnuleysistrygg­ingasjóðs, þá held ég að við höfum engin dæmi þess að orlofsgreiðslur af þessu tagi eða fæðingarorlof eigi heima í svipuðum lögum annars staðar. Ég held að það sé alveg ótvírætt, að hvar sem þessar greiðslur eru, þá séu þær inntar af hendi gegnum almenna tryggingakerfið og það er þess vegna hið eðlilega í þessu máli. Auk þess er það svo, að ef við ætlum að halda okkur við þennan sjóð, Atvinnuleysistryggingasjóð, þá auðvitað tryggjum við sveitakonum aldrei fæðingarorlof, það er útilokað, nema með einhverri kollvörpun á lögum þess sjóðs. Það er, held ég, alls ekki mögulegt.

Ég óska þess, eins og ég sagði áðan, að túlkun hv. þm. Odds Ólafssonar á fyrri setningunni í ákvæði til bráðabirgða megi gilda. Það væri svo sannarlega vonandi að það yrði þannig, að einn­ig þær konur, sem ekki sóttu á s. l. ári, nytu sama réttar og þær sem synjað hefur verið um þetta. Það vona ég sannarlega að verði. En tryggingu fyrir því hef ég vitanlega enga. En það er rétt að rifja það upp, sem kom fram í n. hjá okkur, hvað endalaust er eiginlega gengið á þennan sjóð, Atvinnuleysistryggingasjóð, um lögbundin framlög hér og þar, og það er alveg sýnt að við erum búnir að binda sjóðnum allt of mikla bagga. Það kom glöggt fram í máli formannsins. Hann reiknaði með greiðsluhalla á þessu ári á þessum sterka sjóði. Í fyrsta lagi þarf hann að inna af hendi atvinnuleysisbætur, svo sem frumskylda hans er. Í öðru lagi þarf hann að endurgreiða vissan hluta til atvinnurekenda vegna atvinnuleysisdaga, og þar er um verulega upphæð að ræða enn þá. Hún fer minnkandi að vísu. Það er í þriðja lagi fæðingarorlofið sem nam á s. 1. ári 135 millj. kr. og gæti farið hátt í það að tvöfaldast á þessu ári, farið mjög nálægt því, yrðu alla vega milli 200 og 250 millj. kr. sem yrðu bundnar í þessu af fé sjóðsins. Auk þess fara svo nokkur hundruð millj. eða um 300 millj. í eftirlaun aldraðra. Síðan er Atvinnuleysistryggingasjóður bundinn Byggingarsjóði ríkisins um milli 600 og 700 millj. kr. Og þá er auðvitað von að útkoman úr þessu öllu saman verði greiðsluhalli sem nálgast um 100 millj.

Það er því von að maður hiki við, nú þegar við sjáum þessar tölur á borðinu og sjáum hvað þetta skiptir miklu máli, og mönnum finnst þess vegna nokkurt ósamræmi í því, að ég skuli flytja þessar brtt. En samræmisins vegna, vegna þess að við erum að breyta þessum skerðingar­mörkum varðandi fæðingarorlofið, þá er annað ekki hægt varðandi frumtilgang sjóðsins en að láta þetta gilda um atvinnuleysisbæturnar, það sem sjóðurinn á fyrst og fremst að standa við. Það er því miður ekki annað hægt. Það er því miður ekki hægt að skoða þetta mál betur.

En nú veit ég ekki hvort sá hæstv. ráðh., sem með þessi mál fer, er hér í húsinu. En þetta ákvæði til bráðabirgða, seinni hluti þess og gáfulegri hluti þess og réttari er fluttur af tveimur ágætum framsóknarmönnum í Nd. og er kominn þar inn fyrir þeirra tilverknað, og þökk sé þeim fyrir það út af fyrir sig og þó alveg sérstaklega að þeir skuli enn þá treysta ríkisstj. sinni, það er lofsvert í alla staði. En annar þessara hv. þm. er nú hér í d., og ég efast ekki um að hann treysti því að við þetta ákvæði verð­ur staðið. En ég veit ekki og við höfum ekki fengið um það yfirlýsingar hér í þessari d., hvernig hæstv. ráðh. hyggst standa við þetta ákvæði sem þeir hv. þm. Stefán Valgeirsson og Þórarinn Þórarinsson komu inn í þetta frv. í Nd., og það væri ákaflega æskilegt að fá nú hæstv. ráðh. hér inn í d. og fá yfirlýsingu hans um það, hvernig þetta yrði gert, því við eigum heimtingu á að fá það, og ég treysti forseta — (Forseti: Það verður athugað hvort ráðh. getur komið hingað.) Ég treysti hæstv. forseta til þess og veit það reyndar líka, að svo ágætur og sann­gjarn forseti sem hann er, þá mun hann tryggja okkur nærveru þessa hæstv. ráðh. sem við höfum alltaf mikla ánægju af hér í d. Og það væri fróðlegt að heyra á hvern hátt ríkisstj. ætlaði að gera þetta, því að í samráði við hana hlýtur þetta ákvæði að hafa verið flutt og í samráði við þennan hæstv. ráðh., svo vel þekki ég til þessara hv. þm. Þeir hafa ekki gert það alveg út í bláinn. Ég sem sagt óska eftir því, að hæstv. ráðh. komi í d. og segi okkur frá því, til þess m. a. að létta efasemdum af hv. 5. þm. Norðurl. e. og mér og reyndar hv. 2. þm. Norðurl. e. einnig varðandi allt þetta mál.