29.04.1977
Efri deild: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3992 í B-deild Alþingistíðinda. (2971)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins með nokkrum orðum gera grein fyrir afstöðu minni og undirskrift undir nál. um þetta frv.

Ég skal ekki leggja mat á réttmæti fæðingarorlofs, — ég segi það í framhaldi af ræðu hv. 2. þm. Norðurl. e., — hvort við höfum efni á að standa undir slíkum kostnaði sem liggur að sjálfsögðu þungt á Atvinnuleysistryggingasjóði, eins og fram kom hjá formanni sjóðsins og fyrrv. ráðuneytisstjóra, Hjálmari Vilhjálmssyni, á nefnd­arfundi. En mér finnst óhjákvæmilegt að haga lögum þannig, að allar konur njóti sama réttar. Úr því að við erum á annað borð að setja lög, þá hljótum við að láta þau lög ná jafnt yfir alla. Áður en við setjum þau hljótum við að gera okkur grein fyrir því, hvort við höfum efni á að gera það. Þá tek ég að sjálfsögðu undir það, sem hv. síðasti ræðumaður, 7. landsk. þm., sagði áðan, að það ætti að ná lengra en til þeirra kvenna sem vinna hjá opinberum aðilum og þá að sjálfsögðu sveitakvenna ekki síður en annarra.

En þá kem ég að merg málsins, en það eru bráðabirgðaákvæðin. Ég ætla að leyfa mér — með leyfi hæstv. forseta — að lesa þau hér upp og lýsa skoðunum mínum. Þau hljóða svo:

„Ákvæði 1. gr. skal einnig gilda um þær konur, sem synjað hefur verið um fæðingarorlofs­greiðslur vegna þeirra aðstæðna, sem 1. gr. á við um.

Fyrir 1. jan. 1978 skal ríkisstj. láta kanna á hvern hátt megi veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni. Niðurstöður þessarar könnunar skal leggja fyrir Alþingi.“

Ég vil túlka þetta þannig, að við samþykkt þessa frv. beri ríkisstj. að tryggja þeim konum, sem áttu sama rétt og þær konur, sem sóttu um fæðingarorlofsgreiðslu, fengu ekki, en eiga nú að fá, þó að þær konur hafi ekki sótt um slíka greiðslu, að njóta sama réttar. Að öðrum kosti er þetta markleysa sem stendur í seinni hluta ákvæðis til bráðabirgða. Á þann eina hátt er hægt að segja að allar konur njóti sambærilegs fæðingarorlofs, en ríkisstj. er falið að tryggja tekjustofn til þess að svo geti orðið.