29.04.1977
Efri deild: 76. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3993 í B-deild Alþingistíðinda. (2977)

237. mál, söluskattur

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég hef hér flutt ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds, er í raun svipað og sum frv. sem hæstv. ráðh. kynna hér og segja að sé aðeins til kynn­ingar eða sýningar fyrir hv. þm., því að við gerum okkur auðvitað ljóst að þetta frv. nær ekki fram að ganga á þessu þingi og fær ekki einu sinni eðlilega meðferð í nefnd.

En þetta frv. er um breyt. á lögum um söluskatt, þ. e. a. s. að 1. töluliður 7. gr. laganna orðist svo: „Vinna við húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð, sem unnin er á byggingarstað svo og í verksmiðju, á verkstæði eða starfsstöð. Sama gildir um vinnu við endurbætur og viðhald slíkra mannvirkja.“ 7. gr. söluskattslaganna er um hinar ýmsu undanþágur sem eru frá sölu­skatti, og þar er tekið sérstaklega fram, að vinna við húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð og endurbætur og viðhald slíkra mannvirkja sé undanþegin söluskatti, en hins vegar ekki ef vinnan er unnin í verksmiðju, á verkstæði eða starfsstöð.

Nú skal ég játa það, að allar undanþágur í sambandi við söluskattinn orka tvímælis. Það skal fúslega játað. Hins vegar er eðlilegt að upp komi æ fleiri spurningar um undanþágur og það, hvar söluskattur eigi rétt á sér þegar hann er orðinn svo hár sem raun ber vitni. Og í þessu sérstaka tilfelli tel ég að sé um visst misræmi og misrétti að ræða sem einhvern veginn þarf að leiðrétta, þó kannske ekki sé gengið eins langt og við leggjum hér til í okkar frv.

Ég bar fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh. nú fyrir skömmu um það, hvort fyrirhuguð væri breyting á þessu, vegna þess að ég hafði heyrt að þarna yrði eitthvað rýmkað til vegna þeirra verksmiðja sem hafa unnið við byggingar á þann máta sem hér er verið að gera grein fyrir. En svar hæstv. fjmrh. var neikvætt og því fluttum við hv. þm. Ragnar Arnalds það frv. sem svo hljóðandi grg. fylgir:

„Sú byggingaraðferð, að íbúðarhús séu smíðuð í einingum á verkstæðum eða í verksmiðjum, ryður sér nú til rúms, og ef rétt er að staðið lækkar byggingarkostnaður verulega við þessa tilhögun, auk þess sem henni fylgir margvíslegt hagræði fyrir þann sem byggt er fyrir.

Nú er söluskattsinnheimtu þannig háttað, að ekki er innheimtur söluskattur af vinnu við húsbyggingar, sé hún framkvæmd á byggingar­stað, en hins vegar ef hún fer fram í verksmiðjum við svokallaðar einingabyggingar.

Hér er um misræmi og misrétti í innheimtu að ræða og frv. þetta er flutt í þá veru að leiðrétta þetta misræmi, svo þessi um margt hag­stæði byggingarmáti njóti sömu undanþágu og veitt er í dag við húsbyggingar séu þær framkvæmdar á byggingarstað.

Eðlilegt hlýtur að teljast að ríkið greiði fyrir byggingaraðferð sem hefur þann kost helstan að lækka hinn mikla byggingarkostnað. Því er frv. þetta flutt.“

Aðeins vildi ég svo bæta því við í sambandi við þetta, að húsnæðismálastjórn hefur nýlega samþ. að greiða með betri lánsfyrirgreiðslu fyrir bygg­ingu húsa með þessum hætti, einmitt vegna þess að hún telur að hér sé um að ræða ágætan byggingarmáta. Hún hefur sem sagt ákveðið, ég veit ekki hvort ráðh. hefur staðfest það, en húsnæðismálastjórn hefur ákveðið að þegar þessi hús eru fokheld og þau eru komin til lánsréttar eða lánsréttur fenginn á þau, þá skuli 2/3 lánanna greiddir út í stað 1/3 sem er út á fokheld hús yfirleitt. Það sýnir því að húsnæðismálastjórn styður mjög að því að aukin verði og efld þessi byggingarstarfsemi, og ég álít að hið sama eigi að koma frá ríkinu varðandi þetta atriði og það gildi sömu reglur um byggingu þessara eininga, þó að það sé gert innan fjögurra veggja. Því er þetta frv. flutt.

Ég vil svo, herra forseti, óska eftir því, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.