29.04.1977
Efri deild: 76. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3995 í B-deild Alþingistíðinda. (2979)

237. mál, söluskattur

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Þessar ábendingar hv. þm. eru allar fyllilega réttar og eiga rétt á sér. Það er vissulega rétt hjá honum, að menn mættu gjarnan í öllu þvarginu og þrasinu út af tekjuskattinum huga örlítið betur að þessari skattheimtu og ýmsu ranglæti sem viðgengst þar. Það er nú svo einkennilegt með okkur, að þessi skattheimta eins og hverfur hjá fólki á meðan það lítur miklu stærri augum á þá skattheimtu sem er ekki nema brot af þessu. Væri betur að við hv. þm. gætum, þó síðar væri, sameinast um að breyta því fyrirkomulagi á þann veg, að hinir beinu skattar yrðu ríkari í innheimtunni, en jafnframt réttlátari, en hinir óbeinu, eins og söluskatturinn, yrðu þá þeim mun lægri. Ég tek fyllilega undir það með hv. þm.

Um það, hvernig ég orðaði þetta, þá er alveg rétt, sem hv. þm, tók fram, að þetta nær yfir víðara svið. En ég lenti í örlitlum vandræðum með þetta mál vegna þess, eins og við vitum báðir, að svona hús eru smíðuð austur á landi hjá okkur og það er varla hægt að segja að þau séu framleidd í verksmiðju. Það er erfitt að segja það. Ég veit ekki hvað á að kalla það, má segja verkstæði eða starfsstöð, eins og nefnt er í frv., og því er þetta þarna komið inn. En ég tek alveg undir það, að þarna verður að finna einhverja millileið ef mögulegt væri að fá þetta samþ. En orðið „verksmiðja“ náði ekki beint til þessa fyrirtækis sem ég hafði þarna alveg sérstaklega í huga, og því setti ég þessi orð þarna: verkstæði eða starfsstöð, inn í, en skal alveg taka undir það, að hér er einungis um að ræða leiðréttingu á þessu misrétti varðandi húseiningarnar, en ekki að ég ætlaði að undanþiggja söluskatti eldhúsinnréttingar og annað slíkt, þó að þar sé vissulega um visst misrétti að ræða líka. Aðalatriðið er þetta sem lýtur að húseiningunum.