04.11.1976
Sameinað þing: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

7. mál, ferðafrelsi

Flm. (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki neinar aths. að gera við ræðu hæstv. utanrrh. Hann tók þessari till. minni mjög skynsamlega að mínu mati og taldi rétt að það yrði unnið málefnalega að henni í utanrmn., og ég vænti þess að það verði gert. Hann greindi frá því að sams konar skipan á ferðafrelsi og er núna á milli Íslands og Bandaríkjanna væri einnig milli Íslands og Ástralíu. Ég hafði ekki vitað þetta og þykir fróðlegt að heyra það, og ég sé satt að segja ekki nokkra minnstu ástæðu til þess að við höfum aðrar reglur handa áströlskum þegnum en Ástralía gagnvart íslenskum þegnum. Ég tel að þar eigi að vera um fulla gagnkvæmni að ræða.

Hv. þm. Jóhann Hafstein gerði nokkrar aths. og taldi að það væri ekki um gagnkvæmni að ræða við Austur-Evrópuríkin nema tvö. Þetta er alger misskilningur. Þau Austur-Evrópuríki, sem leggja hömlur á ferðir íslendinga, það yrðu lagðar sams konar hömlur á ferðir þegna þeirra ríkja til Íslands, það væri gagnkvæmni. Það er ekki það sem ég er að keppa að. Minn áhugi er fullt ferðafrelsi. En þegar önnur ríki setja hömlur á ferðir íslendinga, þá eigum við að setja sams konar hömlur á ferðir þegna þeirra ríkja. Og hetta gildir í samskiptum við Austur–Evrópuríkin öll.

Hv. þm. nefndi það, að sendiherrar hefðu takmarkað ferðafrelsi í Sovétríkjunum, og ég hygg að það sé alveg rétt. Það má vel athuga það, finnst mér, af utanrrh. okkar ef ríki beita sendiherra Íslands einhverjum slíkum takmörkunum, hvort ekki á að beita sendiherra þeirra ríkja hliðstæðum takmörkunum. Ég vil að alltaf sé um að ræða gagnkvæmar reglur, og þessari till, minni er einvörðungu ætlað að leggja áherslu á það, þannig að almennar hugleiðingar hv. þm um ástand í mismunandi ríkjum á varla heima undir þessum líð.

Ég tók eftir því, að hv. þm. minntist á þær annarlegu og ég vil segja dónalegu hömlur sem lagðar voru á nefnd Alþingis sem fór til Vesturheims í boði Kanadastjórnar. Mér þætti afar fróðlegt að heyra einhvern nefndarmanna lýsa því hér, hvaða reynslu þeir urðu fyrir af bandarískum stjórnvöldum. Það var satt að segja engin virðing við Alþingi íslendinga eða íslendinga í heild hvernig þeirri framkomu var háttað, og það var einmitt það sem var tilefni þess að ég flutti þessa till. Ég tel að við íslendingar eigum ekki að láta leika okkur þannig, að það sé lítið á okkur sem einhverja annars flokks þjóð í viðskiptum við aðra. Við eigum að beita sömu reglum og þær beita.