29.04.1977
Neðri deild: 79. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4000 í B-deild Alþingistíðinda. (2995)

21. mál, leiklistarlög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það er eins ástatt um þetta frv. og það sem ég mælti fyrir hér áðan, að það var lagt fram í Ed. og hefur verið afgreitt þaðan, að ég hygg einróma. Hins vegar var þetta frv. lagt. fram snemma á þessu þingi, en frv. um Skálholtsskóla er síðar fram komið.

Um aðdraganda þessa máls og undirbúning þess, fyrst og fremst um aðdragandann að þess­ar í frv.-gerð, leyfi ég mér að vísa til þeirra aths., sem prentaðar eru með frv., og þess nál. mþn., sem þar fylgir einnig.

Þessu frv. er ætlað að marka í megindráttum hversu haga beri stuðningi ríkisvalds og sveitar­félaga við leiklistarstarfsemina í landinu. Í því eru hins vegar engin fyrirmæli um fjárhæðir framlaga, en gert er ráð fyrir að þær verði ákveðnar í fjárlögum ríkisins og fjárhagsáætlunum sveitarfélaga hverju sinni.

Annað meginatriði frv. er að stofna leiklistarráð með aðild þeirra sem ætla má að einkum láti leiklist til sín taka. Ráðinu er ætlað, eins og segir í frv., að vera vettvangur skoðana­skipta og umr. um leiklistarmál og stuðla að stefnumótun á því sviði á hverjum tíma. Þá er gert ráð fyrir því, að leiklistarráð kjósi þriggja manna framkvæmdastjórn.

Enginn verulegur kostnaður mundi fylgja þess­ari lagasetningu, aðeins framkvæmdastjórnin fengi greidda þóknun og greiða yrði ferða­kostnað í sambandi við fundi.

Um þessar mundir er töluvert mikil — ég held að óhætt sé að segja mikil gróska í leiklistarstarfsemi íslendinga, margs konar, bæði starfsemi atvinnufólksins, fagmannanna, og á­hugaliðsins einnig. Og þegar þannig er ástatt virðist mér fyllilega tímabært að setja ramma­ löggjöf um stuðning hins opinbera við leiklistina og jafnframt efna til starfsemi á borð við þá sem áformað er að leiklistarráð og fram­kvæmdastjórn þess hafi með höndum.

Herra forseti. Ég vil svo leggja til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. menntmn. Og ég vil nú segja sama og ég sagði áðan, að ég vil leyfa mér að vænta þess, þó að málið komi seint til hv. d., — það er búið að liggja lengi fyrir Alþ., — að hv. menntmn. og hv. d. sjái sér fært að greiða fyrir framgangi þess.