29.04.1977
Neðri deild: 79. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4001 í B-deild Alþingistíðinda. (2996)

21. mál, leiklistarlög

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Þetta mál er 21. mál Ed. og hefur því verið æðilengi til meðferðar í þeirri hv. d., og menntmn. þeirrar d. mælti með samþykkt þess óbreytts. Ég held að þetta frv. hefði þó þurft nánari athugunar við. Ef ég man rétt fjallaði þál. sú, sem er hvati þessa frv., um fjárhagslegan stuðning við leiklistarstarfsemi fyrst og fremst. Hins vegar er komið inn í frv. þetta heilmikið ráð sem heitir leiklistarráð.

Ég geri fyrst og fremst aths. við 1. liðinn í 4. gr., þar sem greint er frá hlutverki þessa leiklistarráðs. Þar segir, með leyfi forseta, að þessu leiklistarráði sé ætlað „að vera vettvangur skoðanaskipta og umræðna um leiklistarmál og stuðla að stefnumótun á því sviði á hverjum tíma“. Það getur í sjálfu sér ekki skaðað þótt fjölmennt leiklistarráð komi saman og skiptist á skoðunum. Hitt tel ég mjög varhugavert, að setja í lög að það skuli stuðla að stefnumótun á sviði leiklistarmála. Hér er að mínu viti um allt of víðtækt ákvæði að ræða og óskilgreint. Ef það stendur svona í frv., þá er hætta á að leiklistarráð gæti misskilið hlutverk sitt, að það ætti að fara að búa til eitthvað sem héti opinber stefna í leiklistarmálum sem skyldi ráða, án tillits til hvað hinn einstaki rithöfundur eða listamaður teldi sjálfur. Ég mun því leggja til í n. að þessi liður falli niður.