04.11.1976
Sameinað þing: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

7. mál, ferðafrelsi

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Þetta var undarleg ræða hjá hv. síðasta ræðumanni, í meira lagi undarleg og skýrt dæmi þeirrar lágkúru í stjórnmálaumr. sem á sér stað á Íslandi. Hér er flutt till. um gagnkvæmt ferðafrelsi, till, um það að íslenskir ríkisborgarar fái þau réttindi í Bandaríkjunum sem bandarískir þegnar hafa hér á landi. Hv. flm. hefur tekið það fram, að ef þar skorti á í samskiptum við önnur ríki, þá gildi till. hans að sjálfsögðu einnig um það. En þá bregður svo við að það má ekki nefna ófrelsi í Bandaríkjunum — það á að vera réttlætanlegt bara af því að mannréttindi eru skert annars staðar. Með þessu er verið að reyna að ógilda alla víðleitni hér á Albingi íslendinga til þess að auka mannréttindi (EBS: Þm, hefur ekki hlustað á ræðuna.) Ég hlustaði á hana, ég er að ræða um hana m.a. Það er þessi málflutningur sem gerir það að verkum að íslendingar stiga aldrei fyrsta skrefið.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Jóhanni Hafstein, að það eru forkastanleg höft á ferðafrelsi í Sovétríkjunum. Það er bara spurning hvort við íslendingar getum lagað það, en við getum fordæmt það. En með þessari till., með því að taka á henni eins og menn, ef alþm. taka á henni eins og menn, gætum við þar með tekið fyrsta skrefið og kannske upprætt a.m.k. eina tegund af ófrelsi sem viðgengst og við höfum látið yfir okkur ganga. Ef við komum á gagnkvæmum réttindum t.d. í ferðafrelsi milli bandaríkjamanna og íslendinga, þá er þar e.t.v. komið fordæmi sem væri ómetanlegt fyrir aðra.

Hitt er annað mál, að ég býst ekki við því, ég hef ekki reynslu af því a.m.k. að ég hafi verið spurð að því í nokkru sendiráði þegar ég hef ætlað til útlanda hvaða stjórnmálaskoðanir ég hafi, nema sendiráði Bandaríkjanna. Þar gildir enn sú regla að íslenskir þegnar eru teknir til yfirheyrslu og þeir eru spurði að því og látnir skrifa undir að þeir séu ekki geðveikir, þeir séu ekki með kynsjúkdóm og þeir séu ekki kommúnistar. Slíkt framferði held ég að ekkert ríki nema Bandaríkin mundi leyfa sér að gera nokkurs staðar. Þetta gildir enn, og ég held að það sé kominn tími til að Alþingi íslendinga stöðvi þessa óhæfu, þetta ósæmilega framferði bandaríkjamanna sem kenna sig við frelsi og lýðræði.

Hitt er annað mál, að eftir að ég varð þm. hef ég ekki þurft að gangast undir slíka yfirheyrslu. En mismunun hefur komið fram á annan hátt, og ég bið hv. þm., sem vilja veg Alþingis, að hlusta nú vel á. Ég hef verið fulltrúi á þingi Sameinuðu þjóðanna, og það hefur komið í ljós að sú vegabréfsáritun, sem ég hef fengið sem þm. Alþb., að vísu heftir hún ekki ferðafrelsi mitt innan Bandaríkjanna, en hún hefur varað svo skammt að ég hef orðið að hypja mig aftur úr landi svo til um leið og þingi Sameinuðu þjóðanna er lokið, en þm. annarra flokka hafa sumir mátt valsa þar um í tvö ár og sumir allt að því ævilangt. Ég held að það sé þess vegna sem hv. þm. Alþfl., Jón Árm. Héðinsson, var sá eini sem komst klakklaust heim gegnum Bandaríkin í þeirri sendiför sem hér hefur verið gerð að umtalsefni. Við hin höfðum ekki vegabréfsáritun eða leyfi til að dveljast ævilangt í Bandaríkjunum og allra síst ég.

Þegar þm. komu til New York á leiðinni til Kanada í boði kanadíska þingsins, þá kom í ljós að við höfðum ekki áritun, ekki leyfi til þess að skima um flugvél í Bandaríkjunum. Á útleið þurftum við að vísu að gista, og það var fyrir velvild embættismanns á flugvellinum að hann leyfði okkur góðfúslega að gista. Í stað þess að vera flutt upp í flugvél eins og hver annar farmur fengum við að gista á útleið.

Í bakaleiðinni þurftum við ekki nema stansa — ég varð raunar viðskila við hina og varð degi lengur í Kanada — ég þurfti að stansa í 6 klukkutíma, ég þurfti ekki út af flugvellinum, en samt þurfti ég vegabréfsáritun. Það er ekki komið svona fram við bandaríska þegna hér á landi. Hér mega þeir vera 3 mánuði að skemmta sér án þess að nokkrar hömlur séu lagðar á. Þeir þm. aðrir, sem með mér voru, voru það óheppnir að þeir voru komnir út á flugvöll, höfðu enga aðvörun fengið, eins og ég hafði þó getað fengið fyrir velvild þeirra, — þeir voru komnir út á flugvöll. farangur þeirra var kominn upp í vélina, en þeir voru stöðvaðir og sendir eins og hundar til baka, vegna þess að þeir höfðu ekki áritun og þar af leiðandi ekki leyfi til þess að skipta um flugvél og stansa á Kennedy-flugvelli í 4 klukkutíma, Þannig var meðferðin á íslenskum þm. í boði kanadíska þingsins.

Ég var að því leyti lánsamari, að ég gat útvegað mér áritun áður en ég fór til á flugvöll, þannig að ég var ekki rekin til baka. En það kostaði mig talsverða áreynslu og talsverða vinnu að fá vegabréfsáritun í bandaríska konsúlatinu í Toronto áður en ég fékk að halda áfram. Þar var þannig tekið á móti mér að mér var sagt að fara í eina af fjórum löngum biðröðum. Ég átti pantað far með flugvél heim til Íslands um kvöldið, en ég sá fram á, ef ég átti að fara í einhverja þessara biðraða, kæmist ég ekki fyrr en einhvern tíma og einhvern tíma, svo að ég notaði mitt tromp, ef ég mætti kalla það svo, ég barði í borðið og sagðist vera hér í boði kanadiska þingsins og ég mundi ekki sætta mig við slíkt framferði af hálfu bandaríkjamanna. Það var aðeins vegna þessa sem ég komst heim þennan dag, auk þess sem ég fékk áritun þennan dag. En mér varð hugsað til almennings, til þess fólks sem getur ekki barið í borðið og sýnt fram á að það sé í opinberu boði, sem er ekki í boði kanadiska þingsins eða kanadískrar ríkisstj. Það hefði kostað margra sólarhringa dvöl og mikla peninga, sem það hefði e.t.v. ekki átt til. Þannig getur farið vegna þessara reglna sem íslendingar nú sætta sig við.

Ég vil eindregið hvetja hæstv. utanrrh. og hv. utanrmn. til þess að taka þetta mál föstum tökum. Og ég ítreka það sem ég sagði í upphafi, að það, að við getum ekki lagað ófrelsi hvar sem er á jarðarkringlunni, á ekki að koma í veg fyrir að við gerum þann sjálfsagða hlut sem felst í þessari tillögu.