30.04.1977
Efri deild: 79. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4024 í B-deild Alþingistíðinda. (3029)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. minni hl. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Þar sem samkomulag náðist um það í heilbr.- og trn. að efnislega yrði það ákvæði, sem ég flutti hér áðan við 3. umr., tekið upp í brtt. frá okkur, þá dreg ég brtt. mína til baka, en stend ásamt öðrum nm. í heilbr.- og trn. að þessari breytingu sem ég tel vera efnislega staðfestingu á því sem ég var að fara með áðan. Ég vil samt bæta hér örfáum orðum við út frá því sem hv. 2, þm. Vestf. sagði áðan.

Það kom í ljós í umr. hér í gær, við 2. umr., mjög ljóslega, að það hafði ekkert verið aðhafst í því efni að framkvæma þetta ákvæði til bráða­birgða sem hér var um að ræða, og hæstv. heilbr.- og trmrh., sem hingað kom í d. og þetta mál fellur undir, gat heldur engar upplýsingar gefið okkur um hvað mundi verða gert og hvaða ráð­stafanir yrðu hugsanlega gerðar til þess að það ákvæði, sem var sett inn í frv. í Nd., kæmist í framkvæmd. Vekur það vægast sagt vissar grun­semdir og vissa hræðslu okkar við að örlög þessa ákvæðis verði álíka nú og var síðast þegar þetta var sett.