30.04.1977
Efri deild: 80. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4027 í B-deild Alþingistíðinda. (3035)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það má vel vera að sá fréttaflutningur, sem hér hefur verið gerður að umtalsefni, hafi ekki tekist eins vel og menn hefðu viljað og þá eink­um þeir sem hlut áttu að máli. En ég vil í fyrsta lagi benda á það, að það hlýtur að vera ákaflega erfitt fyrir einn fréttamann að fylgjast með umr. í tveimur deildum þar sem fundir fara fram samtímis. Í öðru lagi vil ég benda á það, sem raunar kom fram hjá hv. 1. landsk. þm., að vinnuskilyrði eru hér erfið. Og í þriðja lagi vil ég benda á það, að ég tel að yfirleitt hafi frétta­flutningur héðan verið sanngjarn. Mannleg mis­tök geta alltaf átt sér stað, og það veit ég að bæði gamlir og nýir fréttamenn hljóta að viður­kenna.

Út af því, sem hér hefur verið sagt, að menn ættu að fá tækifæri til þess að yfirfara ræður sínar áður en farið væri að vitna til þeirra, þá hygg ég að það mundu þykja næsta slæleg vinnubrögð að bíða 3–4 og upp í 5 daga með að segja frá ræðum manna. Ég er ekki viss um að þm. yrðu ánægðir með það, ef þau vinnubrögð yrðu tekin upp. Ég held að við verðum að sætta okkur við það, að vitnað sé til þess sem við segjum. A. m. k. hef ég orðið að þola það og við fleiri og hygg að þau vinnubrögð verði að viðhafa. Hitt má vera, að það sé rangt og óleyfi­legt, — ég hef ekki kynnt mér það, ég tel víst að hv. 5. þm. Norðurl. e. viti það sem hann sagði hér áðan, — að það sé ekki heimilt að vitna orðrétt eða af segulbandi í ræður manna. En mér fannst ástæða til að segja þessi fáu orð vegna þess að ég geri mér ljóst að fréttaflutningur í fjölmiðlum er vandasamt verk og að mistök geta átt sér stað og menn verða að sýna örlítið umburðarlyndi í þessu efni.