30.04.1977
Efri deild: 80. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4028 í B-deild Alþingistíðinda. (3037)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Mér láðist að taka það fram áðan, en fékk eigin­lega tilefni til þess núna og það er rétt að gera það, að ég er hér um bil alveg viss um það, að enginn mun rækja þingfréttastarf fyrir Ríkis­útvarpið þannig að allir verði ánægðir með það. Ef einhver þingfréttaritari gerði tilraun til slíks, að gera það þannig að allir yrðu ánægðir með það, og setti sér það mark, þá yrði starfið unnið ákaflega illa, það er ég viss um. En það, sem gerðist í gærkvöld, er fyrst og fremst það, að það er brotinn réttur, ekki á okkur fyrst og fremst sem þm., heldur á okkur sem þegnum til þess að ráða því sjálfir hver orð okkar eru notuð sem útvarpsefni og hver ekki. Ég verð nú að segja alveg eins og er, að af því að ég hef þrátt fyrir allt dálitla reynslu í því að vinna með segulbönd og klippa segulbönd og útbúa útvarpsþætti, þá hygg ég að það sé eitt af fyrstu atriðunum, sem að er gáð þegar klippt er mál manna úr umr., að saman fari spurningar og svör. Þetta er talsverð yfirleguvinna, þetta er handavinna, tekur talsvert langan tíma að vinna þetta, og þetta starf þarf aðgætni. En hvernig svo sem til tekst um klippinguna eða útbúnaðinn til útvarps, þá er þetta staðreynd, að það hefur enginn heimild til þess að ganga í segulböndin hérna efra og taka þar með orð úr munni okkar sem ekki eru ætluð til útvarps, sem eru ætluð til flutnings hérna í þessari hv. d., og útvarpa þeim síðan fyrir alþjóð. Til þess hefur enginn heimild. Og það er enginn bær um að veita slíka heimild nema ræðumenn sjálfir. Hér hefur verið að því leyti til farið freklega út fyrir það svið sem þingfréttaritara útvarpsins er ætlað.

Eins og ég sagði í ræðu minni áðan, ætla ég ekki að fara að rekja hér þá gagnrýni sem ég hef þegar komið á framfæri við hlutaðeigandi fréttamann sem hefur ekki möguleika á því að svara fyrir sig hérna í d. En ég er út af fyrir sig ekkert hissa á því, þó að ráðh., einn eða fleiri, séu allánægðir með störf fréttaritarans.