30.04.1977
Efri deild: 80. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4028 í B-deild Alþingistíðinda. (3038)

Umræður utan dagskrár

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég heyrði ekki þennan þátt, en ég reikna svo sem alveg eins með því að ég hafi komið þarna við sögu eins og aðrir þeir sem hér hafa tekið til máls, og ég held að ég sé ekkert hræddur við það, sem þar hefur komið fram frá minni hendi, og þurfi ekki að vera neitt hræddari um það, þó að það hafi í útvarp komið, en þótt það hafi verið sagt hér í hv. d. Ég held að ég sé ekkert skelkaðri við það, nema það ber auðvitað meira á því, ef maður flytur hér lélegar ræður og heldur tætings­legar, þegar það er komið í útvarp, það skal játað. Þess vegna kemur það sér kannske illa fyrir mann, ef maður hefur flutt mjög lélega ræðu, að hún komi svo á tætingi í útvarpi þar á ofan. Mín ræða við þetta tækifæri var ekki þannig samin að ég geri ráð fyrir því að hún hafi orðið mér neitt til sóma eða framdráttar í þessu efni, þó að ég hefði fyllilega þolað það að öðru leyti.

Hins vegar skal ég játa það, að ég tek undir með þeim sem hér hafa talað um það, að auðvitað er nauðsynlegt að afla sér leyfis til þess að flytja í útvarp það sem hér er sagt. Það er hins vegar tvímælalaust og treysti ég að það verði gert framvegis, þó að ég segi það enn og aftur, að við eigum vitanlega að þola að það fari í útvarp sem við segjum hér í hv. d., og veit að allir eru sammála um það. Það eigum við vitanlega að þola og eigum ekki að þurfa að fara í að snurfusa orðalag og jafnvel meiningar til þess í raun og veru að falsa þetta í þingtíðindum. (Grípið fram í.) Það er líka allt annað mál, sem ég ætla einnig að koma að. Svo getur þetta auðvitað verið flutt á þann hátt að verulegum misskilningi valdi, og það er vitan­lega vitavert. En það var nú vikið að hinu áðan líka, í sambandi við þessa snurfusun, sem væri kannske nauðsynleg og er auðvitað nauðsynleg, þó að hún megi ekki taka að mínu viti til meiningar í þessu efni.

En ég skal aðeins taka það fram, að ég er á því að þingfréttaritara útvarpsins, hver sem hann er, sé alltaf nokkur vandi á höndum. Núverandi þingfréttaritari hefur unnið að mínu viti margt vel, annað ekki eins vel, eins og gengur. Og ég hygg t. d. að í sambandi við fréttir af umr. hér sé það fréttastofan sjálf og forstöðumaður hennar sem ber þar á höfuðábyrgð, því að áreiðanlega skilar þingfréttaritari frá sér miklu ítarlegri og gleggri frásögn en tekin er. Ég tek t. d. eftir því, að á þessu verður töluverður munur oft milli hljóðvarps og sjónvarps, mjög mikill munur oft, og þá verð ég að líta svo á að þar sé það sá fréttamaður, sem tekur við þessu efni frá þingfréttaritaranum og er hjá sjónvarpinu, sem beri ábyrgð á þeirri styttingu og oft þeirri breytingu sem þar kemur fram mjög glögglega. Þær fréttir eru oft ófullkomnar. Stundum eru þær nákvæmari, en oftast nær þó ófullkomnari, m. a. að því er tekur til þess atriðis sem einn hv. þm. vék hér að áðan, hverjir hefðu tekið til máls og hverjir ekki, því að vitan­lega er það rétt, að annaðhvort á það að koma fram um alla eða þá enga.

Það er hins vegar rétt sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, hvers sök sem það er því að þar er um sök að ræða, að það er ekkert smáræði sem oft er haft eftir ráðh. okkar hérna, það er gífurlegt að fyrirferð oft og tíðum og oft ekki í fullu samræmi við gildi þess sem þar er sagt.