04.11.1976
Sameinað þing: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

7. mál, ferðafrelsi

Flm. (Magnús Kjartansson):

Hæstv. forseti. Í framsögu minni áðan gerði ég grein fyrir því, hvernig bandarísk stjórnvöld á Íslandi hafa skipulagsbundið njósnað um íslendinga og komið sér upp spjaldskrá yfir íslensku þjóðina og skoðanir manna.

Í þeim löngu umr., sem hér hafa orðið, hefur enginn víkið að þessu atriði sem er þó ákaflega mikið grundvallaratriði í sambandi við þetta mál. Þarna hafa verið unnin óhæfuverk sem íslensk stjórnvöld hefðu ekki átt að una, og ég veit ekki betur en þessi óhæfuverk séu unnin enn þá. Þau voru ekki aðeins unnin með því að safna upplýsingum á þann hátt sem ég gerði grein fyrir áðan, heldur einnig með símahlerunum. Ég hef orð eins helsta stjórnmálaleiðtoga, sem hefur verið uppi á Íslandi á þessari öld, fyrir því m.a. að það var lengi hlustað á minn síma. Að þessu hefur enginn maður vikið. Það er þetta sem er eitt dæmið um þann óhemjulega skort á gagnkvæmni sem er í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna.

Þegar Bandaríkin beittu sér sjálf fyrir því að þegnar þeirra fengju að ferðast án sérstaks leyfis stjórnvalda til Íslands og annarra ríkja sem voru í NATO, þá birtist í því herraþjóðarsjónarmið. Þeir vildu hafa sérréttindi til að ferðast til þessara ríkja, en þeir vildu ekki veita þegnum þessara ríkja sömu réttindi í Bandaríkjunum. Ég er andvígur því að enn þá sé lotið að þessu herraþjóðarsjónarmiði.

Mér þótti ákaflega leiðinlegt, að heyra á máli sumra manna hvað mikið er enn eftir í þeim af viðhorfum kalda stríðsins. Mér þótti það einna sárast í ræðu Ellerts B. Schram, vegna þess að í fyrsta skipti sem ég veitti Ellert B. Schram athygli, þá var það í þeirri grein sem hann skrifaði í Stefni þar sem hann lagði einmitt áherslu á að íslendingar ættu að koma fram af manndómi í skiptum við Bandaríkin. Nú getur hann ekki einu sinni tekið undir sjálfstæða till., sem ekki er, í efni sínu erting út í einn eða neinn, heldur er orðinn algjörlega gagntekinn af viðhorfum kalda stríðsins. Kannske hlýst þetta af því að vera þm. fyrir Sjálfstfl. í nokkur ár, að menn missa öll heilbrigð og eðlileg viðhorf sem þeir höfðu þá áður.

Það hafa ýmsir tekið undir það með mér að framkoma bandarískra stjórnvalda við þingnefnd Alþ., sem var að fara í opinbera heimsókn til Kanada, hafi verið ósæmileg. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. hvort nokkuð hafi verið gert af hálfu íslenskra stjórnvalda til að mótmæla þessari framkomu. Ég tel að það hafi verið skylda íslenskra stjórnvalda að láta ekki óvirða Alþingi íslendinga á þann hátt sem þarna var gert. En á hitt vil ég jafnframt leggja áherslu, að ég tel ekki að þm. eigi að hafa nein sérréttindi á þessu sviði. Þær reglur, sem gilda, eiga að gilda um landsmenn alla. En þetta var óvirðing við Alþingi íslendinga sem þeir fulltrúar, sem við höfðum sjálfir valið, urðu þarna fyrir.

Það er ósköp auðvelt að færa öll mál, sem hér er rætt um, yfir á svið kaldastríðsumræðnanna sem tíðkuðust hér á þingi fyrir 10 árum eða svo. Ég var satt að segja að vona að þær breytingar hefðu orðið hér á Íslandi að slíkt þyrfti ekki að endurtaka sig í almennri till. eins og ég flyt hér. En því miður hefur það gerst. Ég held að það sé kominn tími til þess fyrir allmarga þm. að reyna að uppræta hjá sér þessi ofstækisviðhorf sem þeir ólu með sér á tímum kalda stríðsins. Við störfum ekki á neinn eðlilegan hátt að stjórnmálum á Íslandi á meðan menn eru haldnir af illum anda slíks ofstækis.