30.04.1977
Efri deild: 80. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4033 í B-deild Alþingistíðinda. (3047)

234. mál, Iðnlánasjóður

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mér þykir sjálfsagt að verða við beiðni hæstv. iðnrh. að draga þessa till. til baka og hún komi til atkvgr. við 3. umr., og ég þakka mjög jákvæðar undir­tektir hæstv. ráðh. við efni till. Ég vona, þegar hún verður rædd við stjórn Iðnlánasjóðs, að menn geri sér grein fyrir að hér er opnuð leið til þess að mæta vaxandi þörf. Auðvitað er ekki hægt að gera neitt í þessu efni nema tryggja fjármagn. Það skeður með samstarfi stjórnar Iðnlánasjóðs, rn. og hæstv. ráðh. Hér er fram undan átak sem þarf að gera fyrr eða síðar, og það er þess vegna nauðsynlegt að hafa þetta í lögum sjóðsins, að það megi takast á við þetta verkefni með aðstoð sjóðsins, vegna þess að á öðrum vettvangi af hálfu ríkisvaldsins eru gerðar vaxandi kröfur um viss lágmarksvinnuskilyrði. Og það getur orðið viðkomandi fyrirtæki, þó að það hafi starfað jafnvel í áratugi, erfitt að svara þeim kröfum innan skamms tíma, sem oft er settur af hálfu ríkisvaldsins, nema eiga kost á sérstöku fjármagni til að verða við kröfum um endurbætur og þess háttar frá öðru rn.

Ég þakka sem sagt, af því að ég met mjög jákvæðar undirtektir hæstv. ráðh., og þykir ein­sýnt, að rétt sé að taka till. aftur til 3. umr.