30.04.1977
Efri deild: 80. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4034 í B-deild Alþingistíðinda. (3049)

159. mál, siglingalög

Frsm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Á þskj. 595 skilar sjútvn. áliti um þetta frv., sem er um breyting á siglingalögunum, og hún mælir eindregið með því að frv. verði samþykkt óbreytt. Hér er um að ræða hækkun í krónu­tölu talið á dánarbótum, eins og segir í 1. gr., bráðabirgðaákvæði:

1. Dánarbætur:

a) 2 millj. kr. við dauða, er greiðist nánustu vandamönnum og erfingjum hins látna.

b) Mánaðarlegar bætur til ekkju eða ekkils í 8 ár ber að greiða skv. a-lið 1. mgr. 35. gr. almannatryggingalaga.

c) Mánaðarlegar bætur til barna að 17 ára aldri, þó aldrei lengur en í 8 ár, ber að greiða á hverjum tíma samkv. c-lið 1. mgr. sömu gr.

2. Slysadagpeningar og örorkubætur:

a) Dagpeningar, sem greiðast eftir sömu reglum og dagpeningar samkv. 33. gr. almannatryggingalaga og nema 3/4 þeirrar fjárhæðar. Heildarupphæð dagpeninga skal þó aldrei nema meiru en þeim launum, sem hinn slasaði hafði fyrir slysið.

b) Ef slys veldur varanlegri örorku skal greiða örorkubætur. 6 millj. kr. við alger­lega varanlega örorku, en hlutfallslega við minni örorku.

Hér er sem sagt um hækkun á tölum að ræða miðað við fyrri tölur og er þetta algert samkomulagsatriði varðandi hagsmunasamtök, bæði varðandi sjómannasamtökin og útgerðaraðila, þannig að n. mælir einróma með, eins og gert var í Nd., að frv. verði samþykkt.