04.11.1976
Sameinað þing: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

7. mál, ferðafrelsi

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Mér þykir leitt að valda hv. 3. þm. Reykv, vonbrigðum. Hins vegar er mér alveg ómögulegt að skilja hvernig hann kemur kalda stríðinu inn í mína ræðu. Ég tók fram í þeirri stuttu ræðu sem ég flutti hér áðan, að ég teldi þær reglur sem í gildi væru hvað snertir ferðamenn til Bandaríkjanna, hlægilegar og ástæðulausar. En þar sem hv. fim. beindi öllu tali sínu að Bandaríkjunum, þá taldi ég mér rétt og skylt að benda á, að þegar verið væri að tala um ferðafrelsi, þá þyrftum við að líta til fleiri átta. (Gripið fram í: Er eitthvert annað ríki sem njósnar um íslendinga?) Ferðafrelsi er eitt og njósnir eru annað. Hv. þm. vék hér að símahlerunum og taldi það vera slæmt að enginn skyldi hafa gert þær að umtalsefni. Ég biðst nú afsökunar á því, að ég áttaði mig ekki á því að símahleranir væru einn þáttur í ferðafrelsi manna. Njósnir eru eitt og ferðalög eru annað, og ég held að það þurfi varla að ræða það lengi. Ég hugsa að hv. þm. sé fullljóst að við höfum mestu andstyggð á hvers konar símahlerunum og njósnum, það þarf ekki að taka það fram, það er hafið yfir allar umr., og þetta er ekkert annað en hreinn útúrsnúningur af hans hálfu. Ég vil hins vegar leyfa mér að halda því fram að allt tal hans um kalda stríðið sé vegna þess að hann vill endilega halda í það, ríghalda í það. Menn hafa rætt um þessa till., ferðafrelsi almennt og viðhorf til þess, og það hefur ekki nokkur maður minnst á kalt stríð nema þessi sami hv. þm. Ég hef ekki heyrt það annars staðar frá.

Hv. þm. Svava Jakobsdóttir taldi ræðu mína hafa verið undarlega og jaðra við lágkúru. Þetta var staðhæft án þess að færa að því nokkur rök. En skyldi það vera að henni hafi þótt þessi ræða, sem ég flutti hér áðan, vera lágkúruleg vegna þess að ég minntist á blóðbaðið í Ungverjalandi? Eða skyldi henni hafa þótt lágkúra hjá mér áðan vegna þess að ég talaði um mannréttindi þegar verið var að ræða um ferðafrelsi?

Ég vék áðan að þeim skilningi mínum á þessari till, að hún stangaðist á við meintan tilgang sinn, og ég heyri að hv, þm. Þórarinn Þórarinsson og Gylfi Þ. Gíslason hafa sömu skoðun á þessari till. og ég. Flm. og stuðningsmenn þessarar till. vilja nálgast þetta markmið, þ.e.a.s. ferðafrelsið, með því að leggja hömlur á ferðafrelsi annarra. Ég er þessari aðferð andvígur og tel að þetta geti ekki staðist. Við getum rifjað upp margar sögur hér. Við getum t.d. minnst á frásagnir íþróttamanna Júdósambands Íslands sem fóru á þessu ári, held ég, til Sovétríkjanna og urðu fyrir hinum herfilegustu viðtökum þar. (Gripið fram í.) Það var ekki skemmtileg lesning að lesa frásagnir þeirra. Vildu menn til þess að ná gagnkvæmu ferðafrelsi að menn tækju upp slíkar aðferðir hér af því að þeim er beitt annars staðar? Íslenskir ferðamenn hafa orðið vitni að því og hafa sjálfir haft reynslu af því að þegar þeir ferðast til ýmissa landa, þá eru eftirlitsmenn hafðir með þeim daga og nætur. Vilja menn, af því að það er gert annars staðar, að það sé tekið upp hérna líka? Ég hef sjálfur persónulega sögu að segja frá því þegar ég fór til Austur-Þýskalands árið 1974. Þá þurfti ég að senda vegabréf mitt með margra vikna fyrirvara með myndum og tilheyrandi skýrslum. Og ég þurfti að geta þess, hvenær ég kæmi til landsins og hvenær ég ætlaði út úr landinu aftur. Þegar ferðaáætlun mín breyttist þannig að ég ætlaði að fara deginum áður annars staðar út úr landinu heldur en upphaflega var ákveðið, þá kostaði það mig sólarhrings vafstur og málarekstur að fá þessu breytt og til þess að koma yfirvöldum þar í landi í skilning um að það væri full ástæða fyrir því að breyta þessari ferðaáætlun minni. Vildu menn að slíkt eftirlit yrði tekið upp hér á landi, af því að því er beitt annars staðar? Og með sama hætti get ég spurt núna: Af því bandaríkjamenn vilja endilega fá myndir og passa og vegabréfsáritun þegar við íslendingar ferðumst þangað, eigum við þá endilega að fara að gera það líka? Ég sagði það sem skoðun mína áðan og ég tek undir það sem fram hefur komið hjá tveim hv. þm., Þórarni Þórarinssyni og Gylfa Þ. Gíslasni, ég held að við eigum ekki að beita þessum aðferðum, heldur eigum við að reyna að stuðla að ferðafrelsi í heiminum með öðrum og jákvæðari hætti. Þ. á m. minntist ég á þá staðreynd, að heilar þjóðir í þessari sömu álfu og við búum í hafa alls ekkert ferðafrelsi. Það er ömurleg, napurleg staðreynd, og það er full ástæða til að minnast á það þegar þetta mál er hér á dagskrá. Ég held að við íslendingar ættum þess vegna að reyna að stuðla að því að þetta fólk fái venjulegt ferðafrelsi, og við ættum hér á þingi að flytja till. í þeim anda, en ekki á þann veg að ferðafrelsi skuli komið á með því að tálma ferðir annarra.