04.11.1976
Sameinað þing: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 496 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

7. mál, ferðafrelsi

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég er nú búinn að segja það sem ég ætlaði að segja um sjálfa till. og stend þess vegna ekki upp til þess að endurtaka það. En í tilefni af þeim umr., sem orðið hafa um för sendinefndar Alþingis til Kanada og það sem henti sendinefndina á flugvelli í Bandaríkjunum, og þeirri fsp., sem hv. 3. þm. Reykv, beindi til mín, vil ég segja það alveg eins og er, að þessu hefur ekki verið mótmælt. Það má hugsanlega segja að utanrrn. hefði átt að taka sig fram um það óumbeðið þegar slík óvirðing er sýnd Alþingi. En það var ekki gert. Hins vegar kom engin beiðni frá neinum eða skýrsla til rn. um það sem þarna fór fram, og það fyrsta, sem ég vissi um það, var grein eftir hv. alþm. Svövu Jakobsdóttur sem birtist í Þjóðviljanum, minnir mig. Og það eina, sem ég gerði í tilefni af henni var að ég fann að þessu munnlega við sendiherra Bandaríkjanna. En það er auðvitað ekki hægt að kalla það mótmæli. Það má vel vera, eins og ég segi, að rn. hefði átt að taka það upp hjá sér að taka upp hanskann fyrir Alþingi. Þó má e.t.v. líka segja að Alþingi sé fært um að taka upp hanskann fyrir sjálft sig.