30.04.1977
Neðri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4041 í B-deild Alþingistíðinda. (3076)

165. mál, póst- og símamál

Frsm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Samgn. hefur fjallað um frv. þetta til l. um stjórn og starfrækslu póst- og símamála. Þetta er viðamikið mál og margþætt. Frv. er samið af n. sem samgrh. skipaði á útmánuðum 1973 til að gera allsherjarathugun á skipulagi og rekstri Pósts og síma.

Í grg. segir að elstu ákvæði um póstmál á Íslandi felist í tilskipun frá 13. maí 1776. Þar er ákveðið að póstþjónusta skuli kostuð af opin­beru fé og falla undir stjórn embættismanna, stiftamtmanns, amtmanna og sýslumanna. En um 1785 var þessi þjónusta komin í það horf sem hún hélst í síðan um 100 ára skeið, þ. e. a. s. þá var um að ræða tiltekinn fjölda ferða landpósta milli aðsetursstaða helstu embættismanna lands­ins.

Síminn er lagður hingað til lands og frá Seyðis­firði til Reykjavíkur árið 1906. Síðar voru þessar stofnanir, póstur og sími, sameinaðar. Það var samkv. l. nr. 40 frá 1929, að ákveðið var að sameina þær með rólegum hætti. En það þótti ekki ganga nógu fljótt, og lög voru sett nr. 8 frá 1935 um yfirstjórn Pósts og síma. Þar var yfirstjórnin sameinuð hjá einum embættismanni, póst- og símamálastjóra. En l. nr. 8 frá 1935 fjalla um skipulag Pósts og síma í víðri merkingu, en síðan hafa ýmsar heimildir samkv. þeim lögum verið notaðar og ráðh. kveðið á um nánari atriði í reglugerðum. Þessi gömlu lög frá 1935 eru enn í gildi og á þeim byggjast fyrirætlanir um þessi efni. En þessi stofnun heyrir nú samkv. 1. nr. 73 frá 1969, um Stjórnarráð Íslands, undir sam­grn., en frá 1935–1970 heyrði stofnunin beint undir ráðh. samgöngumála. — Þetta eru aðeins örfáir þættir úr sögu þessara mála.

Frv. þetta til nýrra laga um þessi efni var lagt fram fyrir alllöngu. Sá háttur var á hafður, að samgn. beggja d., Ed. og Nd., athuguðu málið á þrem fundum, en seinna tók samgn. Ed. málið alfarið í sínar hendur og það satt að segja hvarf sjónum samgn. Nd. um alllangt skeið, þar til nú fyrir örfáum dögum að n. fékk það í hendur til athugunar í þeim búningi sem því hafði verið skorinn í Ed. Ég bendi aðeins á þetta til þess að minna hv. þm. á, hvað það er oft hyggilegt og hagkvæmt að samkynja n. beggja d. fjalli um sama málið og ekki aðeins á fáum fundum, held­ur mun meira en gert er að jafnaði.

En á þessum þrem sameiginlegu fundum, sem haldnir voru, var frv. athugað. Í fyrsta lagi var rætt við höfunda þess og þeir spurðir ýmissa spurninga. Í annan stað komu formenn Starfsmannafélags Pósts og síma á fund n., þeir Ágúst Geirsson, formaður Félags ísl. símamanna, Björn Björnsson, formaður Póstmannafélags Íslands, og Gylfi Már Jónsson, formaður Félags háskóla­menntaðra póst- og símamanna. Þeir greindu frá viðhorfum sínum til þessara mála, sem vitanlega snerta þessa menn og samtök þeirra á ýmsan veg, og lögðu síðan fram skriflegar aths. og óskir í þessu máli. Ég hygg að einhverjar óskir þeirra hafi verið teknar til greina af hv. Ed.

Hv. Ed. gerði nokkrar breytingar á þessu frv., eins og kemur fram af skjölum málsins og málflutningi manna. Samgn. Nd. hefur nú athugað þetta mál nokkuð, en það kom fljótlega fram að nm. voru ekki ánægðir með þann skamma tíma sem þeir höfðu til að athuga frv. nánar. Það varð svo niðurstaðan eftir nokkrar umr. og vangaveltur, að n. féllst á að mæla með því að frv. yrði samþykkt óbreytt eins og það kom frá Ed. En það er að sönnu ekki sigurstranglegt að benda á það, að 3 af hv. nm., sem undirrita nál., rita undir það með fyrirvara. Einn þeirra, hv. þm. Karvel Pálmason, er ekki staddur í bæn­um nú, hann mun vera á Vestfjörðum. Og það er alveg rétt, að hann óskaði eindregið eftir því að umr. um þetta mál yrði frestað þangað til eftir helgi, til mánudags. Það er rétt, og ég kom þeirri ósk hans á framfæri við æðstu yfirvöld þessara mála, en hins vegar hefur málið verið sett á dagskrá í dag. Ég gat á hinn bóginn ekki skorast undan því að skýra málið sem frsm. n. En þetta er rétt og þetta skal koma fram, að hv. þm. Karvel Pálmason, sem undirritar nál. með fyrirvara, óskaði eftir að þessi umr. færi ekki fram fyrr en á mánudag, eftir helgi.

Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta. Ég geri ráð fyrir, að ýmsir nm., kannske flestir, hefðu viljað hreyfa einhverjum breytingum við það eða láta álít sitt í ljós um einstök atriði þess, og væntanlega greina þeir hv. alþm., sem hér eru staddir og undirritað hafa nál. með fyrirvara, frá því, í hverju sá fyrirvari er fólginn. En ég þarf ekki að hafa fleiri orð um frv. þetta fyrir hönd n. Ég hef skýrt frá því, sem rétt er, að meiri hl. hennar leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.