30.04.1977
Neðri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4043 í B-deild Alþingistíðinda. (3079)

165. mál, póst- og símamál

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. n. fyrir af­greiðslu á þessu máli, enda þótt undir nál. sé skrifað með fyrirvara sem hv. 9. landsk. hefur nú gert grein fyrir. Ég vil segja frá því, að ég skýrði frá því í hv. Ed. og reyndar samdi með þeim Ed.-mönnum breytingu á þessari gr. sem ég taldi afskaplega mikils virði sem stefnumörkun, en hins vegar yrðum við að gæta þess, hvað við værum að gera og ég hefði ekki handbærar upplýsingar og mundi ekki heldur geta fengið, hve mikla breytingu á tekjuöflun stofnunarinnar þetta gæti haft í för með sér, og þess vegna teldi ég mest um vert að lögin mörkuðu þessa stefnu, en reglugerðin tæki svo aftur mið af því að reyna að hraða framkvæmdinni eins og mögulegt er. Ég tel að það sé afar mikill ávinningur að hafa fengið þetta inn í lög og þrengri stakk megi lög ekki skera í svo miklu fjár­hagsmáli, því að þá vita hv. þm. ekki í raun og veru að hverju stefnt er.

Út af fyrirvara hv. 5. þm. Vestf., þá var ég búinn að reikna með því í gær að frv. kæmi ekki á dagskrá í dag og talaði við hann um að það mundi ekki tefja afgreiðslu þess á mánudag. Hins vegar náði ég í hann núna til að segja honum frá þessu. Ég hafði því miður ekki þá séð prentaða þskj. og sá því ekki fyrirvara hans. Hann tjáði mér að það væri allt í lagi þótt þessari umr. yrði lokið og 3. umr. yrði eftir, og jafnvel mundi hann ekki gera uppsteyt, þótt málinu yrði lokið. En eðlilegast er að ljúka þessari umr. og þá lýkur málinu á mánudag.