04.11.1976
Sameinað þing: 15. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

32. mál, nýting á lifur og hrognum

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Herra forseti. Ég og hv. 2, þm. Vesturl., Jón Árnason, berum fram till. til þál. á þskj. 32 um nýtingu á lifur og hrognum, en till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj., að hún hlutist til um að gerð verði hið fyrsta könnun á því, hvernig koma megi við fullnýtingu lifrar úr fiskafla landsmanna sem nú er að mestum hluta fleygt fyrir borð á skuttogaraflotanum.

Könnun þessi nái einnig til hrogna og feli jafnframt í sér athugun á hvernig bæta megi aðstöðu á fiskiskipum og í landi til nýtingar og vinnslu þessara verðmæta — sem og markaðsmöguleikum.“

Ýmsum mun þykja slík till, fram komin vonum seinna hér á Alþ. Fólki hefur blöskrað hvernig verðmætum upp á hundruð millj. kr. hefur á undanförnum árum og jafnvel áratugum verið fleygt fyrir borð á íslenskum fiskiskipum, sérstaklega nýju skuttogurunum. Ég veit að fjöldi íslenskra sjómanna og útvegsmanna er í hópi þeirra mörgu sem telja slíkt athæfi til hinnar mestu vanvirðu fyrir okkur og vilja bæta þar um. Og til þess er þessi till. borin fram, að könnun sú, sem þar er farið fram á, og úttekt á þessum málum í heild geti leitt til skipulegra aðgerða til úrbóta. Málið er þó vissulega ekki eins einfalt og það lítur út fyrir að vera. En hitt er alla vega ljóst, að enda þótt við teljum okkur nú hafa unnið fullnaðarsigur í landhelgismálum okkar með útfærslu okkar fiskveiðilögsögu í 200 mílur og viðurkenningu annarra þjóða á þeim takmörkum, þá verðum við að sýna stranga aðgát í veiðisókn okkar, sérstaklega gagnvart þorskstofninum sem er í bráðri hættu vegna ofveiði. Vísindamenn okkar á sviði fiskirannsókna og stjórnvöld eru á einu máli um að nauðsyn beri til að beina sókninni meir og meir að nýjum fisktegundum og draga þannig eða hindra áframhaldandi ofveiði þorsksins. Það verður jafnframt æ ljósara að okkur beri í senn efnahagsleg nauðsyn og siðferðileg skylda til að nýta öll verðmæti sjávarafla til hins ítrasta.

Í fróðlegu erindi, sem dr. Björn Dagbjartsson forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins hélt á ráðstefnu Fjórðungssambands norðlendinga í júní s.l. um nýtingu sjávarafla og nýjungar í fiskiðnaði, komu fram margar athyglisverðar upplýsingar. Hann benti í upphafi máls síns á það, sem við erum auðvitað algerlega sammála um, að nauðsyn ber til að nýta aflann betur sem magn hans minnkar. Hann minnti á að árið 1973 hefði iðnrh. skipað n. til að kanna grundvöll fyrir lyfja- og lífefnavinnslu úr sjávarafla, en þeirri iðngrein er spáð vaxandi gengi á næstu áratugum. Það þykir ljóst að notkun fiskúrgangs í lífefnavinnslu er að mestu óplægður akur og þarfnast mikillar undirbúningsvinnu og rannsóknar. En það eru ýmsar aðrar aukaafurðir fiskiðnaðar sem eru mun nær framleiðslustiginu. Þannig mætti nefna rækjuskel og humarúrgang. Árlega falla til um 5000 tonn af þess konar úrgangi frá vinnslustöðvum í landi, auk þess sem fleygt er í sjóinn af humarbátum, Litarefnið í rækjuskelinni, svo kallað contoxantín, er sama eðlis og litarefnið í holdi laxa, bleikju og annarra vatnafiska og er framleitt í stórum stíl erlendis og selt í blöndur í fiskbúðir um allan heim. Tilraunir hafa verið gerðar hér til að nýta holdið úr humarklóm og búkum og vinna úr því eins konar súpukraft.

Þá er það kúfiskurinn sem nú á síðustu árum hefur komið fram í dagsljósið aftur sem sjávarafurð. Fyrir um 25 árum voru gerðar alvarlegar tilraunir til að flytja út frosinn kúfisk héðan til Bandaríkjanna og svo aftur fyrir miðjan síðasta áratug. Það, sem aftraði sölu í fyrra skiptið, var það, að íslenski kúfiskurinn var ranglega sakaður um að vera valdur að matareitrun sem stafar af þörungum er skeldýrin nærast á. En áfram er unnið að rannsóknum á kúfiskinum, og ég hef alltaf verið bjartsýn á að það hljóti að koma að því að þessi matarmikli og girnilegi skelfiskur verði gjaldgengur til neyslu.

Þá minntist dr. Björn í fyrrnefndu erindi sínu á tilraunir sem verið er að gera með nýjar aðferðir við framleiðslu á svokölluðum hydrosilötum úr fiskslógi og úrgangsfiski í slógmjöl og er að efnasamsetningu svipað og þurrmjólk. Fyrir allmörgum árum var hér og töluverður áhugi á söfnun og sölu svilja. Vildi norskt fyrirtæki árið 1970 kaupa 800 tonn af frosnum sviljum til framleiðslu fyrir lyfjaverksmiðjur. Óhagstæður verðgrundvöllur þá mun hafa ráðið mestu um að ekki varð frekar úr þessum viðskiptum. En ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að taka upp þessa framleiðslu hvenær sem er. Mér koma í hug í þessu sambandi sögur frá gömlum sjómönnum sem þekktu til þess að stundum var hafður sá háttur á hér í gamla daga að hrogn og svil, ef hrognin voru ekki á annað borð nýtt, þ.e.a.s. ekki flutt til lands, þá voru þau kreist saman í bjóð, svilin sprengd og hrognin sömuleiðis, hrært saman og fleygt til sjávar aftur til þess að stuðla að góðu klaki og viðkomu þorsksins. Sennilega eru þessar aðferðir ekki viðurkenndar og hátt skrifaðar hjá vísindamönnum í dag, en hugsunin og tilgangurinn var vissulega góður.

Í þorskgalli eru líka verðmæt lyfjaefni, einkum hið svokallaða cortison, sem er m.a. gigtarmeðal. Á árunum 1951–1953 var safnað um 40 tonnum af þorskgalli hérlendis. Og árið 1975 var reynt að fá fiskframleiðendur til þess að safna galli, og útflutningsfyrirtæki bauð þá 300 kr. fyrir hvert kg, en enginn varð þó til þess að sinna því boði.

Dr. Björn bendir einnig á gífurlega markaðsmöguleika á gæludýramat unnum úr fiskmeti. Bandaríkjamenn kaupa árlega hunda- og kattamat fyrir 2 milljarða dollara og bretar fyrir 60–70 milljónir punda. Segja má að okkur stæði auðvitað nær að hugsa um mannfólkið sem deyr úr sulti, en meðan hundar og kettir þykja eftirsóknarverð húsdýr, þá þurfa þau líka sína fæðu og þess vegna er þessi markaður enginn hégómi.

Svo er það grásleppuhveljan sem hér kemur einnig við sögu, en rannsóknir þar eru það stutt á veg komnar að erfitt er að fullyrða um möguleika á því sviði. Grásleppan hefur víst verið hálfgerður vandræðafiskur eftir að búið er að taka úr henni hrognin, m.a. vegna þess hve vatnsinnihaldið í fiskinum er hátt og eggjahvítuefnin léleg, svo að meira að segja mjölvinnsla úr henni þykir hæpin. Hins vegar hefur manni ofboðið að sjá allt það feiknamagn af grásleppu sem fleygt er í sjóinn að hrognavinnslunni lokinni. Að sjálfsögðu þarf að kanna áfram möguleika á því að nýta hana betur.

Ég hef hér að framan aðeins til fróðleiks rakið þessar upplýsingar frá forstöðumanni Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins um ýmiss konar möguleika á nýtingu sjávarafla og fiskúrgangs, þó að það snerti ekki beint efni þessarar till. um nýtingu á lifur og hrognum.

Dr. Björn bendir í lok þessa erindis síns réttilega á að lifur og hrogn eigi alls ekki að vera umtöluð í sömu andrá og ýmsar aukaafurðir eða nýjungar í fiskiðnaði, svo mikil vissa sem er fyrir ágæti þessara afurða og löng reynsla af nýtingu þeirra hér. Það er auðvitað fyrst og fremst þegar kemur að lifrinni og hrognunum sem okkur setur hljóða gagnvart þeirri staðreynd að þessum fiskverðmætum skuli að verulegum hluta vera fleygt fyrir borð á íslenskum fiskiskipum. Ég hef aflað mér upplýsinga um þessi mál frá öllum þeim aðilum sem ég tel eiga hlut að máli, Fiskifélagi Íslands, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Sölustofnun lagmetis, lýsisframleiðendum og útvegsmönnum og sjómönnum, og hefur hvergi verið mótmælt þeirri staðhæfingu að árlega sé kastað fyrir borð af íslenskum fiskiskipum um 10 þús, tonnum af lifur. Þjóðarbúið tapar auðvitað margfalt meiri verðmætum ef hráefnið, lifrin, væri unnið. Þannig tjáir mér forstjóri Lýsis hf., Pétur Pétursson, að í dag sé verðið fyrir tonnið af hreinsuðu lýsi 67 þús. kr, og rúmlega það — 67 þús, kr. fyrir hvert tonn af hreinsuðu lýsi.

Það gegnir nokkuð öðru máli um hrognin. Þeim er ekki fleygt í nálægt því eins miklum mæli og lifrinni, enda er verðmæti þeirra um þrefalt á við lifrina og mun auðveldara, að því er virðist, að geyma hráefnið heldur en lifrina. Hraðfrysting og söltun á hrognum virðist ekki vera neitt tæknilegt vandamál, þar sem aftur viðkvæmni lifrarinnar sem hráefnis hefur gert nýtingu hennar mjög erfiða.

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins bendir á að ástandið fari frekar versnandi að því er varðar nýtingu lifrarinnar. Árið 1962 var þorskalýsismagn sem hundraðshluti þorskafla svo hátt sem 3.86%, en árið 1975 er það komið niður í 1.20%, þannig að þarna hefur greinilega orðið afturför. Það er almenn vitneskja að hér áður fyrr á gömlu togurunum var öll lifur brædd um borð, og þá fengu skipverjar sína lifrarpeninga sem nokkurs konar uppbót á sinn hlut og þótti ekki það lítill að ekki væri vert að leggja sig niður við að nýta hana. Í dag er það þannig að lifur mun brædd um borð í aðeins einum togara, og þó eru nokkrir af okkar skuttogurum með bræðslutæki. Aðeins tveir eða þrír skuttogarar munu nú koma með lifur að landi eftir þeim upplýsingum sem ég hef getað aflað mér. Ég skal ekki fullyrða um réttmæti þeirra, en nær sannleikanum hef ég ekki komist hjá þeim aðilum sem ég hef mínar upplýsingar frá. Þó er það staðreynd að lifrin úr skuttogurunum er miklum mun stærri og betra hráefni heldur en lifrin af bátaflotanum. En bátaflotinn mun sjá fyrir allt að því 95% af þeirri lifur sem að landi kemur.

Lagmetisiðnaður okkar á í vök að verjast og hefur átt í vök að verjast ýmissa hluta vegna. M.a. hefur óhagstæð þróun í tollamálum á undanförnum árum háð mjög þeirri starfsemi. Það tók svo til fyrir útflutning til Efnahagsbandalagsríkjanna á meðan bókun 6 í samningi okkar við bandalagið kom ekki til framkvæmda vegna fiskveiðideilunnar við vestur-þjóðverja og breta, og útflutningur á niðursoðinni lifur og hrognum, grásleppukavíar, til Frakklands, kavíar einnig til Ítalíu og á niðursoðnum hrognum til Bretlands var svo til alveg úr sögunni. Nú hafa þessi mál að sjálfsögðu færst í eðlilegra horf, eftir að bókun 6 hefur tekið gildi eins og til stóð.

Íslenskir lýsisframleiðendur telja að það mundi vera hægt að selja mun meira af meðalalýsi til útflutnings ef meira framboð væri á góðri og ferskri lifur hér heima. Líka væri eðlilegt að athugað væri hvort aukin framleiðsla fóðurlýsis gæti ekki létt eitthvað á útgjöldum bænda fyrir rándýran fóðurbæti sem orðinn er einn af þungbærustu rekstrarliðum landbúnaðarins.

Ég hef nýlega fengið í hendur upplýsingar frá verksmiðjustjóranum í niðursuðuverksmiðju Haralds Böðvarssonar á Akranesi, Ingimundi Steinssyni. Hann var á ferð í Vestur-Þýskalandi s.l. sumar og gefur þær upplýsingar að hann hafi hvar sem hann fór orðið var við mikinn áhuga á íslenskri þorskalifur niðursoðinni. Vesturþýskir kaupendur hafa reynslu,af íslensku lifrinni og róma mjög gæði hennar. Það er staðreynd að vegna sívaxandi mengunar í heimshöfunum eru vaxandi erfiðleikar á að fá nothæft hráefni til lifrarniðursuðu, ekki hvað síst vegna þess að lifur er sérstaklega viðkvæm fyrir mengun. Þykir því allt benda til þess að Ísland og Norður-Noregur verði í framtíðinni helstu framleiðslulöndin á þessu sviði. Lifur úr Eystrasalti er ekki lengur gjaldgeng talin vegna mengunar.

Ingimundur heimsótti í þessari ferð þrjár borgir, Hamborg, Cuxhafen og Bremerhafen, og alls staðar var áhuginn jafnmikill. Í Cuxhafen var honum af fyrirtæki, sem hann tilgreinir, gert tilboð um kaup á 500 þús. dósum af niðursoðinni þorsklifur. Hver dós mun vega um 120 grömm. Honum var tjáð þarna og viðar að allri íslenskri lifur, sem mögulegt væri að útvega, yrði tekið fegins hendi á mörkuðum í Vestur-Þýskalandi, og jafnframt að það mundi ekki verða deilt um verðið. Ekki verður betur séð af ofangreindum upplýsingum en að þarna í Vestur-Þýskalandi séu miklir markaðsmöguleikar vannýttir, fyrst og fremst vegna þess að hráefnið sjálft, lifrin, er ekki nýtt neitt nándar nærri sem skyldi hér heima. Ingimundur varð einnig var við mikinn áhuga þarna í Vestur-Þýskalandi á kaupum frá Íslandi á reyktum karfa í matarolíu og fleiri unnum sjávarafurðum, Þjóðverjar virtust fúsir til að veita tæknilegar leiðbeiningar við vinnsluaðferðir og jafnvel fjárhagslega aðstoð ef óskað væri. Alla þessa möguleika þarf að sjálfsögðu að kanna og nýta til hins ítrasta.

Við athugun mína á þessu máli hef ég orðið vör við mikinn áhuga, bæði hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, lýsisframleiðendum og þeim sem við lagmetisiðnaðinn fást. En vandamálið er alls staðar það sama, það vantar hráefnið, það vantar stöðugt framboð af góðri lifur sem hægt er að nýta til niðursuðu og okkur vantar það inn í okkar útvegsmál að lifrin sé hirt einnig til bræðslu.

Það hefur margoft verið talað um tregðu íslenskra útvegsmanna og sjómanna til að hirða lifrina, að hún valdi miklu um þá öfugþróun sem hér á sér stað. Það eru til vissar skýringar á þessari afstöðu, en þó ekki haldbærar. Ein skýringin er sú, að það hefur aukist feikimikið framboð á feitmeti á heimsmarkaðinum og lýsisverðið hefur þar af leiðandi verið nokkuð lágt, þannig að ekki hefur þótt svara kostnaði eða varla að hirða hana. Það hefur hins vegar komið í ljós, að til þess að mæta þessum vanda með lítið geymsluþol lifrarinnar hafa verið kannaðar og reyndar aðferðir sem lofa góðu um betri árangur, þ.e.a.s. ísingu lifrarinnar í plastpokum í vel ísuðum kössum. Mér er tjáð að þarna megi auðvitað nota þá frystikassa sem almennt eru notaðir um borð í skuttogurum. Þessar tilraunir sýna að geymsluþol lifrarinnar getur náð allt að 10 dögum, en hefur hingað til verið talið ekki meira en 2–3 dagar, svo að þarna er sjálfsagt að reyna betur nýjungar til þess að koma þessum málum í betra horf. Það er líka svo, að á mörgum skuttogurum okkar eru ekki tæki sem til þarf að geyma lifrina um borð og því siður að bræða hana. Uppsetning slíkra tækja er mér sagt að muni nokkuð kostnaðarsöm, en þó hef ég hvergi, þó ég hafi ítrekað leitað eftir, getað fengið nákvæmlega áætlaðan kostnað, hvað það mundi kosta að koma upp góðu bræðslukerfi um borð í togurunum eða jafnvel aðeins geymslutönkum sem síðar væru fluttir í land til bræðslu í vinnslustöðvum í landi. En öll þessi atriði verður að kanna nákvæmlega, og ég teldi það t.d. sjálfsagt mál að sá tækjabúnaður, sem útgerðin þyrfti að leggja í í þessu sambandi, væri styrkhæfur frá fjárfestingarsjóðum útvegsins á sama hátt og aðrar fiskvinnslustöðvar.

Það var sú tíðin að lifur og lýsi voru helsta lífsbjörg fólks við sjávarsíðuna á Íslandi, og ég minnist þess, þó að ég sé nú ekki mjög við aldur, að í gamla daga var lýsisbræðingur notaður sem viðbit og þótti gott, þó ekki eins gott og smjörið, og þess vegna var heimilisfólki og þá börnum á heimilinu gert að skyldu að borða eina sneið fyrst með lýsisbræðingi og kæfu áður en smjörið kæmi á næstu sneið. Og þetta voru engir nauðungarskilmálar því að þetta var ljómandi fæða. Ég man líka eftir lýsisflöskunni á búrhillunni sem kom á vettvang á hverjum morgni með hafragraut og slátri, og ég minnist líka grútarkaggans á sjávarkambinum, en áður fyrr var grútur notaður til þess að bera hann á viðarhlunna og hvalbein sem sett voru í fjöruna þegar bátar voru settir fram til sjávar eða dregnir á land þegar heim kom. Þar fyrir ætla ég ekki að hafa hér uppi neina grútarrómantík, Ég veit að það er ekki grúturinn sem við viljum framleiða. Við viljum vinna góða vöru, þó að grúturinn væri á sínum tíma gjaldgengur til sinna nota. En hér komum við einfaldlega að þessu atriði, að á þessum tímum fljóttekins gróða og peningaflóðs hefur nýtni, ráðdeild og sívakandi hirðusemi gagnvart hvers konar verðmætum ekki verið jafnhátt skrifaðar dyggðir og áður var í íslensku þjóðlífi.

En ég vil að lokum endurtaka það, sem segir í niðurlagi grg. till., að við flm, vonum og trúum því að till. þessi verði stjórnvöldum hvatning til skipulegra aðgerða í þessu máli, og ég er sannfærð um að íslenskir sjómenn láta þá ekki á sér standa.

Ég vil svo, herra forseti, að lokinni þessari umr, fara þess á leit að till. verði vísað til hv. atvmn.