02.05.1977
Efri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4054 í B-deild Alþingistíðinda. (3094)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. greinargóð svör hans við spurningu minni. Hv. þm. Ásgeiri Bjarnasyni þakka ég það hins vegar ekki, að hann skyldi ekki nota þetta tæki­færi núna er honum gafst þó til þess að reka enn þá betur erindi kjósenda í Vesturlandskjördæmi sunnan Skarðsheiðar heldur en hann gerði með því að senda einstökum ráðh. ljósrit af fundarsamþykktinni sem einróma var gerð. Þetta hefði honum þó verið í lófa lagið að gera með þeim hætti að nota ekki tækifærið hér í d. til þess að vefengja alvöruna sem bjó að baki þeirrar einörðu samþykktar sem ég áðan las og samþykkt var einróma á þessum fundi í viðurvist þm. og annarra þm. kjördæmisins, að vísu að frátöldum, að því er mér skilst, hv. þm. Benedikt Gröndal, sem mun hafa verið horfinn af fundi þó nokkru fyrr en farið var að ræða þar um nokkurs konar samþykkt.

Ég var ekki á þessum fundi, en hef fyrir mér orð fundarstjóra, séra Jóns Einarssonar í Saurbæ, að þar hafi verið, svo sem þm. sagði, nokkuð yfir 100 menn á fundinum þegar flest var. Þess skal getið, að þm. kjördæmisins, sem til fundarins boðuðu, höfðu þá aðferð að fela oddvitum að boða til fundarins. Fundurinn var ekki opin­berlega boðaður, hvernig svo sem á því stóð, hvort einhverjir þm. hafa ekki óskað eftir því að fá mjög mikla aðsókn að þessum fundi.

Það er rétt, að 65 manns af þeim sem á fundinum voru, en þeir voru þá orðnir nokkru færri, þegar ályktunin var borin upp, heldur en þegar flestir voru, — þeir menn, sem greiddu þessari ályktun atkv. sitt, voru 65 og mótatkv. voru engin, en nokkrir sátu hjá. En ástæðan var sú, að úr­skurðað hafði verið að vilja þm. kjördæmisins sumra hverra að einungis þeir kjósendur, sem ættu heima sunnan Hítarár hefðu þarna atkvæðis­rétt. Því var það að þeir fundarmenn úr kjör­dæminu, sem heimilisfang eiga norðan Hítarár, greiddu ekki þarna atkv. Ég staðhæfi það, að hv. þm. geti því engar ályktanir dregið af mismun á fjölda fundarmanna og þeirra, sem greiddu atkv., í þá veru að till. hafi ekki notið almenns stuðnings þarna. Hitt sker úr, að þarna var ekki greitt eitt einasta mótatkv. á móti till. í viður­vist þm. kjördæmisins.

Hv. þm. leyfði sér að draga það í efa, að einurð búi að baki ályktuninni, vegna þess að fundarmenn hafi ekki samþykkt till. hans um að kosin yrði sérstök n. manna, að kosnir yrðu sérstakir þrír menn til þess að flytja þessi skilaboð suður til Reykjavíkur um afstöðu manna í hreppunum sunnan Skarðsheiðar til málmblendiverksmiðjunnar. Þetta fólk hafði fyrir löngu, árið 1974, einmitt kosið sér þess háttar menn til þess að flytja þess háttar skila­boð til ríkisstj., þ. e. þingmenn kjördæmisins. Til þess voru þeir kosnir þá. Nú var þeim falið að bera þessi skilaboð suður, og vel mætti segja mér að til þess hafi verið ætlast af þeim, að þeir kæmu þeim með öðrum hætti en þeim að slá umslagi utan um ljósrit af þessari samþykkt og senda hana einstökum ráðh. Og efalaus er ég um það, að til þess hefur verið ætlast af þeim að þeir flyttu þessi skilaboð, sem samþykkt voru einróma, mótatkvæðalaust, á annan hátt en þann að nota fyrsta tækifæri úr ræðustól á Alþ. til þess að vefengja að þar hafi hugur fylgt máli.

Hæstv. forsrh. hefur boðað okkur það, að ríkisstj. muni fjalla um þessa beiðni kjósenda í Vest­urlandskjördæmi til ríkisstj. á reglulegum fundi sínum á morgun. Hann kvað ekki upp úr um það, en taldi sennilegt að niðurstaðan yrði sú að þessi beiðni væri of seint fram komin. Þá er þess náttúrlega skemmst að minnast, að það er þó um það bil vika síðan kjósendur þarna efra undirrituðu bréf, sem hv. þm. Ásgeir Bjarna­son vitnaði til áðan, með beiðni til þm. um að þeir héldu almennan fund þar efra um járnblendiverksmiðjumálið. Meiri hl. þm., þ. e. a. s. allir þm. að Jónasi Árnasyni undanskildum, taldi að það væri allt of seint að fara fram á slíkt, til þess væri enginn tími, en bauð hreppsnefndum úr fjórum hreppum sunnan Skarðsheiðar að koma suður til Reykjavíkur og ræða við sig í Þórs­hamri á laugardaginn var. Svör hreppsnefndanna til þm. voru aftur á móti þau, að íbúar þessara hreppa hefðu ekki beiðst heimildar til þess að heimsækja þm. suður til Reykjavíkur, um það hefði verið beðið, að þeir héldu fund efra um þetta mál. Það dróst um það bil viku að þm. yrðu við þessari beiðni kjósenda sinna. Þeir gerðu það þó, þeir skýrðu afstöðu sína og ríkis­stj. sinnar, stuðningsmenn stjórnarinnar, til málmblendiverksmiðjumálsins og fengu að heyra álit kjósenda um málið. Þarna var skipst á skoðunum, málið rökrætt og niðurstaðan af þeirri rökræðu, þeirri skoðun málsins liggur fyrir í þessari ályktun, þar sem beðið er um að með­ferð málsins verði frestað á Alþ. til þess að íbúar hreppanna sunnan Skarðsheiðar geti látið í ljós á fyllsta lýðræðislegan hátt hugsanlega afstöðu sína til verksmiðjunnar, að þeir fái að verða sem slíkir umsagnaraðilar um þetta mál, þannig að þeir geti notið þess réttar, sem hæstv. iðnrh. hefur lýst yfir til handa þegnunum, að ráða því hvort stóriðjufyrirtæki verði sett niður í byggðum þeirra, því að það ætla ég að muni almannarómur, að engin ástæða sé til þess að borgfirðingar njóti ekki sams konar réttar af hálfu ríkisstj. og t. d. eyfirðingum er ætlaður.

Þá er þess og að geta, að fleiri grannar fyrirhugaðrar verksmiðju við Hvalfjörð hafa látið uppi mjög einarðlega afstöðu sína og óvefengjanlega í þessu máli. Ég vil minna á það, að hér liggur frammi bréf varðandi undirskriftasöfnun íbúa Kjósarhrepps, undirritað af 77 af 91 hrepps­búa sem heima við voru og til náðist, eða yfir 80% íbúa hreppsins. Það er svo hljóðandi:

„Við undirritaðir íbúar Kjósarhrepps skorum hér með á hið háa Alþ. að fella fram komið frv. um járnblendiverksmiðju að Grundartanga í Hvalfirði, þar eð við teljum að af verksmiðjunni hljótist meira tjón en ávinningur.“

Með fylgir eiginhandarundirskrift yfir 80% íbúa hreppsins sem til náðist. Þetta undirritaða skjal var afhent þm. Reykjaneskjördæmis 30. apríl.

Nú er það ekki svo, að þeir íbúar hreppanna fjögurra sunnan Skarðsheiðar, 65 að tölu, sem greiddu atkv. með þessari einróma ályktun sem samþykkt var á fundinum efra í Heiðarborg í viðurvist þm. sinna á fundi sem þm. höfðu sjálfir boðað til með þeim hætti sem þeir kusu, að þessir kjósendur ætlist til þess að sá vilji þeirra, sem fram kemur í ályktuninni hérna, verði látinn skera úr um þetta mál, heldur fara þeir bein­línis fram á að höfð verði leynileg atkvgr. kosningabærra manna í héraðinu til þess að það geti fengið að koma í ljós, svo óyggjandi sé, hvern hug þeir beri til hinnar fyrirhuguðu verksmiðju.

Ég óskaði þess við hæstv. forseta d. að hann frestaði meðferð málsins hérna í d., 2. umr. um málið, þar til fyrir lægi svar ríkisstj. við þessari beiðni. Ég ítreka það: Ég óskaði þess ekki af honum að hann frestaði meðferð málsins í d. þar til fyrir lægi niðurstaða af hinni leynilegu atkvgr., heldur aðeins þar til fyrir liggur svar ríkisstj. Þetta tel ég ákaflega þýðingarmikið vegna þess að hér verður tekin ákvörðun um grundvallarsjónarmið. Það hefur aldrei fyrr skeð að reist væri fyrirtæki á borð við það sem ætlunin er að reisa á Grundartanga í Hvalfirði í mannabyggð gegn eindregnum vilja íbúa héraðsins. Hæstv. iðnrh. hefur lýst skorinort yfir því, að ekki komi til mála að hann beiti sér fyrir því að þess háttar iðjuver rísi í byggðarlögum gegn vilja íbúanna.

Undir þessu svari ríkisstj. er það að verulegu leyti komið hvernig fjallað verður a. m. k. af minni hálfu og e. t. v. fleiri formælenda stjórnarandstöðunnar um þetta mál hér á þinginu. Og aðeins þetta: Ég er alveg viss um það og hirði ekki að fara nánar út í að rökstyðja það, — ég er alveg viss um að það mun ekki tefja afgreiðslu málsins hér í d. að beðið verði eftir svari ríkis­stj. Ef hæstv. ríkisstj. er mjög mikið í mun að flýta enn meir fyrir afgreiðslu málsins, þá er það á valdi hæstv. ráðh. að fjalla um málið á auka­fundi, koma saman til þess að ræða þetta eina mál og taka afstöðu til þess, ef svo ákaflega mikið er í húfi. En ég er alveg viss um að það mun taka lengri tíma að fjalla um málið hér í d. ef ekki verður beðið eftir því, að fyrir liggi svar ríkisstj. En hér er ekki um að ræða hótun um málþóf af minni hálfu, nema síður sé. Við höf­um ekki átt því að venjast hér í d. af hæstv. forseta síðan ég kom í hana, að hann felldi hér aðra úrskurði eða viðhefði önnur ráð við fund­arstjórn hér en þau sem hann telur sjálfur best og réttust.