02.05.1977
Efri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4061 í B-deild Alþingistíðinda. (3097)

Umræður utan dagskrár

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef hlustað á málflutning hv. 5. þm. Norðurl. e. bæði í iðnn. og í sölum þessarar virðulegu d. og tel mig knúinn til þess að segja hér nokkur orð, sem ég veit að lægja þær öldur sem eru í hámarki um þessar mundir, við suðupunkt eftir útliti hv. þm.

Ég held að það sé mesti misskilningur að erindi fundar þess, sem hann gat um að haldinn hafi verið í gær og nýlega var ákveðið að boða til, hafi verið lengi á leiðinni, það hafi borist seint þess vegna. Það hefur borist með þeim hraða að hæstv. ríkisstj. hefur fengið erindi og samþykktir þessa fundar snemma á mánudagsmorgni, og ég tel að ekki fái öll erindi þann forgang inn á borð ríkisstj. að þau berist henni þetta fljótt.

Hv. þm. hefur mikið rætt í n. að það væri aðallega mengunarhættan, sem bæri að varast, og þar af leiðandi fyrst og fremst ætti ekki að leyfa að reisa þessa verksmiðju, járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði. En svo kemur samþykkt um að fram fari leynileg atkvgr. í kjördæminu þar sem verksmiðjan á að rísa. Við skulum þó vera sam­mála því, sem hv. þm. hefur sagt í n., að mengunin geti borist miklu víðar, þannig að ef leynileg atkvgr. eigi að fara fram, þá eigi hún að fara fram annars staðar en í kjördæminu eingöngu. Þetta yrði því nokkuð umfangsmikil atkvgr.

Hæstv. iðnrh. hefur svarað því, að framkvæmdir höfðu hafist áður en Alþ. tæki ákvörðun í þessu máli. Það er röng staðhæfing hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. og hann veit það.

En það, sem ég hefði helst viljað segja núna og ég vona að lægi þessar öldur, sem ég talaði um, er að barátta alþb.-manna, — ég er orðinn svo kurteis við vini mína hér á þingi að ég er hættur að kalla þá kommúnista, vegna þess að ég hef orðið var við að það fer í taugarnar á þeim, og ég skal þýða það orð, — barátta alþb.-manna gegn samþykkt frv. til l. um járnblendi­verksmiðjuna í Hvalfirði, sem þó var upphaflega hugmynd ráðh. Alþb., og enginn alþb.-maður hef­ur mótmælt að svo hafi verið, hefur beðið lægri hlut í Nd. Við lokaafgreiðslu þessa máls í þessari hv. d. er nú gripið til venjulegra örþrifaráða, að æsa fólk utan Alþ. til mótmæla. Það er ekki bara í þessu máli, það er í mörgum öðrum málum sem það hefur gerst, svo að þetta er engin ný baráttuaðferð. Ég vil að það komi hér fram sem mitt sjónarmið, að þeir, sem mynda meiri hl. á Alþ. og hafa þá trú að beri að varast þennan málflutning og baráttuaðferðir, megi ekki láta nokkurn bilbug á sér finna eða veikleikamerki og síst af öllu við afgreiðslu þessa máls nú í þessari hv. d. eða við umr. um málið.

Ég vil segja það fyrir mig persónulega, að haldi þessir ágætu fulltrúar Alþb. að þeim takist að skapa ótta eða flótta með slíkum vinnubrögðum, þá er það mikill misskilningur. Það gerir ekkert annað en að þjappa okkur saman í þá órjúfandi fylkingu sem Alþb. ræður ekkert við, hvorki með þessum baráttuaðferðum né neinum öðrum.