02.05.1977
Efri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4062 í B-deild Alþingistíðinda. (3098)

Umræður utan dagskrár

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Út af því, sem hér hefur komið fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., að einkennilega hafi verið staðið að boðun þess fundar sem haldinn var að Heiðarborg í gær, þá vil ég taka fram eftirfarandi:

Oddvitar hlutaðeigandi sveitarhreppa voru beðnir að sjá um að öll heimili hlutaðeigandi hreppa væru látin vita af fundinum, til þess að fundarboðunin kæmist til þeirra sem höfðu sent okkur undirskriftaskjalið þá nokkrum dögum áður. Ég hygg að þetta sé sú besta fundarboðun sem hægt er að viðhafa. Vera má að öðrum finnist nóg að boða ekki á bæi, en auglýsa nógu stíft í sjónvarpi og útvarpi. Það má vel vera. En ég er ekki þeirrar skoðunar. Og ég vantreysti ekki heldur þessum forsvarsmönnum sveitarfélaganna að hafa gert þetta á samviskusamlegan hátt. Ég þekki ekki oddvitana að öðru en samviskusemi í sínum störfum, og ég hygg að það hafi einnig verið viðhaft í þessu máli.

Það má vel vera að ég hefði átt að hafa allt annan hátt á við að afhenda hæstv. ríkisstj. þær ályktanir sem voru gerðar á fundinum í gær. Vera má að ég hefði átt að gera það í hádegis­útvarpi í dag og bíða þess að hæstv. ríkisstj. hefði heyrt það fyrst í útvarpi. En mér fannst það skylda mín, strax í morgun og ég hafði möguleika á, að senda þessa ályktun beint til hvers og eins ráðh., þannig að þeim væri kunnugt um þetta mál og þeir gætu þá ráðgast við í morgun eða farið að ræða málið sín í milli, hvað gera skyldi, áður en það kæmi til annarra aðila.

Þetta tvennt vildi ég að kæmi hér fram, því að ég veit, að ýmsir aðrir mundu kannske hafa haft annan hátt á og gilt þá kannske einu hvort fundarboð kæmist fyrst og fremst til hlutað­eigandi aðila.