02.05.1977
Efri deild: 82. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4063 í B-deild Alþingistíðinda. (3100)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég verð að hryggja hæstv. forseta með því, að úrskurður hans er ófullnægjandi. Það, sem óskað hefur verið eftir, er að umr. verði frestað til morguns. Hann lét að því liggja að það væri samkomulag um hað milli ríkisstj. og stjórnarandstöðu að þingi lyki á miðvikudaginn. Ég veit ekki til þess, að stjórnarandstöðuþm. sé nokkuð að vanbúnaði að þing standi fram undir næstu helgi, og veit ekki til þess að þeir hafi borið upp neinar óskir um að þinginu ljúki á miðvikudegi frekar en einhvern annan dag síðar. Ég vil leiðrétta það hér, að okkur í stjórnarandstöðu er sannarlega ekkert að vanbúnaði að ræða þetta mál út vikuna ef þörf krefur. Ég vil sem sagt biðja menn að athuga það vandlega, vegna þess að hér er farið fram á að ríkisstj. gefi svar við mikilvægu erindi sem borist hefur, hvort ekki er hægt að verða við þessum tilmælum. Hér er um að ræða lýðræðislega kröfu sem fram hefur verið sett, og menn eiga bágt með að trúa því að óreyndu að flokkar, sem mjög kenna sig við lýðræði hvers­dags sem helgidaga, verði ekki við slíkri kröfu. Og eins og ég hef sagt, þá er ekki hægt að átta sig á því, hvernig tillöguflutningi af hálfu and­stæðinga þessa máls verði best hagað við 2. umr. málsins, öðruvísi en að svar liggi fyrir í þessu máli og því eðlilegast að umr. sé frestað.